17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Hæstv. forsrh. falaði sérstaklega fagurlega um réttinn til að lifa. Það er einmitt sá réttur, sem sjómenn eru að berjast fyrir í sambandi við þá deilu, sem hér er háð, og í sambandi við baráttu þeirra gegn frv. þessu. Sjómennirnir halda uppi togaraútgerðinni, því að það er þeirra vinna, sem hún byggist á. Það held ég, að Framsfl. sé bezt að gera sér ljóst í sambandi við afgreiðslu þessa máls og í sambandi við þær deilur, sem eiga sér stað milli togarasjómanna og útgerðarmanna. Það er hægt að reka togaraflotann, þegar sjómenn vilja vinna á honum, en það er ekki hægt, þó að útgerðarmenn vilji það, ef sjómenn vilja það ekki. Þjóðfélagið á líf sitt undir því, að verkamenn, og þar með sjómenn, vinni, en þjóðfélagið getur lifað án þess, að atvinnurekendur séu til. Þetta held ég, að Alþ. ætti að gera sér ljóst einmitt nú. Það vill oft vera svo, að það sé gengið framhjá því í þessum finu sölum, hvað það er, sem heldur uppi þessu þjóðfélagi, sem við lifum í, hverjir það eru, sem skapa þá peninga, sem ráðstafað er hér í fjárl. Það er með réttu talað um þann afskaplega voða, sem sé yfirvofandi, ef togaraútgerðin gengur ekki, en hvernig stendur á því, að hún getur ekki gengið? Verður það útgerðarmönnum að þakka, þegar hún fer af stað? Geta 20–30 útgerðarmenn rekið hana? Er þeim að þakka sú fiskframleiðsla, sem allt atvinnulíf Íslendinga byggist á? Þó að vald verkalýðsins sé ekki mikið í þingsölunum, þá er það þó það vald, sem þjóðfélagið byggist á, og þeim mönnum, sem ætla að stjórna þjóðfélaginu, er bezt að muna eftir því valdi, og það er líka bezt að muna eftir þeirri grundvallarstaðreynd, að það er ekki hægt að gera út togarana án sjómannanna, en það er hægt án „Kveldúlfs“ og „91lianee“, og án útgerðarmannanna, sem Landsbankinn og Útvegsbankinn gera út. Íslenzka þjóðfélagið hefir fengið að borga tapið af togaraútgerðinni. Íslenzka þjóðin hefir síðustu 20 ár orðið að borga svo skiptir tugum millj. kr. fyrir tap togaraútgerðarinnar. Íslenzka þjóðin hefir orðið að taka tjónið á sitt breiða bak, þegar togaraútgerðarmennirnir, þessir framtakssömu og duglegu menn, hafa farið með allt í hundana. Íslenzka þjóðin varð að taka á móti tjóninu, þegar Íslandsbanki fór á hausinn, og hún kemur til með að taka við töpunum, þegar Landsbankinn fer á hausinn, ef haldið er áfram eins og nú er gert. Það er þjóðin, sem fær að borga fyrir þetta, og það eru meira að segja bankarnir, sem báðir eru ríkisbankar, sem í ranninni eiga þessa togara, sem hér er verið að ræða um. Það er vitanlegt, að allir þessir togarar eru algerlega háðir valdi bankanna. Það er vitað, að hinn svokallaði eignarréttur útgerðarmanna á togurunum er hvergi til nema á pappírnum og í reikningsbókum bankanna. Í raun og veru á þjóðin togarana, eins og hún á bankana. Það er þess vegna þjóðin sjálf, sem á að ákveða, hvort gert skuli út, en það er ekki einkamál hinna svokölluðu togaraeigenda, það eru ekki þeir, sem eiga að fella úrslitadóm um þetta. Hinsvegar er sannleikurinn sá, að deilan stendur um það. hvort togaraútgerðarmenn hér í Reykjavik geti fyrirskipað, hvort gert skuli út, eða hvort sjómenn geti fengið framgengt mjög hófsömum kröfum, sem þeir koma með og enginn þingflokkur dirfist að mótmæla, að séu sanngjarnar. Sannleikurinn er sá, að rekstur togaraútgerðarinnar íslenzku er í rauninni orðinn hreinasta kviksyndi. Það er óhjákvæmilegt, að rekstur togaraútgerðarinnar verði tekinn fyrir, og það hefir hvað eftir annað verið bent á það einmitt hér á Alþ., og verið borið fram frv. í þá átt, að það verði í eitt skipti fyrir öll að gera upp óreiðuna og spillinguna, sem á sér stað í sambandi við togaraútgerðina. Deila sú, sem nú stendur yfir, og þær ástæður, sem til þess liggja, að þetta frv. um gerðardóm er fram komið, er hvorttveggja aðeins afleiðingar af þeirri óreiðu og því kviksyndi, sem togaraútgerðin er komin í, og það er engin varanleg lausn til á þessari deilu né þessu öngþveiti, sem togaraútgerðin er komin í, nema að beita róttækum aðgerðum og gera hana algerlega upp og sjá til þess að hún sé rekin á heilbrigðum grundvelli. Þegar verið er að ræða mál eins og þetta frv. um gerðardóm, þá er ekki til neins annað heldur en að taka hlutina við ræturnar, finna orsökina til meinsins og reyna að lækna það. Íslenzka þjóðin er búin að horfa upp á það, að bankarnir hafa síðustu 20 árin afskrifað töp, mestmegnis á togaraútgerð og fiskispekúlation togaraútgerðarinnar, sem nema um 40 millj. kr., m. ö. o., að meðaltali hafa bankarnir afskrifað þessi síðustu 20 ár upp undir 2 millj. kr. tap út af því braski og þeim rekstri, sem bankarnir og þeirra vildarvinir hafa haft með höndum. Spursmálið, sem liggur fyrir hjá íslenzku þjóðinni, er það, hvort þessu skuli haldið áfram, hvort þjóðin kærir sig um að láta þetta ganga svo til lengur eða hvort hún á að segja: Hingað og ekki lengra, þ. e. taka fyrir rætur meinsins. Hvaða afstöðu hafa aðiljar tekið í þeirri kaupdeilu, sem nú stendur yfir? Hvað hafa útgerðarmenn gert? Þeir hafa komið fram með þær kröfur, að ríkið yrði í raun og veru látið borga allt tapið. Þeir krefjast þess t. d. að fá yfirráð yfir öllum þeim gjaldeyri, sem inn kemur fyrir útfluttan fisk og fiskafurðir. Þeir krefjst þess, að þeim séu tryggð svo og svo mikil fríðindi frá ríki og bæjarfélögum, og segja, að svo framarlega sem þeir fái þetta, skuli þeir ganga inn á allt, sem sjómenn heimta. Hverju svara svo togaraútgerðarmenn, þegar reynt er að leggja sáttatill. fyrir báða aðilja í deilunni nú nýlega? Þeir svara í rauninni ósvífni og skætingi. Þeir svara alls ekki till., sem fyrir liggur, heldur allt öðru. Þeir segja: Við göngum inn á þessa till., ef við fáum allt, sem við höfum heimtað af ríkisstj. Hvernig mundi sterk stjórn hinna vinnandi stétta hafa svarað slíkri ósvífni? Með því að láta þessa togaraútgerðarmenn fá að vita, að það er alls ekki þeirra að gera kröfur; það eru þeir, sem eiga að þakka fyrir, meðan þeir fá að lafa í þeirri aðstöðu, sem þeir fá að hafa frá ríki og bönkum. Þannig hefur sterk stjórn verkamanna og bænda átt að svara slíkri framkomu af hálfu 20–30 braskara hér í Reykjavík. En hvernig svara svo sjómennirnir, sem halda þessari togaraútgerð uppi, mennirnir, sem hætta lífi sínu á sjónum til þess, að þessi togaraútgerð geti gengið í hvaða veðri sem er? Þó að till., sem lögð var fram, taki í raun og veru ekkert tillit til þess, sem var aðalatriðið hjá sjómönnum, að fá dálitla hækkun á síldarpremíunni, samþ. upp undir helmingur af þeim, sem mættu á fundinum, að ganga að þessari till. Sjómennirnir segja í raun og veru: Ef þið viljið taka ofurlitið tillit til okkar, sem vinnum á togurunum, þá skulum við samþ. þetta. Hvað var sjómönnum boðið? Þeim var boðin 10 kr. hækkun á togarakaupinu á saltfisksveiðum. Það þýðir 15 kr. hækkun á ári, þegar saltfisksveiðarnar standa yfir í 6 vikur. Dettur nokkrum manni annað í hug en að sjómenn álíti slíkt smánarboð? Hvað hefði legið nær en að sagt hefði verið við sjómenn af hálfu sáttasemjara: Þið hafið farið fram á hækkun á síldarpremíunni, og ef sildarmálið hækkar í verði, þá hækkar ykkar premía dálítið. Hvað þýðir það, að síldarmálið hækkar í verði? Það, að síldarútgerðin stendur sig betur við að borga hærra kaup. En einmitt í þessu atriði er kröfum sjómanna í engu sinnt, þó að þeim sé mjög í hóf stillt og þeir gefi í skyn, að þeir séu tilleiðanlegir til þess að slá af upphaflegum kröfum sínum, ef sanngjarnt tillit verði tekið til þeirra. Sjómennirnir, sem hafa margfalt lægri laun en forstjórar útgerðarfyrirtækjanna, svara kurteislega og eðlilega og vilja sýna ýtrustu hófsemi í kröfum sínum. Sjómenn hafa líka sagt meira. en að vísu ekki í sambandi við þessa deilu. Þeir hafa sagt, að þeir vildu, að togaraútgerðin væri gerð upp og komið á heilbrigðan grundvöll. Verkalýðurinn hefir krafizt þess, að togaraútgerðinni verði komið á heilbrigðan grundvöll, þannig að hægt verði að reka togarana sem lengst af árinu, svo að þjóðin hefði sem mest upp úr því, ríkið fengi sem mestan gjaldeyri og sjómenn sem mesta atvinnu. Hvernig hefir togaraútgerðin og sjálfur formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, hv. þm. G.-K., tekið í þá sjálfsögðu kröfu, sem sameinar hagsmuni sjómanna og þjóðarinnar sem heildar? Kveldúlfur hefir svarað þessu með því að láta sína togara ganga skemmst af öllum togurunum á veiðar. Baráttan, sem hér er háð, er því barátta um það, hvort eigi að fara eftir ráðum togaraútgerðarmanna og þess flokks, sem þeir beita hér fyrir sig, eða eftir ráðum sjómannanna og verkalýðsins yfirleitt og hans flokks.

Við vitum vel, hvar það hefir strandað, að hreinsað væri til í togaraútgerðinni. Það hefir ekki staðið á vilja bændanna í þessu landi, og vafalaust ekki vilja bændanna í Framsfl. Og mér er næst að halda, að það hafi ekki strandað á meiri hl. þingflokks framsóknarmanna. Það hefir strandað á Landsbankastjórninni og Landsbankaráðinu. Í því bankaráði og þeirri bankastj. sitja menn, sem ekki vilja, að óreiðan verði gerð upp, sem óttast að láta spillinguna koma í ljós; menn sem eru lengi búnir að stjórna atvinnulífi þessa lands, ásamt togaraútgerðarmönnunum, og eru samsekir þeim um óreiðuna. Þess vegna hylmir stj. bankans yfir það öngþveiti, sem togaraútgerðin er komin í. Hún hylmir yfir með það fyrir augum, að láta fljóta á meðan ekki sekkur, hugsa aðeins um líðandi stund og forða þjóðinni frá að sjá ósómann, á meðan unnt er.

Það þarf ekki að ítreka það fyrir þingi og þjóð, hvernig ásigkomulagið var hjá Kveldúlfi um þetta leyti í fyrra, þegar skuldirnar voru um 6 millj. Ég hefði gaman af því að fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um það, hve miklar skuldir Kveldúlfs eru nú. Hvort hafa þær minnkað, eða hafa kannske bætzt við 1–2 millj.?

Hvort hafa aukizt þær ástæður, sem Landsbankastj. hefir fyrir því, að dylja það ástand, sem skapazt hefir af rekstri togaraútgerðarinnar?

Á Landsbankastj. og hennar fylgifiskum innan Framsfl. hefir það strandað, að nokkuð hafi verið gert í þessu máli, og þaðan er komin krafan um lögþvingaðan gerðardóm. Það mun varla hafa verið komið fram með þetta frv. hér, fyrr en búið var að leita ráða til bankaráðs Landsbankans. Kemur þar fram ein mynd af því, hvernig þetta þing er, að það skuli taka á móti skipunum frá nokkrum mönnum hérna hinumegin við götuna, í stað þess að framkvæma vilja þjóðarinnar. Ef vinstri ríkisstj. ætlar að þora að stjórna þessu landi í samræmi við vilja þeirra 30 þús. kjósenda, sem kusu meiri hl. þessa þings, kusu vinstri flokkana, verður slík stj. að horfast í augu við það, að láta Landsbankann hlýða sér, en beygja sig ekki undir vilja hans. Það kemur fyrr eða síðar að því, að baráttan í þessu sambandi stendur um það, hvort það sé Alþingi, sem eigi að stjórna landinu eða Landsbankastj. Landsbankastj. hefir þann eina tilgang í augnablikinu, með því að knýja fram sín ráð, hver svo sem þau eru, að viðhalda því kviksyndi, sem togaraútgerðin er komin í og forða sér frá því að horfast í augu við þjóðina með sannleikann opinberaðan. Þess vegna hefir Landsbankinn haldið áfram að kúska þá menn, sem hann hefir bezt tök á í Framsfl. til þess að hlýða sér.

Togaraútgerðarmenn hér í Reykjavík vita vel, hverskonar barátta og hverskonar deila hér stendur yfir. Þeir eru ákveðnir í því að knýja það fram, að ríkisvaldið verði að hlýða þeim, ástandið haldi áfram að vera eins og það hefir verið. Þeir hafa sett fram sínar ósvífnu kröfur, og það þarf ekki annað en sjá, hvernig Sjálfstfl. hefir gleypt við þessu frv., til þess að vita, að hann er að reyna að stuðla að því, að sundra þeirri vinstri stj., sem hér hefir verið, framkvæma vilja Landsbankastjórnarinnar.

Það er ekki í fyrsta skiptið, að slík barátta sem þessi er háð hér á landi, barátta um það, hvort stj. eigi að þora að horfast í augu við það, sem er að gerast í atvinnulífi þjóðarinnar, eða fljóta sofandi að feigðarósi. Hér var eins ástatt á árunum, þegar Íslandsbanki var að sigla í strand. Þá var einnig varað við því, hvert stefndi, og ég hugsa, að flestir verði að játa, að betra hefði verið að taka það mál fyrir 1921 heldur en láta skuldirnar vaxa og óreiðuna aukast þar til árið 1930. Framsfl. stóð oft skarplega og réttilega með því að gagnrýna Íslandsbanka og óreiðuna þar. En hversvegna bregzt hann sínu hlutverki nú? Það er ekki nema um tvær leiðir að ræða í sambandi við togaraútgerðina. Önnur, sem Landsbankastj. og togaraútgerðarmenn Sjálfstfl. vilja fara, er sú, að láta allt danka, fljóta á meðan ekki sekkur, og halda áfram að ausa millj. úr ríkiskassanum til togaraútgerðarinnar, meðan nokkuð er til. Hin leiðin er sú, að þora strax að gera þetta upp, og láta þjóðina fá að vita sannleikann um það, hvernig ástatt er, og finna síðan út skipulag, sem unnt sé að reka togaraútgerðina eftir. Þetta er stefna Kommfl. og Alþfl. Og Framsfl. á milli þessara tveggja stefna að velja. Ég get fullvissað hann um, að það er ekki til neins að ætla að halda þeirri pólitík áfram, að þora í hvorugan fótinn að stíga. Það er ekki hægt að stjórna þessu landi, nema annað hvort að fylgja stefnu auðmannanna eða verkamanna. Það er ekki hægt að halda varanlega áfram með að reka togaraútgerðina, nema farin sé sú leið, sem verkamenn hafa bent á. Framsfl. hefir alltaf, þegar þetta hefir komið til umr., bent á einhverja úrlausn í augnablikinu og afgreitt þál. eða frv., sem átt hafa að hjálpa. Á fyrra þinginu 1937 afgr. Framsfl. þál. um skipun n. til að athuga bankamálin og leggja fram till. um endurskipulagningu. Það er vitanlegt að þessi þál. kom fram af því, að öllum var ljóst, að á bönkunum varð að byrja, til að koma rekstri togaraútgerðarinnar í rétt horf. Sú n. átti að skila áliti á þessu þingi, en það bólar ekkert á því enn. Og ég á ekki von á því, að þetta nál. komi fram, nema ef Magnús Sigurðsson fyndi upp á því að skrifa það.

Það þýðir ekkert að ætla að róa þjóðina með slíkum samþykktum og þessari. Annaðhvort hlýtur Framsfl. að ganga með Íhaldinu og láta fljóta sofandi að feigðarósi, eða hann fylgir verkalýðnum í því, að gera óreiðuna upp og reyna að skapa heilbrigðan atvinnurekstur. Þetta er kjarni málsins, og framhjá þessu er ekki hægt að komast, ef á að finna varanlega lausn á þessari deilu.

Þá kem ég að því atriði, sem hér liggur sérstaklega fyrir, kaupdeilunni, sem nú er háð. Hún er aðeins aukaatriði og bein afleiðing af því ástandi, sem ríkir í togaraútgerðinni. Ég býst meira að segja við, að ef vel hefði verið að farið, hefði þessi deila ekki þurft að standa eins og hún stendur. Þegar ákvörðun var tekin í sjómannafélagi Reykjavíkur, eftir nokkrar umr., um það, hvað gera skyldi, komu fram tvær till.; önnur gekk í þá átt, að setja fram kröfur sjómanna sem taxta, en hin, að auglýsa ekki taxta í bráð, heldur láta sitja við það sama, með möguleikum fyrir því, að gert yrði út á saltfisk og ísfisk eftir gömlu samningunum. Nú er það vitanlegt, að sjómenn sögðu samningnum upp af því, að þeir vildu fá breyt. á kaupgjaldi við síldveiðar. Það var hróplegt ranglæti, sem sjómenn voru beittir í sumar við síldveiðarnar. Það hljóta allir að viðurkenna, að það nær ekki nokkurri átt, að 3 aura „premian“, sem ákveðin var, á meðan síldarmálið var 3.50 kr., sé látin haldast óbreytt, þegar málið er komið upp í 8 kr., eins og það var í sumar. Það er sanngirniskrafa, sem ekki er hægt í móti að mæla, að kjör sjómannanna séu eitthvað bætt í samræmi við verðhækkunina.

Þegar þessar tvær till., sem ég minntist á, voru bornar upp í sjómannafélaginn, var samþ.till., sem gekk í þá átt, að auglýsa taxta. Hefði hin till. aftur á móti verið samþ., myndi sennilega hafa verið hægt að komast hjá þessari deilu nú, en hún hefir verið tekin upp um síldveiðarnar, sem er aðalatriðið.

En hvaða leið svo sem sjómenn hefðu valið, er stórt spursmál, hvort gert hefði verið út.

Það sýndi sig, að þó að samningar hefðu verið gerðir um ufsaveiðar og engri deilu væri þar til að dreifa, þá neituðu útgerðarmenn að gera út á ufsa. Það er ómögulegt fyrir fulltrúa togaraútgerðarmanna að bera á móti því, að togaraútgerðarmenn hafa beinlínis stöðvað togaraflotann núna til þess að knýja fram sérstök sjónarmið og sérstakar kröfur, sem þeim er áhugamál að koma fram, en alls ekki vegna kaupdeilunnar við sjómenn.

Það er hlægilegt að heyra menn eins og hv. þm. G.-K. tala um það með fjálgleik, að þeir unni sjómönnum alls góðs. Og hvar er nú persónufrelsið, þegar á að skipa sjómönnum fyrir að vinna fyrir þetta og þetta kaup? Það virðist fara heldur lítið fyrir því. Og þessi hv. þm. er að tala um ábyrgðartilfinningu, eins og hér sé einhver voði fyrir dyrum, eitthvað skelfilegt geti komið fyrir, ef togararnir fari ekki af stað. Hann talaði um það, að hann og allir sjálfstæðismenn og þeirra þm. vildu leggja fram alla sína krafta til þess að koma togurunum af stað. Þetta segir sá sami maður, sem með kumpánum sínum hefir stöðvað togarana, sem ætluðu á ufsaveiðar, þótt engin deila milli sjómanna og útgerðarmanna væri þar til fyrirstöðu. Hvar er ábyrgðartilfinning þessara manna, og því sýna þeir ekki vilja sinn til þess að afstýra þeim voða, sem yfir vofir, í verki? Þeir hafa tækifærið nú þegar að láta togarana fara á ufsaveiðar. Af hverju bönnuðu þeir það? Ég hefi tekið eftir því, að fulltrúar Framsfl. hafa ekki minnzt á þetta hér. Því spyrja þeir ekki að þessu?

Hæstv. forsrh. ber fram frv. um gerðardóm og segir, að ef það gangi í gegn, fari togararnir af stað. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh.: Því fóru þeir ekki á ufsaveiðar? Hvar var hans mikla vald og Landsbankans, sem á að koma, þegar þetta frv. hefir verið samþ., fyrst það gat ekki komið togurunum á ufsaveiðar? Ég skil ekki í öðru en hv. þm. Framsfl. fari nú að átta sig á því, hverkonar skrípaleik Sjálfstfl. er að leika með þá í þessu máli, þegar hann kemur fram sem engill og ætlar að bjarga öllu saman.

Það er áreiðanlegt, að það hefði verið hægt að leysa þessa deilu, sem hér stendur yfir. Það munaði ekki miklu, að sjómenn samþ. það, sem lagt var fyrir þá seinast, og ef þeim hefði verið einhver sanngirni sýnd, með því að hækka síldarpremíuna, efast ég ekki um, að þeir hefðu gert það. En þeir hafa ennþá ekki fengið neina almennilega till., ekkert annað en smánarboð sáttasemjara og hnefahögg í andlítið frá útgerðarmönnum. Þetta er staðreynd, og með þessa staðreynd fyrir augum er ekki von á annari útkomu.

Í raun og veru eru það ekki togaraútgerðarmennirnir, sem eiga að ráða sem annar aðilinn í þessum efnum. Þeir eru búnir að sýna, að þeirra takmark með því að stöðva togaraflotann er að neyða ríkisstj. til þess að láta að þeirra vilja og knýja fram aðgerðir, sem mundu þýða stórkostlega dýrtíð í landinu og almenna kauphækkun. Þeir eru búnir að sýna þetta og sanna með stöðvun togaranna, sem ætluðu á ufsaveiðar. Það er því ekkert spursmál, að annarsvegar eru það sjómennirnir, sem á að semja við, og hinsvegar þingið, ríkisstj. og bankarnir. Þetta eru hinir réttu aðiljar þessa máls. Togaraútgerðarmennirnir eiga ekki að hafa vald til þess að stöðva togaraflotann, því að þeir eru ekki hinir raunverulegu eigendur togaranna, heldur þjóðin. Þeir hafa ekki sýnt það með framkomu sinni, að þeir hafi vilja til þess að halda flotanum gangandi, en það hafa sjómennirnir gert. Það er engum vafa bundið, að það er hægt að finna lausn á þessari deilu á þann hátt, að fá sjómennina til þess að ganga inn á sáttatill., sem sýnir þeim einhverja sanngirni.

Hæstv. forsrh. gat þess, að hann hefði lýst eftir lausnum á þessu máli. Ég vil benda hæstv. forsrh. á, að það hafa í allri þessari deilu verið haldnir tveir fundir í sjómannafélaginu og það nú rétt síðustu dagana. Það hefir sannarlega ekki verið sýnd mikil tilhliðrunarsemi, frá hendi ríkisstj., við sjómennina eða viðleitni til þess að fá þá til að ganga inn á viðunandi till. í þessum efnum. Og því er svo langt frá, að þrautreynt sé, að unnt verði að fá lausn á þessari deilu, með því að fara samningaleiðina.

Hver er kominn til þess að segja það, að togararnir fari út, þótt þetta frv. verði samþ.? Ég verð að biðja hæstv. forsrh. að athuga, að hans frv. hefir enga lausn í sér fólgna, því að þar er ekkert ákvæði, sem tryggir það, að togararnir fari á veiðar. Í fyrsta lagi er ekkert, sem tryggir það, að togaraútgerðarmenn vilji gera út, og í öðru lagi, að sjómennirnir vinni á togurunum. Það er hægt að lögskipa það, að sjómenn megi ekki fara út á íslenzka togara, nema fyrir ákveðið kaup, en það finnst hvergi í íslenzkum l., að hægt sé að gera menn að þrælum.

Mér heyrðist vera talað um það áðan í Ed., að hlýðnast þessum l. Það er ekki um neitt slíkt að ræða. Það eru engin sektarákvæði til, þótt menn óhlýðnist þeim. Og ég vil sérstaklega benda hv. þm. Framsfl. á það nú, þegar þeir eiga að greiða atkv. um þetta frv., að það gefur enga tryggingu fyrir því, að sjómennirnir fáist til að fara út. Ég segi ekkert um það, hvað sjómennirnir gera, en það er ekki um það að ræða fyrir þá að hlýðnast neinum landslögum. Sjómaðurinn er eins löghlýðinn og Hermann Jónasson, þótt hvorugur þeirra fari út á togara. Eina lausnin á þessari deilu er að semja við sjómennina um kjör, sem þeir geta gengið að. Þetta er staðreynd, sem ekki þýðir að loka augunum fyrir. Það er auðséð, að það er hægt að leysa þetta mál með verkalýðnum, en það er ekki hægt að leysa það móti vilja hans, því að það er ekki hægt að reka togara án sjómanna. Það er ekki til neins í slíku tilfelli, þótt Landsbankastjórnin vilji ganga inn á eitthvað. Hún er ekki fulltrúi togarasjómannanna. Það er eins fráleitt og einhver valdstjórn gerði sér í hugarlund, að með því að semja við Búnaðarbankann, gæti hún ráðið öllum bændum landsins.

Ég álít að Framsfl. ætti enn að reyna samningaleiðina og gefa, þótt ekki væri nema 24 klst. frest til þess. En í stað þess hefir hæstv. forsrh. gripið til sinna ráða og lagt fram frv. um lögþvingaðan gerðardóm. Þessi gerðardómur fer í bága við allt það, sem Íslendingar og sérstaklega íslenzk alþýða hefir litið á sem rétt sinn og frelsi. Með þessum gerðardómi á að fyrirskipa, hvað kaupið skuli vera í ákveðinni atvinnugrein. Sjómennirnir eru sviptir rétti sínum til þess að ákveða verðið á þeirri einu vöru, sem þeir geta selt.

Hæstv. forsrh. viðurkennir sjálfur, að það sé ákaflega slæmt að þurfa að gripa til annars eins og þessa og að það sé brot á þeim mannréttindum, sem eigi að vera í lýðræðisþjóðfélagi. Því er hæstv. forsrh. þá að reyna að skapa þessu fordæmi? Þegar íhaldsflokkurinn vildi kannske grípa fram í kaupdeilu síðar, eftir að þetta hefir verið gert að lögum, þarf hann ekki annað en vitna í, hvað Hermann Jónasson forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar hafi gert. Múr Iýðræðisins er ekki svo sterkur, að það megi leika sér að því að brjóta skörð í hann.

Verkalýðurinn veit og skilur þessa árás og að hér er gengið í berhögg við þann rétt, sem samtök hans hafa skapað sér. Og þau verja þann rétt til hins ýtrasta. — Kommfl. tekur þess vegna afstöðu móti þessum gerðardómi.

Ég vil aftur koma að aðalatriði málsins. Þessi deila hefir orðið að baráttu togaraeigenda við ríkisvaldið. Hún er notuð til þess að koma ríkisstjórninni í kreppu, skapa það ástand, að hún geti ekki stjórnað landinu. Leiðin, sem stjórnin átti að fara, var að semja við sjómenn um viðunandi kjör og knýja síðan útgerðarmenn til að láta skipin fara út. Það, sem útgerðarmenn vilja, er hið gagnstæða, — að knýja ríkisstjórnina til að lúta vilja sínum. Nú er svo langt komið, að fulltrúi Alþfl. í stjórninni, hæstv. atvmrh., hefir gefið yfirlýsingu sína um, hvað við liggi. ef frv. hæstv. forsrh. nái samþykki. Ef Framsfl. sér sig ekki um hönd, er núv. stjórnarsamvinnu slitið.

Það hefir ekki vantað, að ýmiskonar undirbúningur ætti sér stað fyrir þetta. Mönnum er kunnugt, hverskonar samsæri bankaráðsmennirnir Jónas Jónsson og Ólafur Thors hafa gert til þess að koma hagsmunamálum Landsbankans og Kveldúlfs fram. Jafnvel Framsfl. allur hefir verið gerður að minni mönnum til að geta þetta. Loforð, sem gefið var í lok síðasta þings, um kosning á formanni í stjórn síldarverksmiðja ríkisins, hefir verið svikið. Svo fast sækir formaður Framsfl. það að ná samkomulagi við Íhaldið, að hann skeytir hvorki um skömm né heiður síns eigin flokks. Það er vitað, að meiri hl. Framsfl. er þetta ákaflega móti skapi. Vitanlega er þetta ekki hægt, nema bak við það standi sterkasta fjármálavaldið hér á landi. Við stöndum hér á einhverjum mestu tímamótum í þróun íslenzks lýðræðis. Framsfl. á að velja um, hvort hann ætlar að vinna til vinstri eða taka höndum saman við Íhaldið. Það hafa vafalaust komið fram aðvaranir frá Alþfl. um, hvað í húfi var, ef upp úr slitnaði. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði fyrir kosningar, að með slíkum samvinnuslitum er Framsfl. að leggja inn á afarhættulega leið.

Ef flokkurinn fer að starfa með íhaldinu, þýðir það að halda við allri spilling, sem hér er í bönkum og rekstri stórfyrirtækja, því að upp á annað gerir Íhaldið engan samning. Þá fara líka að koma fram raddir um að banna öllum að segja annað en „sannleikann“ um þá spillingu, þ. e. „sannleikann“ eins og t. d. Thorsbræður vilja heyra hann. Kúgun Landsbankaráðsins við síldarverksmiðjur ríkisins er eitt af því, sem sýnir, að ef samvinna tekst með Íhaldi og Framsfl., þá gengur hún í átt til fasismans. Ef þeir þm. Framsfl., sem vilja hindra slíkt, geta það ekki nú, — hvað ætli þeir hindri þá seinna meir, þegar íhaldið fer að færa sig lengra upp á skaftið? — Reynslan annarsstaðar sýnir bezt, hvar þetta lendir. Það duga þess vegna ekki tómar frómar fyrirætlanir hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og annara góðra manna. vegurinn í verri staðinn er einmitt lagður góðum áformum; menn ráða ekki við neitt, þegar þeir eru komnir á þá braut. „Hæg er leið til helvítis, hallar undan fæti“.

Hæstv. forsrh. játar, að þetta sé brot gegn sjálfsákvörðunarrétti verklýðsfélaganna. Vill hann nú ekki athuga, hvort ekki væri rétt að fresta afgreiðslu þessara gerðardómslaga 24 stundir til þess að vita, hvort þörf gerist fyrir þau? Þessi ósk hefir verið borin fram í fullri alvöru og í von um, að hægt sé að skapa lausn án þvingunar.

Þó að fulltrúar verkalýðsins á þingi séu ekki margir, verður að ætlazt til þess, að viðvörun þeirra og ósk sé tekin í alvöru og mætt með góðvilja. Það er ekki hægt að finna nema eina lausn sameiginlega á vandkvæðum bænda og verkalýðs. Og það er vist, að alþýðan stendur sameinuð. Ég veit að vísu, að sá klofningur, sem orðið hefir milli verklýðsflokkanna, veldur nokkru m. a. um það, hve lítt hefir tekizt að stappa stálinu í Framsfl. og festa vinstri pólitík hans. En það skal vitað, að verkalýðurinn skal skapa sína einingu einmitt í sambandi við það, sem nú er að gerast. Þegar lýðræðið í landinu ætlar að fremja sjálfsmorð, mun verkalýðurinn sameinast til að bjarga því og sýna mátt sinn.