04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

18. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta er að nokkru leyti afleiðing frá síðasta þingi. Eins og kunnugt er, þá var 2. gr. laga þeirra, sem hér er lagt til að breyta, sett inn í þau hér í efri deild rétt undir þinglokin. Þegar svo stjórn veiðimálanna fékk lögin til þess að athuga um framkvæmd þeirra, taldi hún sér ekki fært að gera tillögur eftir þessari gr., og varð það því úr, að frv. á þskj. 18 var borið fram, til þess að fá þessa umræddu gr. fellda niður. Flm. frv. í Nd. var sá hluti veiðimálanefndar, sem sæti á hér á Alþingi, og auk þess nokkur hluti landbn. Nd. Í neðri deild var frv. samþ. mótatkvæðalaust og sent hingað til Ed. Hér fékk landbn. það svo til meðferðar, og töldum við hv. 11. landsk. ekki ástæðu til annars en samþ. frv. óbreytt, þar sem það virtist komið nægilega í ljós, að þessi umrædda gr. laganna væri ekki sem heppilegust, og veiðimálanefnd taldi sig ekki geta gert tillögu eftir henni. Auk þess hafði grein þessi verið samþ. með fyrirvara á síðasta þingi.

Hvað málið snertir þá tel ég það liggja svo skýrt fyrir, að ekki sé ástæða til þess að fara inn á miklar umr. um það nú. Við, sem skipum meiri hl., leggjum því til, að frv. verði samþ. og grein þessi þar með felld niður.

En hv. minni hl. landbn. hefir komið fram með brtt. í þessu máli og vill afnema úr l. frá síðasta þingi 1. gr. Þetta ákvæði var samþ. á þinginn í des. síðastl. Hann vill að það sé algerlega útilokað fyrir landeigendur að fá kauprétt á veiðiréttindum í ám, sem renna um lönd þeirra og þeir eiga sjálfir. Hann telur það muni verða til skaða fyrir laxveiðina, ef bændur, sem jarðirnar eiga, fá að kaupa þennan rétt.

En þetta er hrein höfuðvilla, því skilyrðið til þess, að hægt sé að kaupa þennan rétt, er, að starfandi sé fiskiræktarfélag við vatnið, sem veiðin er keypt i, og það vitum við allir, að með félagsveiði eru miklu betri gætur hafðar á því, að laxinn sé ekki of veiddur og að friðun haldist og á allan hátt reynt að auka laxveiðina í ánum, sérstaklega með laxaklaki, eins og reynslan hefir sýnt víða, þar sem slík félög hafa verið sett á stofn. Ég tel það því höfuðvillu að halda því fram. að það sé til skaða fyrir árnar, að landeigendur nái umráðum yfir þeim. Ég get hugsað, að það megi koma með eitt og eitt dæmi, eins og þm. kom með á síðasta þingi, þar sem þessu sé þann veg farið. eins og t. d. með Hafursfjarðará, sem hv. þm. minntist svo oft á á síðasta þingi. Hún er eign Thors Jensens, en þar hefir sérstaklega verið unnið að laxaklaki og lítið verið veitt. Hvað hana snertir er það vafasamt, þar sem einn er eigandi allrar árinnar, hvort bændur hafa rétt til að innlýsa veiðiréttinn. En það getur vel verið. Ég geri ráð fyrir, að þó aðrar ár komist í hendur landeigendum, þá verði veiði ekki svo skemmd, að til skaða horfi, heldur verði hún viðast hvar stórbætt.

Ég vil því óska þess, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, og felld sú brtt., sem fyrir liggur frá hv. 1. þm. N.-M.