17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Ólafur Thors:

Herra forseti! Ég verð að viðurkenna, að það hefir komið mér undarlega fyrir sjónir, með hverjum hætti stjórnarflokkarnir hafa rætt þetta frv. Ég hefi litið svo á, að hér væri um að ræða mál, sem væri þess eðlis, að hv. þm. ættu að finna til ríkrar ábyrgðar, þegar þeir afgreiða það. Þessu máli ætti því að halda utan við flokkadeilur. Ég hefi nú í ræðu hæstv. atvmrh. fengið nokkra skýringu á, hvers vegna þetta er svo mikið hitamál. Að öðru leyti vil ég leiða hjá mér umræður um það á milli hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. annarsvegar og hæstv. atvmrh. hinsvegar. En ég tel rétt að láta í ljós skoðun Sjálfstfl. á þessu máli, þó að það hafi þegar verið gert að nokkru leyti í hv. Ed. í dag.

Sjálfstfl. lítur svo á, að almenna reglan eigi að vera sú, að aðiljar sjálfir og einir ákveði kaupgjaldið. Þessi skoðun kemur ótvírætt fram í frv. því til vinnulöggjafar, sem borið hefir verið fram að tilhlutun flokksins á nokkrum undanförnum þingum. Þar er það skýrt ákveðið, að vinnudómur eigi ekki að hlutast til um kaupgjald. Það er því, eins og málsvari Sjálfstfl. í Ed. tók fram í dag, vilji flokksins, að sú almenna regla gildi. Hinsvegar viðurkennir Sjálfstfl., að svo geti borið undir, að það sé ekki aðeins réttur, heldur og skylda löggjafans að hafa afskipti af þessum málum, og nú standa málefni svo, að löggjafanum ber skylda til að láta þau ekki afskiptalaus. Mér sýnist það og upplýst við málflutninginn hér á þingi, að a. m. k. 3 stærstu þingflokkarnir séu sammála um þetta, og geri ráð fyrir, að Bændafl. líti einnig sömu augum á málið, en kommúnistar hinsvegar ekki. Viðurkenning Framsfl. kemur fram í frv. því, sem hér liggur fyrir, Sjálfstfl. í því að tjá sig fylgjandi því, og Alþfl. l, að einnig hann flytur frv. um lausn málsins. Mér skilst, að það sé viðurkenning allra flokka þingsins, nema Kommfl., fyrir því, að löggjafinn hafi bæði rétt og skyldu undir vissum kringumstæðum til þess að hafa afskipti af þessum málum. Um hitt má svo spyrja og deila, hvort það ástand, sem nú ríkir í þjóðfélaginn, gefi löggjafanum þennan rétt í sambandi við þá deilu, sem nú stendur yfir um kaupgjald á togurum. Ég hygg, að um það út af fyrir sig geti enginn ágreiningur ríkt, að hinn mesti voði grúfi yfir þjóðinni, ef svo ólánlega skyldi til takast, að niður félli útgerð togaranna yfir þorskveiðarnar. Enginn viti borinn maður getur dregið það í efa, að slíkt væri hrein þjóðarógæfa. Síðasti ræðumaður, hæstv. atvmrh., lýsti þessu mjög átakanlega frá sínu sjónarmiði, og ég er honum sammála um, að það böl, sem með þessu væri leitt yfir þjóðfélagið, væri svo geysilegt, að enginn maður mætti láta undir höfuð leggjast að gera það, sem í hans valdi stendur, til þess að afstýra þeim voða. Ég hygg, að ætla megi, að hér sé í húfi atvinna framt að 1000 sjómanna, og einnig sú landvinna, sem er í beinu sambandi við rekstur togaranna á vertíðinni og færir verkalýðnum í vinnulaun a. m. k. 2–3 mill. kr. Ég tel, að ef vertíðin bregzt ekki í ár, eins og hún hefir gert að miklu leyti 2 síðastl. ár, þá megi ætla, að sá gjaldeyrir, sem þjóðin fengi fyrir vertíðaraflann, yrði a. m. k. 6–7 millj. kr. Enginn viti borinn maður dirfist að neita því, að þessar tölur tala svo skýru máli, að allir ættu að geta sameinast um það að leggja fram ýtrustu krafta til þess að leysa þessa deilu. Það er öllum vitanlegt, að deila þessi er risin út af því, að sjómenn hafa með fullum rétti bent á það, að kaup ýmsra annara stétta í landinu hefir hækkað, á meðan þeirra kaup hefir staðið í stað. Hitt er líka upplýst mál, að hagur útgerðarinnar stendur það höllum fæti, að það er engin von til þess, að útgerðin geti af eigin rammleik tekið á sig nýjar byrðar, sem stafa mundu af auknu kaupgjaldi. Frá mínu sjónarmiði er það augljóst mál, að það er a. m. k. ákaflega varhugaverð braut að fara fram á, að ríkið taki beint á sig aukningu kaupgjalds til einstakrar stéttar í þjóðfélaginn. Eg hefi aldrei farið dult með það, að ég tel sjómannastéttina verðskulda fyllilega sinn skerf, en mér er ómögulegt að vera með neina hræsni um það, að ég tel, að togarasjómenn beri á engan hátt neitt skarðari hlut frá borði heldur en aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi. Enda þótt þessir menn muni telja sig eiga réttháa kröfu á kauphækkun, þegar borið er saman við það, að aðrar stéttir hafa fengið kauphækkun, þá mun enginn þeirra neita því, að kjör þeirra eru a. m. k. ekki verri, og ég held betri, heldur en bæði landvinnumanna hér í Reykjavík og annara fiskimanna, bæði hér í Reykjavík og nágrannaþorpunum kringum Faxaflóa, og raunar flestra annara sjómanna á þessu landi. Ég kann ekki við að standa hér með neinn barlóm fyrir eyrum sjómanna og því finnst mér rétt að segja, að ég álit eðlilegt, að þeir telji sig eiga nokkurn rétt til kauphækkunar, miðað við aðrar stéttir, en á hitt verður líka að líta, að þeirra hlutur er betri en margra annara, og að útgerðin getur ekki risið undir hærra kaupi, a. m. k. ekki svo að neinu nemi. Útgerðarmenn hafa með samþykkt till. sáttanefndar sýnt, að þeir vilja ekki láta smámuni eina standa á milli, en hver maður, sem vill rannsaka þau plögg, sem fyrir liggja um rekstrarafkomu útgerðarinnar, hlýtur að komast að raun um, að útgerðinni er ekki fært af eigin rammleik að hækka kaupið. Ég tel, að sá voði, sem er framundan, ef stöðvun verður á vertíðarútgerð togaranna, sé svo geigvænlegur, að það beri að brjóta hina almennu reglu um það, að aðiljar einir afgeri sín deilumál, og af þessum ástæðum viljum við sjálfstæðismenn ganga inn á að samþ. gerðardómsfrv. það, sem hér liggur fyrir, enda þótt við séum ekki almennt þeirrar skoðunar, að gerðardómur eigi að ríkja í þessu máli. Hæstv. atvmrh. vildi slá því föstu í sinni ræðu, að Sjálfstfl. hefði sýnt hugarfar sitt til sjómanna með því að vilja gera smábreyt. á niðurlagi 5. gr. frv., en í henni er því slegið föstu, að gerðardómurinn megi í sinni gerð aldrei dæma lægra kaup sjómönnum til handa heldur en gilti síðastl. ár. Ég skal fúslega viðurkenna, að það er auðvitað tæplega hægt að halda því fram, að það sé rökrétt hugsun í því að ákveða fyrirfram, hvaða kaup gerðardómurinn eigi að dæma, en ég skal hinsvegar jafnframt lýsa yfir því, að enda þótt ég vilji ekki, að þetta sé skoðað sem neitt fordæmi, þá tel ég, eins og atvik liggja nú fyrir, nauðsynlegt, að þetta ákvæði sé í frv., og er ég því í þessu sambandi ekki á sama máli og sá hv. þm. Sjálfstfl., sem flutti þessa till. Ég lét þessa skoðun í ljós í dag við ýmsa hv. þm. úr ýmsum flokkum, svo að þetta er ekkert nýtt, sem hefir risið upp nú, en ég vil, að þetta standi þarna, af því að ef gerðardómur ætti að dæma, hvaða kaup skyldi ríkja á togurunum. þá væri mikil hætta á því, að hann úrskurðaði, að togaraútgerðin væri svo nauðulega stödd, að hún gæti ekki risið undir því kaupi, sem greitt var á síðasta ári, en ég tel, að slíkt væri sama og dómur um, að togararnir lægju inni á vertíðinni. Þetta vil ég forðast, og þess vegna vil ég, að löggjafinn í þessu tilfelli taki fram fyrir hendurnar á gerðardómnum og marki málið innan þessa ramma.

Á þessu stigi málsins sé ég a. m. k. ekki ástæðu til að blanda mér inn í þá deilu, sem er á milli hæstv. forsrh. og hans flokks annarsvegar og hæstv. atvmrh. og hans flokks hinsvegar, um ágæti þeirra lausna, sem þeir bera fram hvor um sig. Fyrir mér er það aðalatriðið, að báðir þessir menn og báðir þeir flokkar, sem að þeim standa, hafa með sínum frumvarpsflutningi viðurkennt, að nauðsyn þjóðarinnar eigi að ganga fyrir sjáifræði verkalýðsins og atvinnurekendanna í því tilfelli, sem hér liggur fyrir. Það er höfuðefni málsins. Um þennan kjarna málsins erum við sjáfstæðismenn sammála báðum þessum hæstv. ráðh., en við fylgjum frv. hæstv. forsrh. og Framsfl. vegna þess, að við teljum, að það sé í eðlilegu áframhaldi af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til þess að sætta deiluaðilja, og það er trú mín, að það séu meiri líkur til þess. að samþykkt þessa frv. leiði til þess, sem við allir verðum þó að æskja eftir, að togaraflotinn fari tafarlaust á veiðar, heldur en þó að frv. hæstv. atvmrh. væri samþ. Okkur sjálfstæðismönnum var ekki kunnugt um það, þegar við ákváðum að fylgja þessu frv., að deilan innbyrðis milli stjórnarflokkanna um þetta mál væri svo hörð, að það mundi leiða til stjórnarskipta. Við áttum ekki, einkum eftir að fram kom yfirlýsing í frumvarpsformi frá Alþfl. um að ákveða kaupið, von á slíkri niðurstöðu, en við ákváðum að fylgja frv. Framsfl. vegna þess, að við töldum, eins og ég áðan sagði, að það væri ekki aðeins réttur, heldur skylda löggjafans að hafa afskipti af þessari deilu, í slíkt öngþveiti sem hún er komin, og undan þeirri skyldu vill Sjálfstfl. ekki færast, þó að hann gæti átt rólegri daga með því að láta stjórnarflokkana glíma um þetta.