29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

50. mál, fasteignasala

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af allshn. Nd. og var afgr. þar án þess að nokkur brtt. kæmi fram við það, svo að sú d. virðist hafa verið mjög á einu máli um að setja löggjöf um þetta. Það sýnist líka nokkuð eðlilegt, að um atvinnugrein, sem er í vissu falli jafnstórbrotin að því er snertir verðmæti, séu settar reglur um, hvaða menn það eru, sem hafa fulla heimild til þess að fást við þessa atvinnugrein, milligöngu um sölu fasteigna. Frv. kemur auðvitað ekki í veg fyrir, að menn geti keypt og selt fasteignir, þar sem milligöngu þarf ekki með, en fjallar um það, hvaða menn skuli fá leyfi til þess að annast viðskiptin fyrir aðra, og allshn. Ed. telur, að það sé í alla staði eðlilegt, að sett séu l. um þetta. Í raun og veru eru það ekki strangar reglur, sem settar eru í þessu efni, og í raun og veru er það ekki nema eitt atriði, sem hægt er að segja, að sé nýtt í þessu sambandi, og það er það, að þeir, sem vilja taka sér þennan atvinnuveg fyrir hendur, verða að hafa staðizt próf, sem nánar er ákveðið í reglugerð og á að tryggja, að þeir þekki þau l. og þær reglur, sem nauðsynlegt er fyrir þá menn, sem annast sölu fasteigna, til þess að þeir geti gengið tryggilega frá öllum samningum. Er svo gert ráð fyrir, að þessir menn fái leyfisbréf, og verður þessi atvinnugrein þar með vernduð fyrir hinum og þessum, sem kynnu að vilja stunda þessa atvinnu án þess að hafa til þess full skilyrði.

Svo eru nokkur ákvæði í frv., sem eiga að reyna að tryggja heilbrigð viðskipti á þessu sviði, eins og t. d. í 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að þeir, sem annast fasteignasölu, hafi opna skrifstofu, þangað sem menn geta snúið sér, eins og nauðsynlegt getur verið fyrir þá, sem hafa fasteignir sínar boðnar fram og fela þær milligöngumanni. Eins er líka ákvæðið í 5. gr., sem er mjög eðlilegt, þar sem fasteignasölum er bannað að ganga sjálfum inn í samninga um kaup á fastelgnum. Þetta er eðlilegt, því að það er varla von, að kaupendur treysti fullkomlega þeim upplýsingum, sem fasteignasali gefur, ef búast mætti við, að hann væri ef til vill að búa í haginn fyrir sjálfan sig.

Þá er ákvæði í 8. gr. um það, að tilkynna skuli jafnan þegar í stað, þegar gengið er frá samningum. Það er eðlileg vörn fyrir ríkissjóð. sem á að vernda á þann hátt frá því, að hlaupið sé yfir lið í viðskiptunum, eins og dæmi munu finnast um, til þess eins að spara gjöld til ríkissjóðs.

Ég skal ekki fara í gegnum þetta tiltölulega einfalda frv. nánar en ég hefi gert, en tilgangurinn með því er, eins og ég hefi tekið fram, að menn, sem fá leyfi til að annast þennan atvinnurekstur, séu verndaðir fyrir þeim, sem ekki vilja beygja sig undir ákvæði l., og svo hinsvegar að tryggja viðskiptamennina, eftir því sem hægt er, í svona sökum, og svo loks ríkissjóð.

N. hefir þó viljað reyna að fá eina litla breyt. á frv. og ber fram brtt. um það í nál. sínu á þskj. 1.10, viðvíkjandi þeim mönnum, sem stundað hafa þessa atvinnu hingað til. Þessi l. verða auðvitað, eins og önnur l., miðuð við það, að koma lagi á þennan atvinnurekstur í framtíðinni. Ákvæðið í 14. gr. frv. er um það, að þeir, sem hafa stundað fasteignasölu síðustu 5 ár áður en l. öðlast gildi og auglýst hafa opna skrifstofu, geta fengið leyfi atvmrh. til þess að halda áfram atvinnurekstrinum. N. fannst ekki rétt að binda þetta leyfi við atvmrh.. heldur fannst henni rétt að heimila þeim að halda áfram, þó þannig, að aðeins þeir komi til greina, sem hafa annazt fasteignasölu og hafa haft opna skrifstofu síðustu 5 ár, og sanna síðan með vottorði tveggja manna, og sé a. m. k. annar þeirra lögfræðingur, að þeir séu færir um að annast fasteignasölu. Þetta ætti að vera nóg, þó að það heyri ekki undir atvmrh. að veita leyfið sérstaklega. Ef einhverjir misindismenn slyppu inn í þessa atvinnugrein eftir l., þá er enginn skaði skeður frá því, sem verið hefir, og það væri ástand, sem stæði um stundarsakir. Annars er ekki kunnugt, að það sé nein hætta yfirvofandi í þessu efni, því að þótt margir annist fasteignasölu, þá eru fáir, sem hafa haft opna skrifstofu í 5 ár, og vottorð tveggja skilríkra manna ætti að vera sæmileg trygging fyrir því, að það væru ekki neinir bófar, sem inn í þessa atvinnugrein kæmu.

Síðan þetta nál. var samþ. hefir mér borizt ósk um eina breyt. á frv., sem ég mun leggja fyrir n. á milli umr. Hún er viðvíkjandi 13. gr., en þar stendur, að hæstaréttar- og héraðsdómsmálaflutningsmenn þurfi ekki leyfi til þess að annast fasteignasölu, og það er eðlilegt, því að þessir menn ættu að vera manna færastir til þess að annast þetta starf, sem heyrir beinlínis undir verkahring þeirra, en það eru til menn, sem þykir þetta of þröngt ákvæði og óska eftir, að það sé rýmkað svo til um þetta, að lögfræðingar, sem gegnt hafa embætti eða stöðu, sem lögfræðipróf þarf til, í 3 ár, falli einnig þar undir. Maður gæti t. d. hugsað sér sýslumann, sem hefði látið af starfi sinn og óskaði eftir að taka þetta starf að sér. Annars mun ég bera það undir n., hvort hún óskar að bera þetta fram. Hinsvegar tryggir 2. gr. það, að lögfræðingar allir eru undanþegnir því að taka próf. Ég tel ekki rangt að rýmka þetta, hvort sem n. ber fram brtt. í þá átt.

Ég legg til, að frv. verði samþ. við lok þessarar umr. með þeim breyt. einni, sem n. hefir lagt til.