11.04.1938
Sameinað þing: 19. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1939

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Þessar till., sem fram hafa komið nú við fjárlagafrv. frá þm. Kommfl., myndu hleypa fjárl. fram um 1 millj. kr., ef þær væri samþ. Við lögðum fram á síðasta þingi frv. til l. um ýmiskonar skatta, sem hægt væri að ná jafnhárri upphæð með. Við erum líka reiðubúnir nú til að benda á sömu tekjuöflunarleiðir, sem hægt er að framkvæma. Ef þessar till. okkar verða samþ., þá erum við reiðubúnir til að sjá um, að ekki verði halli á ríkisbúskapnum. En ég sé ekki ástæðu til að láta prenta þessi frv. upp að nýju, á meðan ekki er útséð um, hvernig undirtektir eru undir þessar till. Þeir hv. þm., sem á undanförnum árum hafa verið með í því að mjaka fjárl. úr lá millj. upp í 17 millj., ættu ekki að óskapast yfir því, þótt komið sé með till. til útgjalda um 1 millj., þegar það er athugað, að þessar till. eru um fjárframlög til hinna nauðsynlegustu þjóðþrifamála, sem eru á dagskrá með þjóðinni, að auka atvinnu fólksins og auka á einn eða annan hátt þjóðarauðinn.

Það er búið að mæla með flestum stærstu till., en ég ætla að minnast nokkuð á ýmsar af hinum smærri. Fyrstu 2 till. eru niðurskurðartill., og ræddi ég um afstöðu okkar til þeirra í fyrra, svo að ég ætla ekki að endurtaka það nú. Við höfum tekið þarna upp nýja till. í sambandi við Vífilstaðahælið, 600 kr. til kvikmyndasýninga á hælinu. Bæði þar og víðar er þörf á því, að ýmislegt sé gert til að gera aðbúnað og dvöl þeirra, sem á heilsuhælum eru, skemmtilegri og þægilegri. Það hefir líka ýmislegt verið gert í því efni. Það lá fyrir fjvn. umsókn um þetta, sem hefir ekki verið sinnt, og þótti okkur því rétt að taka þetta upp.

Þá er till. um að reisa heita sundlaug á Siglufirði. Það er bæjarstjórnin á Siglufirði, sem sérstaklega hefir óskað eftir þessu. Öllum hv. þm. er kunnugt um, að það er sérstaklega mikil þörf á því að koma upp heitri sundlaug á Siglufirði, ekki sízt með tilliti til þess, hvað mikill fjöldi er þar af fólki á sumrin. Það er því sérstaklega mikil þörf á að hafa þar sundlaug með tilliti til heilbrigðis og hreinlætis. Hið sama er að segja um Neskaupstað, að það er allt, sem mælir með því, að Alþ. verði við ósk bæjarstjórnarinnar þar um að leggja fram þetta fé til sundlaugar þar.

Svo flytjum við till. um hækkun á styrkjum til bókasafnanna í Neskaupstað, Siglufirði og Vestmannaeyjum. Það lágu í fyrra fyrir þinginn till. um hækkun til bókasafnanna á Seyðisfirði og í Hafnarfirði upp í 2000 kr., og voru þær till. samþ. Það er óskynsamlegt að gera þarna upp á milli kaupstaða, og við höfum því leyft okkur að bera fram þessar till. um hækkun á- styrkjum til bókasafnanna í Neskaupstað, Siglufirði og Vestmannaeyjum. Mér finnst það ekki svo mikið, sem gert hefir verið til að hlynna að almennri menntun á þessum stöðum, að það muni ekki saka að hlynna að bókasöfnunum á þessum stöðum, eins og gert hefir verið við bókasöfnin á Seyðisfirði og í Hafnarfirði.

Þá höfum við tekið upp aftur till. um smástyrki til sjúkrasjóða verkamannafélags Akureyrar og verkakvennafélagsins Einingar á Akureyri. Þetta eru styrkir, sem hafa verið í fjárl., en voru afnumdir. ef ég man rétt, 1931 eða 1932. Bæði þessi félög hafa sterka sjúkrasjóði, og vinna þeir eins og sjúkrasjóðir annara félaga, sem hafa slíka styrki frá þinginu.

Þá höfum við tekið upp eina nýja till., sem fer fram á það að veita nokkurn styrk til lýsiskaupa handa börnum á Spáni. Það er ætlunin að úthluta þessu til hinnar íslenzku deildar norræna friðarfélagsins, sem er starfandi hér á landi. Það er rétt, að þingið sýni á einhvern hátt, að það vilji hlynna að því mannúðarstarfi, sem er verið að vinna í flestum lýðræðisríkjum til þess að draga úr hörmungum borgarastyrjaldarinnar á Spáni. Það er ekki stór skerfur, þótt þingið leggi þetta fram, og ég vona, að þessi till. fái góðar undirtektir hjá öllum.

Við viljum, að atkvgr. fari fram um þessar till. við þessa umr., með tilliti til þess, ef einhverjar þeirra verða felldar nú, hvort ekki muni þá hægt að velja einhverjar úr, sem samkomulag náist um.