16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og getið er í grg., er frv. þetta flutt af hæstv. forsrh., af því að hann á sæti í þessari hv. d., en annars er það flutt að tilhlutun okkar beggja og eftir ákvörðun Framsfl. Áður en 1. umr. lýkur, vildi ég segja nokkur orð um lausnir þær á þessum málum, sem stungið hefir verið upp á. Vil ég þá fyrst víkja að því, sem hv. 1. landsk. sagði. Hann sagði, að reikna mætti með því sem sjálfsögðum hlut, að verkalýðurinn og fulltrúar hans væru þessari leið andvígir. En hann gekk framhjá því, sem hér hefir verið upplýst, að í mörgum löndum hafa fulltrúar verkalýðsins gengið inn á þessa leið. Þessu hefir ekki verið mótmælt með rökum. Í Danmörku voru t. d. skipaðir gerðardómar, svipaðir þessum, sem hér er farið fram á. Þar stóðu Alþýðuflokkurinn og Radíkali flokkurinn að þeirri lausn málanna.

En annað atriði var eftirtektarverðara í ræðu hv. 1. landsk. Hann virtist gera ráð fyrir, að undir vissum kringumstæðum væri leyfilegt að lögleiða kaupgjald, nefnilega þegar annar aðiljinn hefði samþ. það. Það þýðir, að þvinga má annan aðiljann, en ekki hinn. Út af því fordæmi, sem gæti skapazt af þessu, vil ég segja, að væri óvandaðri eftirleikurinn fyrir þingmeirihl., sem væri hlynntur atvinnurekendum, að lögleiða kröfur þeirra í svipaðri deilu. Þá væri svo komið, að sá aðilinn, sem sterkari væri á þingi eða í ríkisstj., kúgaði hinn aðiljann eftir vild til að hlíta sínum skilyrðum. Þetta er sú hættulegasta leið, sem hugsazt getur.

Hv. 1. landsk. sagði, að þessi vinnustöðvun væri pólitísk vinnustöðvun. Rökstuddi hann þetta með því, að útgerðarmenn hefðu trássast við að ganga til samninga um málið. Ég vil þá benda á, að það voru ekki útgerðarmenn, sem sögðu samningunum upp, heldur fulltrúar sjómanna, svo að það er ekki rétt hjá hv. 1. landsk., að þetta sé pólitísk vinnustöðvun af hendi útgerðarmanna. En aðalatriðið í því, sem hann sagði, var það, að hann hefði ráð á reiðum höndum til að kveða niður þessa pólitísku deilu. Ráðið væri það, að framkalla af hálfu sjómanna till. um lágmarkskaup, er þeir vildu hlíta, en skipa svo bönkunum að láta gera út upp á þetta kaup. Hvar værum við staddir, ef gengið yrði inn á þessa leið? Þá gæti með sama rétti hver stéttin eftir aðra komið og sagt Alþ., að hún þyrfti að fá betri laun eða kjör, og væri þá einföld leið til að framkvæma þessar kröfur, nefnilega að skipa bönkunum að skipa fyrirtækjunum að greiða þetta.

Þessi leið er auðvitað ófær, að fyrirskipa, að málstaður annars aðiljans sé tekinn til greina, en ekki hins. Sama máli væri að gegna, ef stj. segði við útgerðarmenn: Við skulum gefa ykkur eftir svo og svo mikið af sköttum og tollum, ef þið viljið gera út. Þetta hefir Framsfl. ekki heldur dottið í hug. (SÁÓ: Þetta var gert 1929). En þar með er ekki sagt, að alltaf eigi að gera það. Hvað átti Alþingi að gefa útgerðarmönnum mikið eftir af sköttum og tollum, til þess að þeir gerðu út upp á þau kjör, sem sjómenn heimtuðu? Og hvað átti svo Alþingi að segja við aðra sjómenn, sem hefðu ef til vili komið með samskonar kröfur?

Það er sama, hvor leiðin er tekin, báðar eru ófærar. Ég veit, að þeir, sem eru að fitla við þessar leiðir, sjá það líka sjálfir.

Hæstv. atvmrh. talaði hér fyrir þeirri lausn, sem lögð er til af hálfu Alþfl. Ég verð að segja, að mér kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar hv. 3. landsk. er að deila á Framsfl. fyrir það. að hann hafi sýnt fjandskap gagnvart sjómönnum, og þá væntanlega í því að leysa úr þeirra málum hér á þingi. Mér kemur þetta kynduglega fyrir. Ég veit ekki til, að það hafi legið fyrir, að Framsfl. ætti að taka afstöðu um kaupgjald sjómanna. En þegar það liggur fyrir Alþ., að bera fram lagafrv. um þetta efni, þá tekur hann einn þátt úr till. sáttanefndarinnar, svo að það er undarlegt, að hv. 3. landsk. skuli deila á okkur framsóknarmenn fyrir að vilja ekki taka málagrundvöll, sem alls ekki liggja fyrir neinar till. um, ekki einu sinni frá Alþfl. Ég veit ekki betur en Alþfl. hafi með þessu frv. gengið inn á, að það sé ekki hægt að búast við sáttum í þessari deilu, og sú leið, sem hann leggur til, að farin sé, er að lögbjóða vissan hluta úr till. sáttasemjara, eða með öðrum orðum að lögbjóða kaup á saltfisksveiðunum. Sú eina till., sem fyrir liggur frá Alþfl., ber ekki með sér það, sem mér skildist vera undirtónninn í ræðu hv. 3. landsk., að hér lægi fyrir, að Framsfl. þyrfti að taka afstöðu til þess, hvort ætti að verða við kröfum sjómanna eða ekki. Það liggur aðeins fyrir sú leið frá Alþfl., sem felst í frv. hans.

Það er sem sé ekki deilt um það, hvort hægt sé að búast við því, að þessi deila verði leyst með samkomulagi milli aðilja. Bæði Framsfl. og Alþfl. eru sammála um, að þingið verði að grípa inn í deiluna, en það, sem deilt er um, er, hvor leiðin, sem bent er á, sé réttari.

Það hefir verið talað töluvert um það fordæmi, sem skapast við að samþ. þessar till. Það er annarsvegar farið fram á að lögleiða gerðardóm, þar sem meiri hlutinn er skipaður af hæstarétti. Það er að dómi hv. þm., sem talaði fyrir Alþfl., ófær leið, vegna þess að hún gefi svo hættulegt fordæmi. En á sama tíma leggur þessi hv. þm. til að lögleiða kaupgjald, sem sjómenn sjálfir hafa fellt að ganga að. (SÁÓ: Þeir hafa ekki fellt þetta). Þeir hafa fellt till. sáttasemjara í vinnudeilum, en þetta er einn kafli úr þeim till. Ég sé ekki, að það sé neitt verra fordæmi að lögleiða gerðardóm, sem skipaður sé af hæstarétti, heldur en að lögleiða kauptillögu, sem meiri hluti þeirra, sem við hana eiga að búa, hafa fellt.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það bæri brýn nauðsyn til að ganga ekki lengra í þessu máli en brýn nauðsyn bæri til, og taldi hann óhætt að skilja eftir þann hluta deilunnar óleystan, sem snerti síldveiðarnar og ísfisksveiðarnar. Hæstv. forsrh. hefir fært rök að því, að frá sjónarmiði okkar framsóknarmanna er þessi leið ekki fær, að skilja þennan hluta deilunnar eftir óleystan.

Ennfremur vil ég segja það, að jafnvel þótt þessi leið væri farin út af fyrir sig — sem ekki er hægt að okkar dómi —, þá mundi ekki álitið fært að slita út úr samhengi eitt atriði í till. sáttanefndarinnar, eins og gert er í frv. Alþfl., og gera það út af fyrir sig að l., af þeirri einföldu ástæðu, að það liggur ekki fyrir neinn vilji um það frá þeirri nefnd, sem um þetta hefir fjallað, þar sem nefndin hefir gert till. um málið í heild, og þá um saltfisksveiðarnar, með tilliti til þeirra till., sem gerðar voru um önnur atriði deilunnar.

Það er því af báðum þessum ástæðum þeirri, sem hæstv. forsrh. lagði áherzlu á, að við teljum ekki fært að skilja deiluna eftir óútkljáða, og þeirri ástæðu, að jafnvel þótt það væri fært, þá teljum við ekki fært að slita eitt atriði út úr till. sáttanefndarinnar —, að við teljum ekki fært að fara þessa leið.

Hv. 3. landsk. fór hér áðan nokkuð hörðum orðum um sáttanefndina, sem starfaði í þessu máli, og fannst mér satt að segja nokkuð óviðkunnanlegt, hverskonar orðum hann fór um starfsemi nefndarinnar. Hann sagði, að hún hefði verið flokkspólitískt lituð, vegna þess að tveir menn í henni hafi verið framsóknarmenn. Ég verð að segja, að það mun vera erfitt að fá starfhæfa menn til þess að taka þátt í lausn mála án þess að vita, hvaða flokki þeir fylgja, þótt þeir taki ekki þátt í pólitík. Ég verð líka að segja, að ummæli hv. 3. landsk. um starf nefndarinnar virðast ekki eiga mikla stoð í veruleikanum, þegar þess er gætt, að tili. nefndarinnar um lausn deilunnar eru felldar með aðeins 58 atkv. meiri hl. á fundi sjómanna. Þetta sýnir, að nefndin hefir ekki í till. sínum farið ósanngjarnlega í málið, því að eins og allir sjá, munar sáralitlu, að till. séu samþ. Ef 30 menn, sem á fundinum voru, hefðu greitt atkv. með till., þá voru þær samþ. Það verður lítið úr svigurmælum hv. 3. landsk. í garð nefndarinnar, þegar þessi staðreynd er athuguð.

Hv. 3. landsk. sagði, að ef hér hefði setið vinstrimannastjórn, þá hefði ekki komið fyrir, að deilan hefði strandað á þennan hátt. Ég vil þá spyrja hann að því, hvernig Alþfl. hefði leyst þessa kaupdeilu, ef hann hefði ráðið einn. við hvað á hv. 3. landsk., þegar hann segir þetta? Hvernig hefði Alþfl. leyst þessa deilu. og hvernig hefði hann leyst hana, án þess að komið hefði til aðgerða þingsins? Þessi ummæli hv. 3. landsk. koma ekki vel heim við það, að Alþfl. hefir nú einmitt flutt hér í þinginu frv. um það að leysa deiluna með valdi þingsins. Hv. 3. landsk. sagði, að það hefði verið skylt að láta sáttanefndina starfa áfram og athuga enn, hvort hægt myndi vera að fá samkomulag í þessari deilu. Þá vil ég spyrja hv. 3. landsk. að því, hvernig standi á því, að Alþfl. skuli hafa flutt hér í þinginu frv. um að lögleiða kaupgjald á saltfisksveiðum ofan í till. sjómanna, ef hann hefði trú á því, að hægt væri að ná niðurstöðu í deilunni með því að láta sáttanefndina starfa áfram. Hvers vegna flytur hann þá þetta frv., ef hann hefir trú á því, eins og kom fram hjá hv. 3. landsk.? Er ekki flutningur þessa frv. af hálfu Alþfl. skýlaus viðurkenning á því, að Alþfl. er eins og hæstv. atvmrh. sagði í dag, ljóst, að, deilan verður ekki leyst nema með þingvaldi, ef ekki á að verða sá skaði, sem þjóðfélagið ekki þolir? Þar sem þetta liggur fyrir, bæði með yfirlýsingu hæstv. atvmrh. og með flutningi frv. Alþfl., sem mig minnir, að hv. 3. landsk. sé 1. fim. að, þá kann ég ekki við ummæli af þessu tagi. Alþfl. hefði þá átt að leggja til, að sáttanefndin starfaði áfram.

Það er því ekki verið að deila um það, hvort aðgerða þingsins þurfi eða ekki, heldur um það, hvernig þær skuli vera. Það er deilt um það, hvort leiðin, sem Alþfl. bendir á, sé betri en sú leið, sem Framfl. bendir á. Við þykjumst hafa sýnt fram á með rökum, að leið Alþfl. er hvorki hættuminna fordæmi fyrir verklýðssamtökin í landinu í framtíðinni, og jafnframt langt frá því að vera líkleg til þess að skapa þann árangur í þessu máli, sem til verður að stofna.

Menn hafa verið að ympra á því, hvort hægt væri að fara eina eða aðra leið í þessu máli hér á þingi, með tilliti til þess, hvort menn myndu vilja fylgja l. Ég tel það ekki sæmandi fyrir alþm. að taka afstöðu sína til málsins út frá því sjónarmiði, hvort borgarar þjóðfélagsins muni hlýða l., sem sett eru á Alþ. Ég tel það eitt sæmandi, að ganga út frá því, að borgararnir fylgi l., sem Alþ. setur. Og elns og hæstv. forsrh., trúi ég því ekki, fyrr en ég sé það, að Íslendingar séu það öðruvísi innrættir en aðrir, sem sett hafa hjá sér samskonar reglur af minna tilefni, að þeir fari eftir æsingarorðum einhverra, sem vilja ala á úlfúð í þessu mikla vandamáli. Ég ræði því ekki um það, hvort ein eða önnur leið er líklegri í því skyni, af því að ég álít ekki sæmandi fyrir alþm. að gera ráð fyrir slíku.