16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

Magnús Jónsson:

Þótt mál þetta sé allathyglisvert, eins og sjá má af því, hve margir áheyrendur eru saman komnir hér, þá er málið raunverulega mjög einfalt og ekki ástæða til að halda langa ræðu. Sérstaklega verður málið einfalt, þegar menn hafa hlýtt á þessar umr. hér og heyrt til fulltrúa beggja aðilja, sem standa að þeim tveim frv., sem hér liggja fyrir og menn munu yfirleitt vera sammála um um allt þingið, nema e. t. v. kommúnistar.

Það vekur athygli manna, að bæði frv. virðast sammála um það, að Alþ. eigi að gripa inn og lögbjóða lausn á þeirri kaupdeilu, sem nú stendur yfir, svo að menn skyldu ætla, að málið væri ekki mikið hitamál flokka á milli, þótt það gæti verið hitamál í landinu, og þá einkum hjá þeim, sem hlut eiga að máli á móti Alþ.

Þótt ég hafi ekki ástæðu til að leggja margt til málanna, vil ég minnast á örfá atriði, sem komu fram í umr. nú síðast.

Hv. 1. landsk. sagði, að við sjálfstæðismenn vildum afnema verkfallsréttinn, og hann tók t. d. sem sönnun fyrir sínu máli bæði vinnulöggjöfina, sem borin hefir verið fram af hálfu okkar flokksmanna, og þau orð, sem ég hefi talað hér í dag. Ég verð að segja, að það þarf brjóstheilindi til að bera þetta fram fyrir þá, sem fylgjast nokkuð með í störfum Alþ., hvort sem er með því að lesa þingskjöl eða hlusta á umr., því að í vinnulöggjafarfrv. því, sem borið er fram af sjálfstæðismönnum, er einmitt sneitt hjá hverju því atriði, sem hallar í þá átt, að verkfallsrétturinn sé skertur, og í kaflanum um úrskurð milli aðilja í vinnudeilum er það mjög afmarkað svið, sem hægt er að fella úrskurð um, ef þessar stéttadeilur eru um kaup og kjör, og í ræðu minni tók ég skýrt fram, að það væri andstætt stefnu Sjálfstfl., að aðiljar sjálfir semdu ekki með sér um þessi mál á sama hátt og gert hefir verið. Ef svo hefði verið gert, eða sáttatilraunir tekizt, þá hefði lögboðinn gerðardómur aldrei verið settur. Að vísu hafa þessir samningar stundum gengið alltreglega, en þeir hafa þó tekizt. Ég álít, að ef litið er á sögu togaraútgerðarmanna og sjómanna á togurum, mundi sú saga sýna, að í slíkum samningum hefir verið gefið eftir á báða bóga svo mikið sem sanngirni hefir þótt mæla með. Ég held, að hv, 1. landsk. verði að snúa við með þá staðhæfingu sína, að við sjálfstæðismenn eða nokkur annar flokkur á Alþ., nema þá kommúnistar, viljum skerða verkfallsréttinn. Dæmin í Rússlandi munu sýna, að kommúnistar vilja skerða þennan rétt. Þar láta þeir fólkið vinna langt fram yfir venjulegan vinnutíma í öðrum löndum og skapa því kaup og kjör.

Sami hv. þm. hneykslast ákaflega á því, að við skildum nokkurn tíma og undir nokkrum kringumstæðum ætla að lögbjóða verð á þessari einu vöru, sem verkalýðurinn hefir til sölu, sem sé vinnu sinni, og fannst það mundi vera einsdæmi og óhæfa með öllu, að löggjafinn ætti að skipta sér af því. Ég vil ekki á neinn hátt hvetja til, að þetta sé gert, nema undir alveg sérstökum kringumstæðum. En ég vil benda hv. þm. á það, sem hann og hans flokkur eru svo frakkir á að halda fram, að löggjafinn eigi að grípa allsstaðar annarsstaðar inn í til að ákveða verð á vörum framleiðenda með allskonar skipulagi. Er það ekki hliðstætt að ákveða þannig verð á þeim vörum, sem framleiðendur lifa af, og svo því, að ákveða verð á þessari vöru verkalýðsins, vinnu hans? Það situr ekki á mönnum, sem skipulagningin eða þjóðnýtingin er svo rótgróin í, að tala um, að aðrir vilji lögbjóða eitt og annað. Hv. þm. hélt því fram, að það ætti skilyrðislaust að láta þjóðfélagið ráða í þessu. Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann vilji halda fram, að aldrei geti komið fram sú þjóðfélagsnauðsyn að löggjafanum beri skylda til að gripa inn í? Ég veit ekki betur en að hann og hans flokkur vilji oft grípa inn í með miklu gagngerðari ráðstöfunum, í tilfellum þar sem minna bil þarf að brúa en hér og bera fyrir sig þjóðarnauðsyn.

Ég er enginn málsvari hæstaréttar hér, en mér finnst bera svo mikil nauðsyn til að halda uppi virðingu fyrir lögum og reglum í landinu, að það ætti að vera leit að mönnum, sem vilja skerða virðingu manna fyrir æðsta dómstóli landsins. Hann verður oft að kveða upp dóma, sem einhverjir af þegnum þjóðfélagsins eru óánægðir með, og það veitir ekki af, að þjóðin standi fast saman utan um þessa stofnun. Ekki yrði hún betur stödd, ef grafinn væri grundvöllurinn undan hæstarétti og öðrum dómstólum landsins. Hv. þm. vísaði til afgreiðslu eins máls sem dæmi þess, að ekki væri treystandi úrskurði hæstaréttar, en þar kemur aðelns það venjulega fram, að sá reiðist, sem ekki fær sínum málstað framgengt. Hvort sá málstaður er réttur eða rangur, skiptir þá sjaldnast máli. En margir hafa vit á að bera þann harm í hljóði. Hæstiréttur dæmir eftir lögum og reglum, en engu öðru. Ef hæstiréttur er ekki fær til að skipa menn í þennan dóm, ef þjóðin getur ekki skipað sinn æðsta dómstól svo, að honum sé treystandi, þá veit ég ekki, hvernig slíkt þjóðfélag á að standa. Ef hver borgari á að geta komið fram og sagt, að hæstiréttur hafi dæmt sig ranglátt, og svo á að dæma eins og hann segir, að rétt sé, yrði erfitt fyrir þjóðfélagið að standa á eigin fótum. En vantraust hv. 3. landsk. og hæstv. atvmrh. á hæstarétti verður þeim mun einkennilegra, þegar þeir koma fram með þá till., að vísa skipun dómsins til pólitísks ráðh., og segja þar að auki, að þeir treysti dómi þess ráðh., aðeins af því að hann sé pólitískur. Ég held, að röksemdir slíkra manna gegn réttdæmi hæstaréttar verði ekki þungar á metunum. Menn geta næstum tárast yfir þeirri miklu viðkvæmni, sem hv. þm. lét í ljós, þegar hann talaði um, að úr þessu gæti orðið stjórnarkreppa. Þó að nokkur þúsund manns liðu sult og ríkið færi á höfuðið, það væri allt hægt að bera, en ef yrði stjórnarkreppa úr þessu, ef kreppan skyldi snerta þá háu stjórn, það var heldur verra.

Ég skrifaði hér hjá mér nokkur atriði úr ræðu hv. 3. landsk., en mér er tjáð, að hann sé bundinn á fundi og muni ekki geta mætt hér. En ég held samt, að ég verði að fara örfáum orðum um það, sem hann sagði.

Hann valdi sér það hlutverk að halda kosningaræðu. Hann fór ekki mikið inn á málið sjálft, en talaði líkt og ég geri ráð fyrir, að hann vilji tala á fundi þeim, sem hann er nú á. Hann hélt í rauninni ágæta ræðu, og ég get undirskrifað margt, sem hann sagði um okkar sjómannastétt, hvílíkir ágætismenn þar væru, og ég veit, að það er enginn, sem ekki er honum samdóma um það. Íslenzka sjómannastéttin er þekkt að ágætum, ekki einungis hér á Íslandi, heldur og svo langt út fyrir landið, sem hún er þekkt. Ég held, að hv. þm. fái engan til að tala illa um hana og fái sjómenn ekki heldur til að trúa því, að þeir eigi óvini hér meðal fulltrúa þjóðarinnar. Hér er aðeins verið að ræða um, á hvern hátt þessi deila verði bezt leyst, fyrst og fremst fyrir sjómennina, og þar að auki fyrir aðra þjóðfélagsborgara. En gallinn á ræðu hv. þm. var sá, að tilgangur hennar var ekki sem beztur. Hann var sá að reyna að koma inn óánægju hjá þessari stétt og telja þeim trú um, að þeir einir væru settir hjá, og það einungis af illmennsku. Hv. þm. lýsti kaupdeilunni, hvernig hún hefði gengið til, hvenær samningunum hefði verið sagt upp, og svo þegar hefði átt að semja, þá hefðu útgerðarmenn ekki svo mikið sem viljað tala við sjómenn.

Ég skal ekki fara að endurtaka svar hæstv. fjmrh. við þessu. Það voru sjómenn, sem sögðu samningunum upp, og sögðu þeim upp í því skyni að knýja fram kauphækkun. Svo reynist ákaflega erfitt að ná tali af útgerðarmönnum. Ég vil skjóta því fram til að sýna, hve mikil rök þetta eru, að við skyldum segja, að útgerðarmenn heimtuðu kauplækkun í sambandi við árangur rannsóknar þeirrar, sem fram hefir farið á hag útgerðarinnar, og vita hvort sjómannafélagið og aðrir foringjar sjómanna hefðu orðið ákaflega fljótir og fúsir til að ræða við útgerðarmenn um þetta. Nei, ég er viss nm, að það hefði reynzt ákaflega erfitt fyrir útgerðarmenn svo mikið sem að ná tali af þeim.

Málið hefir tvær hliðar. Annarsvegar er kaupkrafan, og enginn efast um, hve ágæt stétt sjómenn eru og hve mikið þeir eiga skilið, en þá ber líka að líta á þá hlíð, hve erfitt það er vegna dýrtíðarinnar, sem alltaf vex, að hækka kaupið. Dýrtíðin vex meðal annars vegna atbeina þessa hv. þm. og hans flokksmanna, og því er ekki hægt að neita, að krafa þeirra um, að greiddar séu fleiri krónur, jafnframt því sem ríkisstjórnin gerir hverja krónu verðminni, er nokkuð hörð. Þetta er önnur hliðin.

Nú er ekki einungis um sjómenn hér að ræða, heldur líka útgerðarmenn. Margir hv. dm. þekkja þá sögu betur en ég, en ég held, að allir, sem hafa komið nálægt því máli, séu á eitt sáttir um, hvernig ástæður útvegsins eru. Miklar breytingar eru orðnar frá því fyrir ekki mjög mörgum árum, að útgerðin stóð, að segja mætti, með miklum blóma, og til þess nú, að hún er á barmi glötunarinnar. Mþn. til að athuga hag sjávarútvegsins starfaði fyrir eitthvað 3 árum og gerði upp hag hans eftir skýrslum, sem safnað hafði verið um nokkur ár. Ástandið reyndist þannig, að í stað þess að útgerðarmenn höfðu átt allmikið af útgerðartækjum sínum, skip, hús, reiti og veiðarfæri og annað, sem til þessa atvinnurekstrar þarf, sem er furðu lítið samanborið við þær upphæðir, sem hann veltir, þá er nú, að heita má, allt komið í skuld. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem hafa haft tækifæri til að koma nálægt bönkum, eins og ég hefi haft, hafi séð sögu útvegsins skráða í bækur bankanna, og það er ófögur saga. Frá því að togarafélögin ýmist voru skuldlaus eða skulduðu mjög lítið greiddu flest skuldir sínar upp um áramót, er svo komið, að svo að segja hvert einasta þessara félaga er nú skuldum vafið, eignirnar farnar og ekki upp á annað rekstrarfé að hlaupa en lánsfé úr bönkunum. Þetta er saga málsins frá hinni hliðinni.

Ofan á annað bætist lokun bezta markaðarins, stórkostlegt aflaleysi í þeirri grein, sem menn væntu, að tæki verulegt tak í áttina til batnaðar, og á ég þar við síldveiðarnar í fyrra sumar. Þrátt fyrir góðan afla á síldveiðum síðasta sumar hefir útgerðin ekki gert meira en að halda í horfinu.

Hv. 3. landsk. og flokksmenn hans hafa e. t. v. manna bezt lýst þessu ástandi með því að leggja fram á síðasta Alþ. frv. um að leggja niður eitt stærsta togarafélag landsins og gera ýms önnur smátt og smátt gjaldþrota. Þegar þeir flokkar, sem ár frá ári hlaða á útveginn sköttum og tollum, bera fram kröfur um hækkað kaup, fara menn að skilja, að þar er ekki einungis um að ræða kjör sjómanna. Einmitt alþýðuflokksmenn hafa talað svo mjög um, að útgerðarmenn ættu ekki lengur skipin. Því hefðu einmitt þeir átt að telja þessa kröfu fjarstæða. Hvaða heimild hafa útgerðarmenn þá til að semja um hærra kaup við þessi fyrirtæki, sem þeir eiga ekkert í?

Eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk. var það, að hann sagði: „Við gerum okkur ekki ánægða með gerðardóm, nema hann verði skipaður af okkur“. Og tók til dæmis gerðardóminn í Noregi. Hann hefði verið ágætur, af því að þar væri alþýðuflokksmaður forsrh. og hann hefði skipað í gerðardóminn. En hinn aðilinn? Ætli, að hv. þm. sneri ekki við blaðinu, ef sagt væri, að sjálfstæðismenn ættu að skipa í gerðardóminn? Mundu þá aðrir en sjálfstæðismenn verða ánægðir? Það er engin önnur leið til í þessu en að reyna að fá svo óhlutdræga menn í gerðardóminn, sem mögulegt er, eins skynsama og þekkingarmikla og mögulegt er, og enginn aðili er hæfari en æðsti dómstóllinn til að skipa þessa menn. Þar gilda þær reglur, að ef hægt er að sýna fram á, að einhver dómenda sé venzlaður öðrum hvorum aðilja eða hafi látið orð falla, sem bundið geti úrskurð hans, þá verður sá maður að víkja úr dómnum. Ef velja ætti dómara, sem búinn væri að segja, að hann væri með öðrum aðilja, þá yrði erfitt að fá góða dómara. Hv. þm. sagði, að engin trygging væri fyrir því, að sá dómur, er hæstiréttur tilnefndi, væri óhluldrægur, og engar líkur til þess, að hann felldi dóm, sem báðir aðiljar gætu sætt sig við. Orð þessa hv. þm., sem halda því fram, að það eigi að skipa pólitískan dóm, eru ómerk. Það er hart, að þessir menn skuli standa upp, með vandlætingarsvip yfir því, að hæstiréttur á að tilnefna helmingi fleiri menn en dæma eiga, svo að báðir aðiljar geti rutt úr dómnum. Bæði hv. 1. landsk. og hv. 3. landsk. hafa haldið því fram, að dómurinn væri pólitískur og dregið það af því, sem hefir verið sagt um þetta mál. Það hefir komið fram hjá útgerðarmönnum, segja þeir, að útgerðarmenn vilji ekki sættir við sjómenn, en þeir töldu nauðsynlegt að gera nokkrar kröfur á hendur hins opinbera, og út af þessu kom grátstafur í kverkarnar á 1. landsk. út af stjórnarkreppunni. Deilan er pólitísk, segja menn. En er það pólitík, ef einhverjir menn sækja til stj. um að fá réttingu á sínu máli, og sækja það nokkuð fast. Ef svo er, þá eru margir menn pólitískir í þessu landi, og þá er þetta líka pólitísk deila. En í þessu öllu er gengið út frá því, þrátt fyrir allt, sem vitað er, að útgerðarmenn geti haldið útgerðinni áfram með því lagi, sem hún hefir verið rekin á undanförnum árum, og geti bætt dálitlu við útgjöldin. En mér finnst slíkt vera hrein fjarstæða.

Það, sem hér liggur fyrir, er ekkert annað en það, að það er algild sönnun og viðurkennt af hálfu aðilja af mörgum flokkum, að ég hygg, að útgerðin hafi ekki borið sig á undanförnum árum. Nokkur þúsund kr. halli hefir verið á rekstri hvers togara. Útgerðarmenn geta ekki haldið rekstrinum áfram, nema þeir fái einhverjar ívilnanir, annaðhvort auknar tekjur eða lækkun útgjalda, sem nemi nokkrum tugum þúsunda. Ef útgerðarmenn sæju ofsjónum yfir kaupi sjómannanna, gætu þeir reynt að ná þessari útgjaldalækkun með því að segja upp samningum og lækka kaup sjómannanna. Ef til vill yrði ekki svo mikill halli á útgerðinni, ef reynt hefði verið að ná tekjum inn þá þann hátt. En útgerðarmenn gerðu þetta ekki. Þeir sáu ekki ofsjónum yfir kaupi sjómannanna. Þeir völdu þá leið, að reyna að fá hið opinbera, bæi og ríki, til að lækka gjöldin, er á útgerðinni hvíla, og bæirnir féllust á að létta stórlega gjöldum af úfgerðinni.

Ég hygg, að rökstyðja megi sterklega og fylgja því fast fram, að þessi framleiðslutæki séu svo stórtæk og afli svo mikið í þjóðarbúið, að þjóðarbúið yrði að halda útgerðinni við. Það mætti ekki leggja þyngri kröfur á útgerðina en svo, að togararnir gætu haldið áfram. Þeir svara út í hött, segir Nýja dagblaðið.

Við viljum viðurkenna, að kjör sjómanna eru ekki of góð, en við höldum fast við það, að halli verður á rekstrinum með svona samningum, og við eigum að fá hann bættan hjá þeim aðiljum, sem mest eiga undir því, að togararnir geti gengið og gefið arð, nefnilega bæir og ríki. Mér þótti hæstv. fjmrh. gefa heldur köld svör í ræðu sinni. Mér skildist, að hann segði það með rólegum orðum, að það kæmi ekki til mála, að ríkið létti nokkrum kostnaði af útgerðinni til þess að leysa þessa deilu. Ég veit satt að segja ekki, hvað ég á að halda um afstöðu og skoðun hæstv. fjmrh. Hann lýsir því yfir, að hann standi við frv. um gerðardóm. Hann veit, eins og allir, að langmestar líkur eru til þess, að gerðardómur myndi kveða upp mjög svipaðan dóm eins og þann sem fyrir liggur í till. sáttanefndar. Nú er búið að gera tvær till. af sáttasemjara, og eina, og þá síðustu, af hendi sáttanefndarinnar, sem skipuð var, og eru þær báðar mjög svipaðar. Aðstaða gerðardóms er að vísu nokkuð önnur en sáttanefndar. Sáttanefnd á bara að sætta aðilja, en ekki að skipta sér af því, hvað er sanngjarnt, hvar sem unnt er að finna till., sem báðir aðiljar geti gengið að. En gerðardómurinn á að kveða upp eins réttan dóm og hann getur. Ég veit líka, og hæstv. fjmrh. veit það einnig, að samningar myndu standa í stað þrátt fyrir þetta. Hann veit eins vel og nokkur maður annar, hvernig hagur útgerðarinnar er. Hann ætti að vita betur en nokkur annar, að ekki er hægt að halda rekstri útgerðarinnar þannig áfram, að hún geti borið sig. Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér að leysa þetta mál, ef hann neitar að framkvæma eða leggja til, að framkvæmdar verði þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess, að þessi bezta mjólkurkýr landsins geti haldið áfram að lifa. Mig langar næstum til þess að spyrja hann, hvort hann vildi, að haldið yrði áfram að gera út togaraflotann. Hann er yfirmaður bankanna, og vildi ég því spyrja, hvort hann teldi það forsvaranlegt, að bankarnir héldu áfram að veita fjármagn til fyrirtækja, sem búið er að eins og nú er búið að togaraútgerðinni.

Ég skal ekki fara mikið út í það, sem hv. 3. landsk. sagði. Hann felldi krókódílatár yfir því, að ekki skyldu takast sættir. Kannske það hafi verið alþýðuflokksþingmannstár, sem ég kalla því nafni, er hann felldi? Mér finnst þetta vera í skerandi ósamræmi við það, sem hans flokkur, og raunar báðir þessir flokkar, hafa lagt til þessa máls. Það er alveg ómögulegt að spilla meira fyrir sættum í þessu máli heldur en hér hefir verið gert af hálfu blaðs Alþfl. um langan tíma. Málið á að hafa verið blásið upp með ósanngirni af hálfu útgerðarmanna, að sögn þessa blaðs, og annað þess konar. Ég verð að segja, að það er sízt að undra, þótt sjómenn felldu till. Maður gæti miklu fremur undrazt yfir því, að ekki skyldu miklu fleiri greiða atkv. gegn till. En af atkvgr. sézt, hvað þessir menn hugsa sjálfstætt. Þeir fara ekki meira eftir þessu blaði en svo, að næstum jafnmargir greiða atkv. með og móti þessari fjárráðatill. Þeir hafa ekki tekið meira mark á forustumönnum hans flokks og þeim blöðum, sem hann ræður yfir, en raun ber vitni. Ræða hans snerist öll í sömu átt; hann bara endurtekur. Kúgunin er ekki lítil, þegar þess er gætt, að hann flytur sjálfur hér frv. um nokkuð samskonar kúgun, þó að hún sé ofurlítið öðruvísi. Án þess að ég fari út í það hér, finnst mér það næstum hlægilegt, þegar þessir hv. þm. eru að tala um kúgun, en beita henni þó sjálfir, þegar þeir eru að hafa eitt og annað fram. Það eru nokkuð margir aðiljar, sem finnst hans flokkur undir stjórn hans flokksmanna hafa farið nokkuð hranalega að, þegar menn hafa verið að koma fram sínum kröfum. Nokkuð mörg kauptún hafa reynt, hve mikið sárar tilfinningar þeir hafa fyrir því, að ekki sé gengið á hlut nokkurra manna. Förum stutt, bara til Akraness. Þar vildu verklýðsleiðtogarnir reka bændur heim með ket sitt. Verksmiðjan þar er alveg vængstýfð, og settar fram kröfur um það, að ekki megi neinn vinna þar, sem ekki vill fylgja verklýðsleiðtogunum. Líklega er þetta víðar. Maður tekur ekki eins mikið tillit til þess, sem hann segir, eins og ef hann hefði alveg hreinan skjöld í þessum efnum.

Ég skal svo fara að ljúka máli mínu, en ég vildi bara ljúka því með því að minna þennan hv. þm. á það, sem er mjög eftirtektarvert, hvað þessi hv. þm. talar illa um sáttanefnd, sem hefir verið skipuð í þessu máli, og hve hann úthúðar með þeim sterkustu orðum því smánarboði, sem þessi nefnd hafi komið með til sjómanna. Nefndin var skipuð þannig, að meiri hl. var framsóknarmenn, ekki batnaði við það, að íhaldið var þar líka á ferðinni. Hann vildi ekki líta við þessu, því að þar var enginn maður, sem hafði nokkurn skilning á kröfum verkalýðsins eða Alþfl. Smánarboðið var svo ógurlegt, að út af því gat hann lagt í löngum kafla sinnar löngu ræðu. En rétt áður hefir hann skammað nefndina fyrir að gera ekki ofurlitið betra boð, en maður hefði getað haldið, að þá hefði þurft að bjóða allt annað. Einu mennirnir, sem ekkert eiga að fá annað en hreinasta smánarboð, eru sjómennirnir. Þeir fá ekki þá hækkun, sem þeim ber. Hvernig lifir hann eftir þessari reglu? Hann lifir eftir henni þannig, að nú vill hann lögbjóða part af þessu smánarboði. Hann og hæstv. atvmrh. töluðu um, að ekkert væri sannað um það, að deilan gæti ekki haldið áfram, og væri þá eftir að semja um kjörin á síldveiðunum í sumar, og á ísfisksveiðunum næsta vetur. En sérstaklega verður þetta merkilegt, þegar þess er gætt, að það skyldi eiga að kóróna allt saman, að þeir gengu inn á að lögbjóða þetta sama smánarboð. Það hefir flogið fyrir nýlega, sennilega bara fyrir sjómannafélagsfundum, að þeir væru að reyna að fá Framsfl. til að lögleiða alla þessa till. og skylda sjómenn til að taka þessu ægilega smánarboði. Það, sem þeir vilja lögleiða í sínu frv., er tilI. sáttasemjara, en ef nokkuð er lögleitt, hví skyldi þeir þá ekki lögleiða það allt saman. Spurningin er, hvað mikið þeir ætla að vinna fyrir það eina, sem fyrir þeim vakir, að geta fengið að sitja við völd ásamt Framsfl.