11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Það er rétt athugað hjá hv. 2. þm. N.-M., að ákvæðin eru ekki alveg eins í þessum tveimur tilfellum. En ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. fái önnur eins vandamál úr að ráða eins og það, hvernig fara á með þetta mál, verði það samþ. Ég geri ráð fyrir, að seinni hluta sumars verði komið í ljós, hvort ekki verður alltaf 5 þús. kr. afgangur, og þá er óhætt að leggja í þessar framkvæmdir, og ef þetta upplýstist ekki fyrr en eftir áramót og tíð þá ekki svo einmuna góð, að hægt sé að vinna þetta um háveturinn, held ég, að meira segja ég, sem stjórnarandstæðingur, yrði að trúa ríkisstj. fyrir að geyma féð. Framkvæmdirnar við Suðurlandsbrautina eru bundnar við 1940 vegna þess, að fyrr verður ekki séð, hver afgangurinn verður í heild, en ég geri ráð fyrir, að jafnóðum og sézt, hver hann er, verði tekið af honum til vinnunnar, eftir að 5 þús. hafa verið teknar fyrst. Tel ég ákvæðið um 1940 raunar óþarft í niðurlagi gr.

Ég álít, að þessi aths., sem er í sjálfu sér rétt, muni alls ekki valda örðugleikum.