11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég skal geta þess, að það er fyrst nú, sem mér barst frv. í hendur eins og það var prentað upp eftir að það var samþ. í hv. Nd., og er það rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að síðasta mgr. 4. gr. frv. hefir verið leiðrétt við uppprentunina, og er nú full meining í henni. Þegar fjhn. hafði málið til meðferðar, var ekki búið að endurprenta frv. og varð n. því að fara eftir brtt. eins og hún var samþ. í hv. Nd. eftir 3. umr. þar, og miðaði n. brtt. þá, sem hún hefir samþ. við frv., þannig, þótt skrifstofa Alþ. hafi lagað það við endurprentunina. Eins og frv. er nú, er hægt að láta þessa síðustu mgr. standa óbreytta.

Ég er hv. 1. þm. Reykv. sammála um ýmislegt af því, sem hann sagði, og það kom fram hjá mér þegar við 2. umr. þessa máls hér í hv. d., að ég er ekki ánægður með þá tilhögun, sem hér er höfð. Ég tel afaróheppilegt að hafa togstreitu um þetta fé á þremur stöðum í þinginu, í báðum d. og í Sþ. og þar með í fjhn. deildanna og fjvn. Mér finnst sá ágreiningur, sem hér er orðinn á síðasta stigi málsins m. a. sanna, að í þessum l. ættu aðeins að vera upphæðir, sem ætlaðar eru til nýrra vega, en skipta fénu að öðru leyti í fjárl. Ágreiningurinn hér í þessari hv. d. er um það, að ég álít, að skipti á þessu fé séu þegar framkvæmd og það væru einskonar samningsrof að fara að breyta því nú. Hv. þm. hélt því fram, að það væri ekki það sama að samþ. till. hans og að taka upp nýjan stafl. undir 2. tölul. 4. gr., vegna þess að þetta kæmi ekki til greina nema því aðeins, að afgangur yrði af þeim fjárveitingum, sem þegar eru ákveðnar af benzínskattinnm, en það er nokkurnveginn víst, að benzínskatturinn verður hærri en 285 þús. kr., og því er sama að samþ. till. hv. 1. þm. Reykv. og að taka upp nýjan stafl., þótt formið sé ekki nákvæmlega sama, það er 5 þús. kr. fjárveiting í vegi einhversstaðar á leiðinni frá Suður- til Norðurlands, sem Alþ. er að samþ. Það er búið að ákveða, hvernig afganginum skuli skipt og hvað eigi að fara í hvern veg, og álít ég það vera hálfgert að fara aftan að mönnum að breyta því á þessu stigi málsins.

Hv. þm. fannst ég eiga að vera með þessu af því, að ég teldi það gott mál í sjálfu sér. Sannarlega tel ég gott, að fénu sé varið til nauðsynlegra framkvæmda, en maður verður oft að neita sér um það, sem gott þykir. Síðastl. nótt greiddi ég hiklaust atkv. gegn fjárveitingum til míns héraðs, ekki af því, að ég teldi ekki, að fé væri veitt þangað, heldur vegna þess, að hefðu slíkar till. verið samþ., hefðu fjárveitingar til míns héraðs farið langt fram úr því, sem önnur héruð hefðu fengið, svo úr því hefði orðið hið fyllsta ranglæti. Sömu augum lít ég á þetta. Það hefir verið gengið út frá þeirri skiptingu vegafjár, sem í fjárl. er ákveðin, og álít ég ekki viðeigandi að fara að breyta því nú. Tel ég, að frv. eigi að samþ. með þeim breyt., sem greinir á þskj. 553, en get sagt eins og hv. 1. þm. Reykv., að ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli, en bendi aðeins á það, sem rétt er í málinu eins og það nú horfir við, og mun ég ekki fara að deila um þetta.