24.03.1938
Neðri deild: 33. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

66. mál, þangmjöl

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get ekki fyrir hönd landbn. mælt með því, að brtt. á þskj. 128 verði samþ. Ég hygg, að það, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á í ræðu sinni, að varhugavert sé að veita einkaleyfi til 10 ára, sé ekki á rökum byggt. Landbn. hefir mælt með því, að einkaleyfið yrði veitt. Þótt þetta fyrirtæki sé ekki mjög stórt, þá er það samt nægilega stórt til þess. að það verður að Ieggja því til nokkuð mikið fé. Hér er um alveg nýja framleiðslugrein að ræða, sem engar líkur eru til, að myndi gefa mikinn arð í fyrstu, og engin sérþekking er til í þessari grein enn, sem byggja mætti á.

Þeir menn, sem leggja stórfé í þetta, geta tryggt sér aðstöðu til stórgróða. En meðan þeir eru að koma undir sig fótum, er mjög sennilegt, að það þurfi að gera ýmsar tilraunir þegar í upphafi, á hvern hátt fóðurmjölsframleiðslunni yrði bezt fyrirkomið, til þess að forðast ýms skaðvæn efni, sem geta verið í þessu fóðurmjöll. Þeim er sett á herðar sú kvöð, að leggja sig undir úrskurð ríkisstj. um vörugæði og annað slíkt, og þess vegna er eðlilegt, að þeim sé veittur nokkur réttur að halda starfi sínu áfram, án þess að óeðlileg samkeppni komi fram meðan þeir eru að koma fótum undir sig. Þrjú fyrstu árin myndu öll fara í tilraunir hvernig þessu yrði bezt fyrirkomið og hvaða aðferðir skyldi nota við framleiðsluna til að fá góða og óskaðlega vöru. Það er ekki rétt að synja um einkaley-fi til þessa fyrirtækis, þar sem hér er um alveg nýtt fyrirtæki að ræða, sem verður að byggja eingöngu á sínum eigin tilrannum í þessum efnum, og mjög sennilegt, að þær kosti bæði mikið fé og taki alllangan tíma að leita að þeim ráðstöfunum, sem fullnægjandi eru. Hinsvegar er séð fyrir því í frv., að ef þetta kemst á góðan rekspöl og unnt er að framleiða góða og eftirsótta vöru, geti viðkomandi menn eigi okrað óhæfilega á henni, því að þeir eru háðir þeim reglum, er ríkisstj. kann að setja til að tryggja vörugæði og sanngjarnt verðlag, eins og stendur í niðurlagi 3. gr. Nokkurnveginn fullkomin trygging er sett fyrir því, að viðkomandi menn geti ekki gert sér þessa framleiðslu að óhæfilegri féþúfu; þeir eru algerlega háðir ríkisstj. um vöruvöndun og verðlag. Hinsvegar vil ég ennfremur benda á það, að með þessu frv. er veitt einkaleyfi á framleiðslu fóðurmjöls úr þangi aðeins til sölu. Hverjum sem er er heimilt að framleiða fóðurmjöl úr þangi í smærri stíl heima hjá sér til eigin afnota. Það gæti orðið svo, að ef góð reynsla fengist um þetta, gæfu menn viða farið að framleiða fóðurmjöl úr þangi fyrir sjálfa sig. Hér er um mjög merkilegt atriði að ræða.