12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Ég vænti að hæstv. forseti verði þolinmóður, þó að ég fari nokkuð út fyrir athugasemdartíma. En ég hefi ekki ástæðu til að fara mjög langt út í þessa hluti við þessa umr. Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ríkið réði ekki launum í þessu landi, þá verð ég að mótmæla því harðlega, því að það er ríkið, og fyrst og fremst ríkið og stjórnarvöldin, sem ráða launum og kaupgjaldi í landinu yfirleitt. Og ef það notaði sitt vald eins og það á að gera til þess að halda heilbrigðum takmörkum á þessu sviði, þá getur ríkisvaldið algerlega gert það. Fyrst og fremst er nú þess að geta, eins og kunnugt er, að ríkið sjálft greiðir margar millj. í starfslaun bæði. hér í höfuðstaðnum og annarsstaðar. Í öðru lagi ræður ríkið kaupi hjá hinum ýmsu starfsgreinum, t. d. vegavinnu, símavinnu, síldarbræðslu og á öðrum slíkum stöðum, sem eru að meira og minna leyti borguð af ríkinu sjálfu. Út í þessa sálma skal ég ekki fara mikið nánar hér, því að mér gefst frekar færi til þess seinna. Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. talaði um, að hann hefði aldrei heyrt mig gera athugasemd við launagreiðslur nema hjá ríkisstofnununum, er það að segja, að einmitt þær stofnanir, sem hann sérstaklega nefndi, eins og t. d. Eimskip og bankarnir, eru stofnanir, sem eru hálfopinberar stofnanir og sú launanefnd, sem starfaði 1934, lagði til, að væru teknar undir launalög. Ég skal játa það fullkomlega, að hjá ýmsum einkafyrirtækjum eru laun hærri en ég tel eðlilegt og réttlátt. En það verður að segjast, að það er engan veginn sambærilegt að vera framkvæmdastjóri hjá Eimskip og aðalbankastjóri þjóðbankans eða forstjóri fyrir tóbakseinkasölunni, áfengisverzluninni og raftækjaeinkasölunni eða öðru slíku. Svo ég svari ræðu hv. frsm. hvað þetta snertir, skal ég geta þess, að við sjálfstæðismenn höfum farið fram á það í fjvn., að laun forstjóra tóbakseinkasölunnar, sem er 10 þús. kr., væru færð í samræmi við aðra forstjóra niður í 9 þús. kr. En það var fellt í n. En þar sem ráðh. var að tala um, að aðrar stofnanir borguðu hærri laun en ríkið, þá er það fyrst og fremst ríkið og hið ráðandi vald á hverjum tíma, sem hefir þar áhrif. Og ég held nú, að það sé svo háttað í okkar þjóðfélagi, að það sé ekki mörg atvinnugreinin í landinu, sem er vaxin því að borga hærri laun en ríkið gerir, svo að það þurfi ekki að vera mjög mikil hætta á því, að ríkið tapi starfskröftum, af því að einkafyrirtækin yrðu flest fljótlega komin á hausinn, ef þau borguðu hærra en ríkið gerir sjálft.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að umframgreiðslur fjárlaganna á síðasta ári væru afleiðing af ákvörðunum fjvn. Þetta er engan veginn rétt. Hvað mig sjálfan snertir, hefi ég ekki ástæðu til umkvörtunar, af því að ég var ekki í fjvn., sem undirbjó fjárlögin fyrir árið 1937. En ég sé hverju fram vindur eigi að síður. Og þær upplýsingar, sem ráðh. gaf hér við 1. umr. fjárlaganna, hnigu að því, að umframgreiðslur á ríkisreikningunum muni vera um 2–3 millj. króna. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að í þessu er stór upphæð, sem er varið vegna fjárpestarinnar, um 600 þús. kr., sem kemur ekki því við að brjóta nokkuð ákvörðun Alþingis eða fjvn. Það eru ýmsir aðrir liðir, t. d. Alþingiskostnaður, sem mjög fer fram úr áætlun, einnig vaxtagreiðslur og vegaviðhald o. fl. En þegar allt þetta er dregið frá, þá virðist mér a. m. k. vera ein millj. kr., sem farið hefir fram úr áætlun, sem ríkisstj. hefir að mestu leyti ábyrgð á. Til ráðuneytisins og ríkisféhirðis fara t. d. 40 þús. kr. fram úr áætlun 1937, til dómgæzlu og lögreglustarfs 212 þús. kr., til heilbrigðismála 236 þús. kr., til kennslumála 218 þús. kr., og til vegamála 333 þús. kr. Mjög mikið af þessu eru engan veginn áætlunarupphæðir, en beinlínis umframgreiðslur, sem látnar eru af hendi í viðbót við það, sem ákveðið er á fjárlögum. En þar er engan veginn öll sagan sögð, því að upplýsingar frá hæstv. fjmrh., að umframgreiðslur 1937 hafi ekki verið nema 2,3 millj. eru ekki réttar, vegna þess, að þar eru ríkisstofnanirnar alls ekki með. Í vetur, í áheyrn alþjóðar, benti ég á, að t. d. eru umframgreiðslur á launum og dagskrárkostnaði við útvarp 1937 rúmlega 43 þús. kr. Ég rakti, hvernig með þetta fé var farið, og hæstv. ráðh. hefir borgað upphæðina, sem er alveg gagnstæð því, sem fjvn. og Alþingi ákváðu í sambandi við fjárlögin 1937. En það er áreiðanlega meira blóð í kúnni en þetta. því að ég get upplýst það t. d., að hjá landssímanum og póstinum hafa gjöldin 1937 farið um nærri 400 þús. kr. fram úr áætlun. Með öðrum orðum, bara hjá þessum stofnunum hefir kostnaðurinn farið um nærri hálfa millj. fram úr því, sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Svona eru niðurstöðurnar nálega í hverri einustu grein í ríkisstofnununum, hvar sem leitað er, langt fram yfir þau takmörk, sem ákveðin eru. Ég held þess vegna, að það sé langbezt fyrir hæstv. fjmrh. að fara varlega í að mótmæla þeim ásökunum í þessu efni, að ríkisstj. hafi undanfarið brotið ákvarðanir fjvn. Alþingis.

Ég hefi ekki tíma til að svara samstarfsmanni mínum í fjvn. mörgum orðum og verð að láta nægja að segja, að það, sem hann talar um sem minn vilja í launamálum og fjármálum yfirleitt, mun ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn hér á Alþingi. Og ég tek mér það engan veginn nærri, því að ég lít svo á, að það sé þannig komið okkar fjárhag, að fullkomin ástæða sé til að breyta þar um stefnu. Og það verður ekki breytt um stefnu á annan veg en þann, að það séu samtök meðal þingmanna að skera fyrir þá aukningu á útgjöldum, sem sífellt hefir farið í vöxt á undanförnum árum.

Það kann kannske að láta vel í eyrum þeirra, sem taka við greiðslunum, og þeirra, sem fyrir stofununum standa, að það sé nirfilsháttur og þröngsýni að fara fram á að spara þessa hluti. En ég held, að við hljótum bráðlega að standa frammi fyrir þeim atburðum í okkar þjóðlífi, að það kunni að upplýsast, að ekki hafi verið sem heppilegast á þessum málum haldið. Hv. frsm. sagði, að ekki væri hægt að fara fram á að lækka launagreiðslur, nema því aðeins að lífskröfurnar væru því jafnframt lækkaðar. Ég vildi þá benda honum og öllum á það, að einmitt launagreiðslurnar eru undirstaðan undir því hvernig lífskröfurnar hafa verið sniðnar hér í höfuðstaðnum og í okkar landi, því að það er fyrst og fremst hin falska kaupgeta, sem haldið hefir verið uppi undanfarin ár. Ég skal svo ekki þreyta þolinmæði hæstv. forseta lengur, með því að ég hafði aðeins tíma til athugasemdar. En við 3. umr. fjárlaganna gefst mér vonandi tækifæri til að fara nokkuð nánar inn á þetta svið.