17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég ætla ekki á neinn hátt að trufla þá, húsbændurna á kærleiksheimili stjórnarflokkanna, í sínum viðræðum um þetta mál. Ég ætla að láta mér nægja að lýsa því yfir, að ég er algerlega fylgjandi þeirri meginreglu, að atvinnurekendur og verkamenn semji sín á milli um kjör og kaupgjald, og það án allrar annarar íhlutunar af hálfu ríkisvaldsins en hinnar lögskipuðu milligöngu af hálfu sáttasemjara ríkisins. En þegar það er svo glögglega í ljós komið, sem nú er orðið, að allar tilraunir af hálfu sáttasemjara og sáttnefndar, sem hæstiréttur tilnefndi honum til aðstoðar. hafa orðið árangurslausar, þá tel ég, eins og hæstv. forsrh., og eins hæstv. atvmrh. lýsti líka yfir í hv. Ed. í dag, að hér verði ekki annar vegur til en að fara að dæmi annara lýðræðislanda, og það einmitt þar, sem jafnaðarmenn sitja að völdum, eins og í Noregi, Danmörku og Frakklandi, um lausn deilunnar. Vegna gjaldeyrisskorts og yfirvofandi hættu á því, að markaðir vorir þrengist framvegis, ef fiskiskip annara þjóða fá að fylla markaði þá, er vér höfum selt á, og vegna þess ógurlega atvinnuleysis, sem vofir yfir landvinnumönnum og sjómönnum, ef togararnir fara ekki út, þá tel ég óumflýjanlegt, að löggjafarvaldið gripi hér inn í á líkan hátt og aðrar lýðræðisþjóðir hafa gert, þar sem jafnaðarmannaflokkar eru við völd.

Ég skal ekki neita því, að e. t. v. hefði sá möguleiki verið til, að reynt hefði verið að ná einhverri bráðabirgðalausn á þessu máli með því frv., sem Jafnaðarmannaflokkurinn ber fram, en eftir þá afgreiðslu, sem það frv. hefir nú fengið í hv. Ed., verð ég að telja, að það frv. sé algerlega úr sögunni. En þar sem það frv. er úr sögunni, og engu síður varhugavert frá sjónarmiði jafnaðarmanna en þetta frv., þá hallast ég og Bændafl. að frv. hæstv. forsrh., og mun verða því frv. fylgjandi, sem hér liggur fyrir á þskj. 94.

Ég sé alls enga ástæðu til að lengja þennan næturfund með neinu orðaþófi, og mun þess vegna ekki taka frekari þátt í þessum umr., en mun láta mér nægja að greiða mitt atkv., þegar þar að kemur.