12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1939

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Á sama hátt eins og ég gat um það í framsöguræðu minni í gær, að fjvn. hefði eytt langmestum tíma í að athuga ríkisstofnanirnar, þá hefir það einnig orðið svo hér við umr., að þær hafa, að undanteknu því, að einstakir þm. hafa mælt fyrir till. sínum. snúizt um launagreiðslur hjá ríkisstofnunum.

Hv. þm. A.-Húnv. gat þess í gær, að hann og flm. hans í fjvn. gætu ekki nema að litlu leyti komið vilja sínum að um ýmsan sparnað. Ég vil nú í fyrsta lagi geta þess, að því er snertir fjvn., að þar hefir vilji þeirra á engan hátt verið fyrir borð borinn af meiri hl., nema um einstök atriði, þar sem atkvgr. hefir farið fram um ágreininginn. Það hefir verið gert allt, sem auðið er, til þess að ná samkomulagi um þau mál, sem legið hafa fyrir n. En að því leyti, sem hv. þm. talar um sjálfstæðismenn í fjvn. sem samhuga um þau atriði, sem hann sérstaklega deildi á ríkisstjórnina og meiri hl. þingsins fyrir, þá vil ég segja það, að hann getur ekkí talað um sjálfstæðismenn sem heild í n., a. m. k. ekki að því er snertir launagreiðslur, í fyrsta lagi vegna þess, að einn nm., sem sjaldan hefir í n. komið, hefir aldrei minnzt á það einu orði, að launagreiðslur væru lækkaðar við starfsmenn ríkisins. Að því er snertir hv. 6. landsk., þá er það að segja, að hann hefir mest allra nm. unnið að því að koma á samræmi og skipulagi um launagreiðslur þeirra starfsmanna, sem taka laun sín utan launalaga. Hann hefir í þessu unnið framúrskarandi mikið og óeigingjarnt starf. Ég minnist þess ekki að hafa heyri hv. 6. landsk. tala um það, að launin væru of há. Hitt hefi ég heyrt hann minnast á, að það þyrfti að samræma þau, eins og rétt er. Það er hinsvegar svo, að hv. þm. A.-Húnv. hefir dálitið sérstaka aðstöðu, ekki aðeins í fjvn., heldur og í þingi, því að ég hefi ekki talað við nokkurn einn þm., sem virðist vera í eðli sínu eins sparsamur og þessi hv. þm. Þetta vil ég segja honum persónulega til lofs, en hann gætir hinsvegar ekki hófs, þegar hann fer að meta laun, sérstaklega laun, sem ríkið greiðir. En það get ég fullvissað þennan hv. þm. og aðra um, að ef Sjálfstfl. kæmist til valda, þá myndi hann ekki sjá sér fært að lækka laun starfsmanna ríkisins frekar en orðið er. Þetta vil ég fullyrða og rökstyðja með því, að þessir sömu sjálfstæðismenn, sem hér eru á Alþ., eru um leið forstjórar ýmsra einkafyrirtækja, og það eru undantekningarlaust alstaðar hærri laun hjá þessum fyrirtækjum en hjá ríkinu. Það er nú svo, að flestir starfsmenn ríkisins hafa milli 4 og 3 þús. kr. laun, og það veit hver einasti Reykvíkingur, að það er ósanngjarnt að halda því fram, að slík laun séu óhæfilega há. Það er óhugsandi að lækka launin meira. Það verður aldrei lausnin á erfiðleikunum. Til þess að hægt sé að lækka launin, verður fyrst að koma því inn hjá fólkinu að gera minni kröfur, og ég hygg, að það mundu ýmsir geta orðið sammála um að gera eitthvert átak í þessu efni. En ég held, að það sé ekki nógu vel hugsað hjá þessum hv. þm., að það sé hægt að fækka starfsmönnum og lækka launin. Ég get verið sammála um það, að eitthvað mætti fækka starfsfólki. Myndi það fyrst geta komið þannig út, ef vinnutíminn væri lengdur frá því, sem hann nú er, og ég tel, að megi gera, en fram yfir það held ég, að sé erfitt að fara. Og það verður að gera þær kröfur til hverskonar stofnana sem er, að þar sé fullkomin regla á öllum sviðum, og að hægt sé að svara fyrirspurnum hverjum sem er, og það strax, og finna alla hluti, sem þarf að finna á því augnabliki, sem um þá er beðið. Og þetta allt útheimtir mikla vinnu. Og ég skal aðeins benda á það, að fjvn. hefir nú kynnt sér mjög rækilega allan rekstur ríkisstofnananna fyrir utan launagreiðslur. Hefi ég séð þá sundurliðun, sem þær gera á ýmsum kostnaði og svo nákvæmlega er talið upp, að sumir liðir fara kannske niður í 2 kr. Af þessu sjáum við, að fjvn. er búin að kynna sér alveg til þrautar reikninga ríkisstofnananna. Ég fullyrði, þegar þetta er athugað, hversu vandlega hafa verið athugaðar greiðslur ríkisstofnana, alveg niður í 2 kr., að það sé tillölulega fátt, sem hægt er að setja út á með rökum og réttu, að sé óhóflega eða misnotað fé. Hinsvegar skal ég að lokum taka það fram, að ég er fús til að standa með hv. þm. A.-Húnv. um alla þá skipun og allan þann sparnað, sem ég tel sanngjart og fært að koma við. En ég tel, að hann gangi of langt, og alls ekki kleift að mæta honum í öllum þeim aths. og kröfum, sem hann hefir í þessu efni. En margt ósanngjart hyrfi, ef hann kynnti sér þetta aðeins betur.