16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Forsrh.:

(Hermann Jónasson): Ég þarf ekki að svara þessari ræðu hæstv. atvmrh. með mjög mörgum orðum.

Það er þá fyrst viðvíkjandi gerðardóminum í Noregi. Hæstv. atvmrh. taldi, að það væri rangt, að l., sem samþ. voru í Noregi, hefðu verið hliðstæð því frv., sem hér liggur fyrir. Þetta er að því leyti rétt, að í Noregi er það forsrh., sem tilnefnir þrjá menn í gerðardóminn. En það má geta þess um leið, að af þessum þrem mönnum, sem hafa verið tilnefndir, er einn bændaflokksmaður, einn jafnaðarmaður og sá þriðji vinstri maður. Síðan tilnefna atvinnurekendur einn og verkamenn annan.

Ég þykist sjá, eftir því sem vinstri blöðin skýra frá þessu máli og tala um það, hvað mikils hlutleysis hafi verið gætt við skipun dómsins, að sennilegt er, að samkomulag hafi verið um þetta áður.

Ég get ekki séð, að það hafi við rök að styðjast, þegar kveða á upp hlutlausan dóm í máli, að annar málsaðili þurfi að hafa meiri hl. í dómnum. Ég get ekki séð nema þau elnu réttu rök, að hlutlausir menn eigi að dæma í þessum málum eins og öðrum. Og ég vil ekki heyra það, að nokkrar líkur séu til þess, að hæstiréttur mundi skipa hlutdræga menn í þennan dóm. Það getur hvorugur aðilinn gert kröfu til annars en að fá hlutlausa menn og hlutlausan dóm. Allt annað væri rangt.

Víðvíkjandi þeirri deilu í Danmörku 1933, sem ég minntist á, vil ég taka fram, að það var hluti af deilunni afgerður með því að lögfesta kaupgjaldið, en hinn hluti hennar var settur í gerðardóm. Í Danmörku hefir þetta verið þannig, að formaður sáttanefndar hefir tilnefnt einn mann og fasti gerðardómurinn tvo, og þar með formanninn, en það er hann, sem ræður aðallega úrslitum í dómnum. Forsrh. þar dettur ekki í hug að gera kröfu til þess að fá að skipa í dóminn. Þannig mun það hafa verið í þeim þremur vinnudeilum í Danmörku, sem skipaður hefir verið gerðardómur í. Þetta sýnir að þarna eru hliðstæðir aðiljar látnir nefna menn í dóminn og ætlazt er til með þessu frv. að verði gert hér, þar sem er hæstiréttur.

Um þetta þarf ég ekki að segja fleira að sinni. En viðvíkjandi þeim leiðum sem hæstv. atvmrh. benti á, að lögfesta kaupið fyrir saltfisksveiðarnar, en láta hinn hluta deilunnar eiga sig, er fyrst og fremst það að athuga, að með því er partur af deilunni og partur af till. sáttasemjara tekinn út úr en vitanlega eru allar þessar till. gerðar í sambandi hver við aðra. Og því hefir það stóran ókost í för með sér fyrir lausn þessa máls, að taka einn þátt þess út úr og lögfesta hann. Því að vitanlega raskar það þeim tilI., sem hafa verið gerðar, að taka aðeins einn þátt út úr.

Í öðru lagi má benda á, að þetta væri samskonar brot á þeim frjálsa samningsrétti — sem einnig ég vil vernda —, að setja lög um að festa samningsákvæði, sem sjómannafélagið hefir þegar fellt; og ekkert liggur fyrir um, hvort það hefir fellt samningana fyrir þennan þátt eða annan. Með því að ganga inn á þá braut — fram hjá bæði atvinnurekendum og sjómönnum — og lögfesta þetta sé ég ekki betur en þverbrotin sé hin almenna regla um samningsréttinn, og þá verði aðiljar að búa við svipaðan kost eins og ef gerðardómur dæmdi.

Þá benti hæstv. atvmrh. á, að síldveiðarnar væru langt fram undan og því ekki aðkallandi að ákveða neitt um kjörin þá. - Ef svo væri, að annarhvor aðilinn, segjum — sjómenn, væri ánægður með kjörin á saltfisksveiðum, en að þeir hafi fellt till. sáttasemjara vegna óánægju með síldveiðikjör, og hinn aðilinn, útgerðarmenn hafi samþykkt till. af því, að þeim líki vel sú regla, sem kaup yrði greitt eftir á síldveiðum, þótt þeim sé mjög móti skapi sú regla, sem farið er eftir á saltfisksveiðum, — og ef svo eru, að síðarnefnda aðiljanum fornspurðum, lögákveðin kjörin á saltfisksveiðum, en aðiljum eftirlátið að togast á um hitt, sjá þá ekki allir, í hvílíkt öngþveiti hér er stefnt? — Hvaða von er um, að það deilumál leysist sjálfkrafa í vor, ef ómögulegt er að leysa það nú? — Öll rök benda til, að deilan muni enn síður leysust í vor með samkomulagi. Hvað á þá að gera? — Gefa út bráðabirgðalög? Það yrði kannske eini möguleikinn, sem fyrir hendi lægi. En hvaða vissa er fyrir því, að nást mundi samkomulag um slík lög milli þeirra, sem með völdin fara? Og sjá menn ekki, hvert alvörumál og ábyrgðarhluti það væri að gefa út í sumar bráðabirgðalög um þetta viðkvæma mál, sem á að ræða fyrir alþjóð?

Eða á þá að kalla saman þing, ef deilan fæst ekki leyst áður? — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um slík óyndisúrræði og álit beinlinis rangt að tefla þannig á tvær hættur um þetta mál.

Það er spurt um, hvaða líkur séu til þess, að aðiljar muni hlíta gerðardóminum. Ég get sagt það rétt eins og er, að mér hefir ekki dottið í hug að leita fyrir mér hjá þeim, hvort þeir ætli að hlýða landslögum. Mér dettur ekki í hug að spyrja að slíku. Ég hefi bent á dæmi úr Noregi. Þegar allir aðiljar, allir flokkar, þ. á. m. kommúnistar, beygðu sig þar undir úrskurð gerðardóms, dettur mér ekki í hug, að útgerðarmenn hér og sjómenn neiti því fremur nú að hlýða landslögum. — Og hvaða líkur höfum við þá fremur fyrir því, að bráðabirgðalögum, sem stjórnin yrði að setja í sumar um síldveiði tímann, yrði hlýtt? — Og jafnvel þó að þing yrði í sumar, hvaða trygging er þá fyrir því, að lögum þess yrði hlýtt?

Í svo alvarlegu máli sem þessu verður þingið l að fara þá leið, sem er réttlát. Og þingið verður að treysta því, að borgararnir hér séu ekki ólöghlýðnari í þessu landi en öðrum. Það er það, sem ég ætla að treysta á.