12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Í ræðu minni hér í gær fór ég nokkrum orðum um afstöðu sjálfstæðismanna í fjvn. til fjárlaganna yfirleitt og get endurtekið það nú, að ég fór tiltölulega stutt út í þá hluti þar, því að ég geri ráð fyrir, að við 3. umr. fjárlaganna verði tækifæri til að ræða ýms atriði frekar. En mér þykir rétt að segja nokkur orð í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. um sparnað á launagreiðslum ríkisins. Hann vék að því, að það myndi reynast örðugt að spara stórar fjárhæðir á ríkisrekstrinum yfirleitt, nema með því móti að fækka starfsmönnum eða lækka launin. Ég er þessu samþykkur. Það er ekki hægt að spara nema með því móti, að fækka starfsmönnum ríkisins, og helzt að leggja sumar stofnanir niður. En ég held því hinsvegar fram, að það sé áreiðanlega unnt að spara mjög miklar fjárhæðir einmitt á þeim liðum, að fækka starfsmönnum ríkisins og lækka laun þeirra. Eftir því, sem ég kynni mér þessi mál betur, sé ég glöggar, að á þessu er ekki eins góð stj. og þyrfti að vera, til þess að allir starfskraftar ríkisins komi að sem beztum notum. Ég fullyrði, að unnt sé að fækka starfsmönnum ríkisins í stórum stíl. Fjárhag ríkisins er nú þannig háttað, að fullkomin ástæða er til að lækka laun þeirra starfsmanna, sem vinna hjá hinn opinbera, frá því sem nú er. Ég vil ekki samþ. það, sem hæstv. fjmrh. var að tala um, að ekki væri unnt að lækka laun starfsmanna við ríkisstofnanirnar, því að enn hærri laun væru greidd hjá einstaklingsfyrirtækjum. En það er sama sem að segja, að ríkisvaldið geti ekki gert neina breyt. til batnaðar, ef einhver aðili er verri en það. Nú er það víst, að það er um engar stöður eins mikið sótt eins og atvinnu við ríkisstofnanir og opinberan rekstur. Um hverja einustu stöðu, sem losnar, sækja tugir og jafnvel hundruð manna. Hvað verður þá um réttlæti gagnvart þeim, sem úti undan verða. Það er ríkið, sem mestu ræður í þessu efni, og það er ríkið, sem á að skapa þann grundvöll, sem ber að fara eftir í þjóðfélaginu yfirleitt. Þess vegna get ég aldrei gengið inn á, að ríkisvaldið eigi að hegða sér eftir einkafyrirtækjum, þótt þau greiði hærri laun. Það er atriði, sem mun lagast, ef ríkið hefir fast skipulag á sínum málum.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. var að fala um, að það hefði verið gerð mikil endurbót á þessu sviði í starfi fjvn., að því er snertir samræmið, þá er það að segja, að aðstaða fjvn. er mjög takmörkuð, og þó að hún hafi nokkuð að þessu unnið, þá er siður en svo, að nokkurt samræmi sé komið. Það má t. d. nefna, að það eru undirmenn í hverri stofnun í Reykjavík, sem hafa hærri laun en t. d. sýslumenn, sem úti á landi eru. Hluturinn er sá, að þeir tiltölulega fáu menn, sem taka laun sín eftir launalögunum, eru að þessu leyti beittir herfilegu ranglæti, ef um samræmi á að vera að ræða. En þetta verður ekki lagfært nema með nýjum launalögum.

Hæstv. fjmrh. minntist á það, sem ég talaði um í gær, að minni ástæða væri fyrir stórnarandstæðinga að leggja mikla alúð við starf sitt í fjvn., vegna þess að það væri svo litið eftir því farið. Ég get tekið það fram, að ég hefi ekki látið þetta hafa áhrif á störf mín í n., því að ég hefi reynt að gera mér far um að fá niðurfærslur á ýmsum liðum, en það hefir fengið litinn byr. Ég vil annars út af þessu segja það, að niðurstaðan á fjárlögum annarsvegar og reynsla síðari ára sannar, að það er ekki mikið eftir fjárlögum farið í ýmsum greinum. Ég skal ekki fara langt út í það. Ég mun geyma mér það til 3. umr., sem verður útvarpað.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að hann hefir gert sér far um að láta fjvn. í té upplýsingar. En það er ekki nóg, ef till. fjvn. eru ekki virtar, þegar til framkvæmdanna kemur.