12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1939

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé ekki á stæðu til að fara langt út í ræðu hv. þm. A.- Húnv., en ég vildi þó segja örfá orð út af henni. Hv. þm. segir, að það sé fullkomin ástæða til að lækka laun sumra starfsmanna ríkisins, og ég skal ekki segja, að það megi ekki finna einhverja, sem þannig er ástatt um, og þá er fyrir hann að gera um það till., sem hann síðar komi á framfæri og sjái, hverjar undirtektir fá. Ég hefi áður tekið það fram, að ég hefi ekki trú á, að það sé hægt að framkvæma verulegan sparnað með launalækkunum, og hefi fært fyrir því — þau rök, sem ég ætla ekki að endurtaka. Hv. þm. A.-Húnv. segist ekki vilja taka það til greina, að það þurfi að hafa hliðsjón af því, hvað aðrir greiða, þegar um sé að ræða launagreiðslur ríkisins, og það sé vegna þess, að ríkið sé svo sterkur aðili. En þó hv. þm. segi þetta, þá er ekki hægt að komast framhjá þessu af þeirri ástæðu, að það er ekki ríkið, sem ræður launagreiðslunum, heldur eru það aðrir. Þetta er hægt að sanna, því að þó að ríkið hafi greitt sínum forstjórum lægri laun en aðrar stofnanir, þá hafa þær ekki lækkað sig. Það er þess vegna misskilningur hjá bv. þm., að þetta sé atriði, sem lagast af sjálfu sér, ef ríkið hefir fast skipulag. Þessu fer fjarri. Og ef ríkið ekki tæki tillit til launagreiðslna almennt, þá færi það bara þannig að þeir menn, sem mestur slægur er í, færu úr þjónustu ríkisins. Fyrir slíkum tilfellum er hægt að finna mjög mörg dæmi. T.d. hefir tollstjórinn ekki getað haldið duglegum mönnum, af því að betur hefir verið boðið annarsstaðar með laun. Það er ekki hægt að komast alveg framhjá þessu, en það hefir verið reynt, eins og sá mismunur sýnir, sem er á launum hjá ríkinu og annarsstaðar. Ég er hissa á því, að hv. þm. A.-Húnv., sem mikið hefir rætt um þessi launamál, skuli aldrei nokkurtíma hafa vakið athygli manna á launagreiðslum hjá ýmsum hálfopinberum stofnunum, eins og t. d. bönkunum og Sambandi íslenzkra fiskframleiðenda. Ég hefi aldrei heyrt hann minnast á launagreiðslur hjá þessum stofnunum eða öðrum. sem svipað stendur á um. Mér finnst það undarlegt, að hv. þm. skuli finnast svo mikið um það, þó að ríkið greiði 9–10000 kr. í laun sínum forstjórum, en að honum skuli ekkert þykja athugavert við það, þó að hálfopinberar stofnanir, eins og S. Í. F., skuli greiða sínum forstjórum 18000 kr.

Hv. þm. A.-Húnv. minntist á það, til að sanna sitt mál viðvíkjandi því, að fjvn. hefði ekki verið virt, að fjárlögin hefðu farið fram úr áætlun undanfarin ár. Hann nefndi það, að árið 1937 hefði þau farið 2 millj. kr. fram úr áætlun. Ég vil benda hv. þm. á það, sem hann veit, að sáralítið af þessari upphæð hefir verið greitt í trássi við fjvn. Þetta stafar af því, að þessar umframgreiðslur eru ýmist til framkvæmda, sem komið hafa til, eftir að fjvn. gekk frá fjárlögum, eða þá að það eru umframgreiðslur á hreinum áætlunarliðum, sem þingið hefir sjálft ákveðið, eftir að gengið var frá fjárlögum. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á kostnaðinn við fjárpestina, sem nam á árinn 1937 600 þús. kr. Ég hygg, að ekki hafi verið troðið á ákvörðun fjvn. í sambandi við þær greiðslur, og tek ekki við neinu ámæli fyrir það. Sama er að segja um ýmislegt annað, eins og t. d. vegaviðhald, kostnað við Alþ., rekstrarkostnað sjúkrahúsa, sem áætlað var af fjvn. að lækka, en ekki bent á neinar leiðir til, að hægt væri að framkvæma þá lækkun. Svona mætti lengi telja, og það er ekki nema lítið brot, sem hægt er að heimfæra undir það, að gengið hafi verið á móti fjvn. Ef hv. þm. vill kvarta yfir því, að hans störf í fjvn. hafi verið einskis virt, þá verður hann að nefna rökstudd dæmi um það. Það dugar ekki að nefna eina fjárgreiðslu, því að það sannar sáralítið um þetta, eins og ég vænti, að menn hljóti að viðurkenna eftir þær upplýsingar, sem ég hefi gefið.