24.03.1938
Neðri deild: 33. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

66. mál, þangmjöl

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér þætti dálítið vænt um að vita, hvað hv. þm. Mýr. á við, þegar hann er að tala um, hve mikið fé þurfi til stofnkostnaðar við þessa framleiðslu, hvaða upplýsingar landbn. hefir viðvíkjandi því, og hvað þurfi til þess. að henni finnist rétt að veita 10 ára einkaleyfi á þessari framleiðslu.

Hv. þm. gat þess, að ekkert þyrfti að óttast viðvíkjandi verðlaginu. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að benda á 3. gr. frv., þar sem talað er um þær reglur, sem ríkisstj. geti sett viðvíkjandi verðlaginu; þar er svo ákveðið, að hún geti sett þessar reglur við veitingu sérleyfisins. Nú er það vitað, að sérleyfið yrði veitt áður en búið væri að rannsaka, hvaða aðferð væri bezt við þessa framleiðslu, svo að ríkisstj. kemur ekki til með að hafa nokkra hugmynd um, hvað sé sanngjarnt verðlag, þegar hún veitir þetta sérleyfi. Það er þess vegna ekki nein trygging gegn okri á þessari framleiðslu, eins og hv. þm. var að tala um.

Þá vildi ég í sambandi við það, að hv. þm. Mýr. var að tala um, að hægt væri að framleiða þessa vöru til eigin nota, beina þeirri fyrirspurn til hans, hvernig eigi að skilja þetta. Myndu t. d. þeir bændur, sem vildu slá sér saman til þess að framleiða þessa vöru handa sjálfum sér, geta það alveg án tillits til þessara l., ef þeir sameinuðu sig um að safna saman þangi og skiptu síðan þeirri framleiðslu á milli sin? Ég tel a. m. k. vafasamt, hvort hægt væri að skilja þetta þannig.

Viðvíkjandi tímannm, sem talað er um, finnst mér satt að segja vera farið undarlega flott í sakirnar, því þó að þessir sérleyfishafar geri svo að segja ekkert í 3 ár og framleiðslan falli niður allt að 2 árum, þá gildir sérleyfið eftir sem áður. Ég get ekki skilið, hvaða tjón væri að því, að þessi tími væri skemmri, að hann væri takmarkaður við 3 ár, því að alltaf væri hægt að framlengja tímann, ef ástæða þætti til. Ég vil þess vegna halda fast við þessa brtt. og vonast til. að hún geti náð samþykki.