11.04.1938
Sameinað þing: 19. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1939

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara út í almennar umr. um fjárl., því að það gefst væntanlega tækifæri til þess síðar, við 3. umr. sem verður útvarpað, og verður þá eldhús. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs til að segja nokkur orð í sambandi við þær brtt., sem við þm. kommfl. flytjum og útbýtt hefir verið á þskj. 232.

Þessar till. eru flestar annaðhvort samhljóða eða mjög svipaðar þeim brtt., sem við fluttum við fjárl. á síðasta þingi, og ég ætla hér að minnast á aðeins nokkrar af þeim þýðingarmestu. Ein þýðingarmesta till., sem við flytjum, er till. okkar um hækkun atvinnubótafjárins um 350 þús. kr., þ. e. a. s. að framlag ríkisins til atvinnubóta hækki um 350 þús. kr., sem þýðir hækkun atvinnubótafjárins alls, að meðtöldu framlagi bæjar- og sveitarfélaga, um rúma eina millj. kr. Þetta er sú till. ásamt öðrum till. til aukningar atvinnunnar í landinu, sem við leggjum mest upp úr. Þetta er sama till. og við fluttum á síðasta þingi og þá var felld. Þetta er lágmarkskrafa, sem bæði verkamannafélagið Dagsbrún og önnur verkalýðsfélög hafa gert um aukningu atvinnubótafjárins.

Þegar við flytjum þessa till. hér, gerum við ekki annað en skyldu okkar sem fulltrúar verklýðssamtakanna. Undanfarin ár hefir þessari kröfu um aukningu atvinnubótafjárins ekki verið sinnt af hv. Alþ., og á síðasta þingi var till. felld með öllum atkv. gegn þremur eða fjórum, og þá greiddu fulltrúar Alþfl. líka atkv. á móti henni. Þetta er frá okkar sjónarmiði ærið furðuleg afstaða. Það getur enginn neitað því, að þessi krafa um aukningu atvinnubótafjárins er á rökum reist. þar sem það er vitað að þúsundir alþýðuheimila eiga við skort og bjargarleysi að búa. Í verkalýðsfélögunum hefir þessi krafa verið samþ. einróma, og ég man ekki eftir því, að þeir þm. Alþfl., sem eru í verkaIýðsfélögum, hafi þar greitt atkv. á móti henni, og því furðulegra er það, að þeir skuli greiða atkv. á móti henni hér.

Það er ennþá meiri ástæða til þess nú heldur en nokkru sinni áður, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að auka atvinnuna í landinu. Í vetur hefir tala atvinnuleysingja verið hærri en undanfarin ár. Hér í Reykjavík hefir tala atvinnuleysingja verið, samkv. þeim tölum, sem Vinnumiðlunarskrifstofan hefir gefið út, um 200 hærri en undanfarin ár að jafnaði.

Þá flytjum við ýmsar aðrar till., sem miða með því að auka atvinnuna í landinu, t. d. um hækkun á framlagi til vega, eins og til Siglufjarðarskarðs, þar komi 50 þús. kr. í stað 10 þús. kr., og að lokið verði við Sogsveginn, þannig að veittar verði til hans allt að 70 þús. kr. gegn framlagi frá Reykjavíkurbæ, er nemi fjórðungi þeirrar fjárhæðar. Við teljum það sérstaklega nauðsynlegt, að þessum vegum, sem verið er að leggja á annað borð og eru á þýðingarmiklum samgönguleiðum, verði lokið það allra fyrsta, til þess að þeir geti komið að gagni. Ég fór um þessar till. okkar allmörgum orðum á síðasta þingi, þar sem við lögðum fram þá sömu till. um þessa vegi og sömuleiðis till. um stóraukið framlag til Suðurlandsbrautarinnar, sem tekin var upp í fjárl., að vísu í öðru formi, þar sem það var tekið af atvinnubótafénu.

Þá eru aðrar atvinnubótatill., sem við flytjum, m.a. að til byggingarsjóðs verkamannabústaða verði veittar af tekjum Tóbakseinkasölunnar 300 þús. kr., þ. e. helmingur af tekjum hennar, eins og l. mæla fyrir. Þetta atriði hefir verið rætt svo mikið bæði á síðasta þingi og á þessu þingi, að það er óþarfi að fjölyrða um þau rök, sem fyrir því liggja.

Loks flytjum við þá brtt. við 16. gr., að þar komi tveir nýir liðir, a. og b. Undir staflið a verði veittar 20 þús. kr. til hagnýtra jarðvegsrannsókna, og til þess að annast þessar rannsóknir verði ríkisstj. beimilað að ráða sérfróðan mann. Þetta er samskonar till. og við fluttum á þinginu í fyrra. Eins og ástandið er nú í gjaldeyrismálunum og vegna þeirrar yfirvofandi hættu, sem nú er á ennþá meiri örðugleikum í sambandi við Evrópustríð, þá hygg ég, að allir hljóti að vera sammála um nauðsyn þess, að hagnýta þurfi betur þau efni, sem til eru innanlands, t. d. eldsneyti og byggingarefni, sem hvorttveggja er eitt af því þýðingarmesta, sem við verðum að flytja inn frá útlöndum. Það er alveg áreiðanlegt, að eitt allra mest aðkallandi nauðsynjamál þjóðarinnar er það, að hafizt sé handa fyrir alvöru um þessar rannsóknir og að þeim verði hraðað, þannig að framkvæmdir geli hafizt hið bráðasta. — Þá er það b-liðurinn, og er hann í samræmi við till., sem við fluttum á þinginu í fyrra um sama efni. Þá var þetta í 4 liðum, og til þess að skýra það nánar, hvað átt er hér við, þá ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þessa liði eins og þeir voru í fyrra:

1. Til þess að athuga möguleika á því að reisa rafstöðvar og orkuveitur og framkvæma undirbúningsrannsóknir ... 20 þús. kr.

2. Til þess að athuga möguleika á því að hagnýta raforku frá orkuveri við Sog til húsahitunar í Reykjavík og ef til vill víðar ... 10. þús. kr.

3. Til þess að athuga möguleika á því að virkja til raforkuvinnslu eitthvert stórt fallvatn í þeim tilgangi að framleiða svo ódýra orku, að hægt sé að hagnýta hana til stóriðnaðar, t. d. áburðarvinnslu, ... 10 þús. kr.

4. Til skipulagðra vatnsrennslismælinga í fallvötnum, til þess að vinna úr þeim og gefa út skýrslur um þær.... 15. þús. kr.

Þetta höfum við nú fellt allt saman í einn lið, sem svo hljóðar: Til rannsókna á möguleikum til hagnýtingar á orkulindum landsins, svo sem vatnsorku og hveraorku, samkvæmt nánari tillögum orkuráðs. . . . 50000 kr.

Hér liggur fyrir þinginu frv. um orkuráð, sem ég geri ráð fyrir, að verði að l. Nú er það augljóst, að það kemur að litlu gagni, ef það hefir ekki yfir fé að ráða til starfsemi sinnar. Hér er um svo aðkallandi framkvæmd að ræða, að það má ekki minna vera en þessar 50 þús. kr. séu veittar til þessarar framkvæmdar, en það er svipuð upphæð og við lögðum til, að veitt væri til þessara rannsókna í fyrra.

Ég hefi þá stiklað á ýmsum af þeim till., sem við berum fram við fjárl., en ég býst við að fá tækifæri til að koma nánar inn á þær seinna. Við munum ennfremur flytja fleiri till., og býst ég við, að flokksmenn mínir muni taka til máls og skýra sumar þeirra nánar.