04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

18. mál, lax- og silungsveiði

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er rétt hjá hv. þm., að það var samþ. á síðasta þingi, að ráðh. skyIdi setja reglur um það, að fengnum till. veiðimálastjóra, hvaða veiðitæki megi nota til lax- og silungsveiða, og hann spyr um það, hvað hafi verið gert í þessu efni. Ég get tekið það fram í upphafi, að þó þessi gr. væri samþ. á síðasta þingi, þá er það nokkurn veginn fullvist, að hún hefði aldrei náð samþykki hér, ef ekki hefði verið svo stutt eftir af þingtímannm, að jafnvel þeir, sem voru andvígir gr., samþ. hana í Nd. til þess að koma í veg fyrir, að ákvæðin í 1. gr. dagaði uppi, því ef Frv. hefði verið breytt í Nd., þá var næstum sýnilegt. að frv. allt hefði fallið. Það er þess vegna dálítið vafasamt um vilja Alþ. í þessu máli. Eins og málið lá þá fyrir á Alþ., þá lét ég það afskiptalaust, því mér virtist það komið í óefni, svo ég greiddi ekki atkv. Það er kannske óþarfi að taka þetta fram, en það skýrir málið nokkuð, því einmitt þeir menn, sem með þessi mál hafa farið og eiga sæti í Nd., munu hafa verið einna andvígastir þessu ákvæði, og það hefir sennilega oltið á þeirra atkv. um þetta mál. Það er því fullkominn vafi á þessu ákvæði eins og það liggur fyrir, hvort þarna komi í raun og veru fram vilji Alþ. í þessu efni. Eins og þetta ákvæði liggur fyrir í 2. gr., þá er ráðh. í raun og veru gefið fullt vald til þess að ákveða, hvaða veiðiaðferðir séu notaðar í ánum. Þó maður sé glaður yfir því trausti, sem þannig er sýnt. þá er það meir en lítið vafasamt, að Alþ. muni, ef það hugsar málið nánar, kæra sig um að fá ráðh. slíkt vald í hendur. Það stendur sem sé í 1., að ráðh. skal setja, að fengnum tillögum veiðimálastjóra, reglur um það, hvaða veiðitæki megi nota til lax- og silungsveiða, og skal í reglum þessum miða við þau veiðitæki, er líklegust þykja til þess, að fiskistofninn verði ekki upprættur. Aðrar takmarkanir eru ráðh. ekki settar. Þess vegna eru að sjálfsögðu upphafnar þær reglur, sem áður hafa verið settar um takmarkanir á veiði í ám, ef ráðh. á hverjum tíma þóknast að hafa ákvæðin svo eða svo. Það er því algerlega undir honum komið, hvort árnar eru friðaðar eða ekki. Honum er gefið sjálfdæmi í þessum efnum. Hann þarf ekki einu sinni að fara eftir tillögum veiðimálastjóra, því það er aðeins að fengnum hans tillögum, sem hann getur sett þessar reglur.

Þegar menn athuga, hvernig þetta mál var afgr., þá býst ég við, að flestir hv. þm. muni komast að þeirri niðurstöðu, að það sé meir en lítið vafasamt að fella þannig úr gildi þær takmarkanir um veiði í ánum, sem settar eru í laxveiðilöggjöfinni, og fá ráðh. í hendur einræðisvald um það, hvernig þessum reglum sé hagað í framtíðinni.

Það gegnir alveg sama máli, ef gr. er lesin áfram. Þar segir, að í reglum þessum megi ákveða fjölda veiðitækja, er notuð séu samtímis í veiðiá. Ennfremur megi setja ákvæði um það, hversu langan tíma úr sólarhring megi samfleytt veiða í á o. s. frv. Síðast segir, að þessar reglur megi ekki brjóta í bág við friðunarákvæði l. En veiðitækin, sem notuð eru við lax- og silungsveiði, eru þannig, ef menn fengju óskorað að nota hvaða tæki sem er, að það mætti gereyða laxi og silungi í ánum á stuttum tíma, eins og bent var á af veiðimönnum, þegar rætt var um þetta mál á síðasta þingi.

Nú spyr hv. þm. um það, hvað hafi verið gert. Að vísu er það ekki afsökun fyrir því, að ákvæði hafi ekki verið framfylgt, að það sé vafi á um réttmæti þess. Landbrh. ber að sjálfsögðu skylda til að gera þær ráðstafanir, sem fyrir hann er lagt af Alþ. að gera. En þegar athugað er, hvernig ætti að framfylgja þessu ákvæði, ef rétt er að farið, þá er ekki um annað að ræða en að mæla upp allar veiðiárnar og kortleggja þær með veiðistöðunum. Það er ómögulegt að setja þessar reglur nema að kortleggja veiðiárnar. Ég veit, að veiðimálanefndin og veiðimálastjóri eru mér sammála um, að það sé ómögulegt að setja reglur um þetta, nema með því móti. Þetta er þess vegna ómögulegt og óframkvæmanlegt fyrr en í sumar, að undirbúa þetta verk, ef þetta verður látið standa í l. Það veit ég, að hv. þm., sem gerði fyrirspurnina, er ljóst. Það kemur vitanlega ekki til mála að fara úr öskunni í eldinn í þessu máli. Það er ekki hægt að setja reglur um lax- og silungsveiði nema ítarleg rannsókn hafi farið fram á ánum áður. Það hefir þess vegna ekkert verið gert enn og verður ekki gert fyrr en ísa leysir í vor. Þá yrði að mæla árnar og spyrjast fyrir um veiðistaðina og kortleggja þá og ákveða síðan veiðitækin.

Um kauparétt á veiði vil ég segja það. að ég álit, að rétt sé að framlengja það ákvæði. Það er rétt hjá hv. þm., að þessi réttur er lítið notaður á ýmsan hátt, en samt sem áður álit é, það mikla framför frá því, sem áður var, að jarðirnar sjálfar ráði yfir veiðiréttinum. Ég tel því sjáifsagt að framlengja þetta ákvæði. Það er ákaflega leiðinlegt að koma málum fyrir eins og áður var, að það er búið að selja veiðiréttinn undan mjög mörgum af beztu veiðiánum í landinn og skilja þannig einhvern dýrmætasta hlutann frá jörðunum og jarðarafnotunum. Ég álit því, að það spor, sem var stigið til að heimila bændum að kaupa veiðiréttinn aftur, hafi verið rétt. Mjög víða hefir þessi kauparéttur verið notaður til að byggja upp félagsskap um veiðina, þar sem hún var áður að eyðileggjast. Það má benda á veiðiréttindi víða í Húnavatnssýslu, sem þannig er búið að ganga frá. Ég tel þetta stórt spor frá því, sem áður var. Það eru að vísu tvær ár, sem bændur hafa keypt, þar sem Þeir hafa ekki haft þroska til að nota veiðivötnin á þann hátt. sem er þeim sæmandi. Þeir hafa leigt árnar út í smápörtum og eru með því á góðum vegi með að eyðileggja veiðina. Þetta er þeim til minnkunar. Ég hefi von um, að þetta verði lagað með aðra ána í vor eða sumar. Ég vona, að það verði þannig yfirleitt með hin endurkeyptu veiðiréttindi, að þau verði notuð til að stofna veiðifélög um árnar, sem leigi út árnar í einni heild og haldi uppi fiskirækt eins og víða hefir verið gert.

Það má benda á, að það hefir verið stofnaður einn slíkur félagsskapur hér á Suðurlandi, um Hvítá og Ölfusá og bergvatnsár, sem í þær renna. Það er stærsti og myndarlegasti félagsskapur, sem enn hefir komizt á um þessi mál. Það má sennilega gera þarna eitthvert bezta og fullkomnasta veiðihverfi, sem til er á landinu. Þetta hefði ekki verið hægt, ef endurkauparétturinn hefði ekki verið til staðar og margir einstaklingar hefðu átt veiðiréttindin, skilin frá jörðunum. Ég vil þess vegna ekki fella niður I. gr. En ég álit, að 2. gr., eins og gengið hefir verið frá henni og svo lítið, sem það mál hefir verið athugað, eigi að falla niður, eins og gert er ráð fyrir í frv., sem hér liggur fyrir.