04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

18. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Hæstv. ráðh., sem ætlaði að svara fyrirspurn minni, hefir ekki enn gert það. Ég spurði hann, hvað hann hefði gert til að framkvæma þáltill., sem var samþ. hér í d. á síðasta þingi og hann sjálfur og öll d. var með í að samþ. Þessi þáltill. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Efri deild Alþingis skorar á ríkistj. að láta endurskoða löggjöf um lax- og silungsveiði, með þá breyting á löggjöfinni fyrir augum, að veiðiár verði flokkaðar og reglur settar um það í löggjöfinni sjálfri, hverjar veiðiaðferðir megi viðhafa í flokki hverjum“.

Þetta var þáltill., og hún var samþ. af öllum í hv. d. og þar með af hæstv. ráðh. Nú vil ég spyrja. hvað þessari endurskoðun sé langt komið. Er búið að skipa n. til að framkvæma þessa endurskoðun? Er sú n. að verki, og kemur álit hennar fyrir þetta þing eða næsta þing? Það er það, sem ég vil fá að vita. En hvort einhver veiðimálanefnd telji annmarka á framkvæmd 2. gr. 1. frá í fyrra, er allt annað mál.

Ég óska eftir að fá að vita, hvað líður þessari endurskoðuðu löggjöf, og hvort við eigum von á henni á þessu þingi eða því næsta.