17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þó að þetta mál hafi verið nokkuð mikið rætt í hv. Ed., vildi ég segja örfá orð við þessa umræðu.

Allir flokkar eru sammála um nauðsyn þess, að Alþingi skerist í leik til að leysa þessa deilu, — nema þá ef skilja ber afstöðu kommúnista á annan hátt, þ. e. að aldrei komi til mála að lögbjóða neina lausn.

Hv. 5. þm. Reykv. benti á, að eina lausnin, sem ekki stríddi gegn rétti verkalýðsins í þessu máli, væri, að ríkisstjórnin hefði beitt valdi sínu í bönkunum til þess að láta bankana hlutast til um, að útgerðarmenn létu skrá á skipin og fara á veiðar með því kaupi, sem sjómenn álitu sæmilegt. Mér skildist á honum, að þetta væri eina leiðin, sem fær væri, án þess að misbjóða sjómönnum. Þessi leið getur a. m. k. Framsfl. ekki farið, eins og fulltrúar hans hafa fært rök fyrir í Ed. Þá hefði a. m. k. fljótt á litið öðrum aðilja verið veitt stoð, og það gæti orðið hættulegt fordæmi síðar í höndum þeirra, sem vildu knýja fram rétt atvinnurekenda. Og sérstaklega ef Framsfl. gengi inn á þessa leið, mundi það hljóta að verða upphaf að því, að á sama hátt yrði að knýja fram fjöldamörg mál í náinni framtíð. Og ég er alveg viss um, að sú leið getur ekki verið fær. Þá hefðu sjómenn og hlutamenn á bátum, og raunar allir, sem við útveginn starfa, rétt til að segja: Togarasjómenn hafa fengið þessum kröfum fullnægt að tilhlutun Alþingis; við krefjumst þess, að sama sé gert fyrir okkur. — Þessi leið yrði strax ófær, þó að á henni væri byrjað.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á, að það væri hættulegt fordæmi, ef samþ. yrði frv. hæstv. forsrh. um að skipa gerðardóm, þar sem meiri hl., þrír menn, yrðu skipaðir af hæstarétti. Hversu miklu hættulegra yrði þá ekki að taka upp málstað annars aðiljans? Ef atvinnurekendur kæmust síðar í aðstöðu til að geta það. mundi það ekki verða sparað. Ég vil mjög alvarlega vara við slíku fordæmi og slíkum hugsunarhætti. — Hv. þm. talar oft um það, ef eitthvað er gert á annan hátt en honum líkar, að það sé Landsbankastjórnin, sem þetta geri. Ég vil bara varpa fram þessari spurningu: Hvaða Landsbankastjórn var það, sem neyddi Nygaardsvold í Noregi til að skipa gerðardóm í vinnudeilu? Og hvaða Landsbankastjórn var það, sem neytt hefir Stauning til þess sama í Danmörku, — til þess bæði að lögskipa kaup undir vissum kringumstæðum og setja gerðardóm um önnur atriði nákvæmlega á sama hátt og hér er lagt til? Hvers vegna fóru þeir ekki þá leið, sem þessi hv. þm. vildi, ef þeir hafa álitið hana færa? — Aðeins af því, að þeir hafa talið það varhugavert og óréttlátt.

Milli Alþfl. og Framsfl. er aftur ágreiningur um þessi mál af nokkuð öðru tagi, því að það er viðurkennt af Alþfl., að þingvald þurfi til að leysa deiluna. En af hverju geta framsóknarmenn þá ekki fallizt á leið Alþfl. í málinn? — Þar er því að svara, að á öllum stigum málsins hefir þetta þrennt verið tekið saman, saltfisksveiðar, síldveiðar og ísfisksveiðar, og árangurslaust verið bornar fram miðlunartill. bæði frá sáttasemjara ríkisins og sáttanefnd, um að leysa málin í einu. Sáttasemjari lét svo um mælt, að „þar sem árangurslaust hafa verið bornar fram tvær miðlunartillögur í kaupdeilu þessari, verð ég að líta svo á, að frekari sáttatilraunir af minni hendi og meðnefndarmanna minna séu þýðingarlausar“. Samkvæmt þessu er enginn þáttur deilunnar nær því en annar að fá lausn. Engin sérstök krafa verður tekin út úr og afgr. undir því yfirskyni, að deilan standi ekki lengur um hana, því að engin samþykkt liggur fyrir frá aðiljum. Þegar málið stendur þannig, getur Framsfl. ekki fallizt á að taka sérstakan þátt út úr, en skilja eftir deiluna um síldveiðarnar, sem vissulega er ekki hættuminnst.

Það er mjög veigamikið atriði fyrir okkur framsóknarmönnnm, að við teljum ekki fært að slita einn þáttinn út úr samningatillögum sáttanefndar og gera hann að lögum. Því að ætla má, að hver þáttur sé þar miðaður við annan. Enda er neitun sjómanna miðuð við till. í heild. Framsfl. telur þá aðferð ekki koma til mála.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það hefði verið samþ. á sjómannafélagsfundinum að leita enn sætta, og óskaði eftir frestun á afgreiðslu frv. Ég vil benda á, að gerðardómsfrv. segir skýrum orðum, að lögin komi ekki til framkvæmda, nema þörf gerist, og ákvæði dómsins falli niður, ef frjálsir samningar takast. Þá geta vel orðið sættir, áður en dómur er kveðinn upp, þó að frv. sé afgr. strax.

Ég get ekki varizt því að undrast það, að Alþfl. virðist ætla að láta samþykkt þessa frv. verða þess valdandi, að hann dragi fulltrúa sinn úr ríkisstjórninni. Það hefir verið marglýst eftir því, hvort Alþfl. gæti ekki hugsað sér aðra leið en þá, sem felst í frv. hans, en það hefir ekki borið árangur. Það, að Framsfl. skyldi vilja fara sömu leið og farin hefir verið í nálægum lýðræðislöndum, þar sem gerðardómar hafa verið skipaðir, hefði sízt átt að verða til að slita samvinnu flokkanna. — Hv. á. þm. Reykv. sagðist syrgja það, að þetta skyldi koma fyrir, að hæstv. atvmrh. skuli biðjast lausnar, og má vel vera, að það sé í einlægni talað. Hitt ætla ég að segja, að það er líklega ekkert eitt, sem hefir torveldað eins samstarfið eins og áróður kommúnista til þess að fá íslenzka verkamenn til að sætta sig ekki við sömu úrslit mála og annarsstaðar eiga sér stað.