04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

18. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en ummæli hv. L þm. Reykv. komu mér til að standa upp. Hann var að tala um. að að endurheimta þennan veiðirétt strax stappi jafnvel nærri stjórnarskrárbroti, og mátti skilja það þannig hjá honum, að svo ranglega væri farið með menn, að þeir fengju ekki fullt verð fyrir eign sína, sem þeir afhentu. — Ég verð að segja það, að ef á að skilja ræðu hv. þm. þannig, þá er þetta rangt og óviðeigandi getsakir. Í löggjöfinni er þannig búið um hnútana, að þeir eigendur veiðiréttarins, sem láta hann af hendi, geta fengið fullt verð fyrir hann eins og aðrar eignir, þannig, að það eru dómkvaddir menn, sem meta verðmæti þessara eigna. Og ef annar aðiljinn unir ekki við málið, þá má heimta yfirmat. Og að ætla það, að tveir flokkar hinna helztu manna í héraði meti rangt þessi verðmæti, því verð ég algerlega að mótmæla. En hitt getur verið, að eftir að mat hefir farið fram, komi fyrir atvik, sem hefji upp þessi verðmæti laxveiðiréttarins í ánum; það geti kannske eftir að mat hefir farið fram lækkað eða hækkað að stórum mun. En það er alls ekki þar með sagt, að seljendur hafi ekki fengið fullt verð fyrir á sínum tíma.

Mér fannst hv. þm. N.-M. vera dálítið hróðugur yfir þessari aðstoð, sem hann hefir þarna fengið. En ég segi það, að ég gæti unnt hv. 1. þm. Reykv. annars kostar betri en að vera kapellan hans í slíku máli. En hvað snertir veiðiréttinn í laxám, þá er því svo farið, að flestar laxárnar renna um þau héruð, sem nú kallast pestarsvæði. Og einmitt það ástand ætti ekki að verða til þess, að þingið færi að kippa að sér höndum, þegar menn nú standa í þeim miklu erfiðleikum og vandræðum, og gera þeim ómögulegt að leysa inn til sín þann rétt, sem þeir virtust hafa siðferðislega kröfu á að fá og fullkomna þörf fyrir. Og ég vænti þess, að það verði ekki litið við þessari till. af hv. d., sem hv. 1. þm. N.-M. kom fram með, því hún nær engri átt, og allra sízt á þessum tímum.