14.03.1938
Efri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Flm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Eins og grg. ber með sér, er þetta frv. flutt eftir ósk síldarútvegsnefndar, og hefir n. orðið sammála um að fá frv. samþ. og óskar eftir, að það verði samþ. á þessu þingi.

Í fyrra sumar hafði n. hugsað sér að reyna að fá þessu mati komið á, en vannst ekki tími til þess að koma því fram á því þingi, sem sat í vetur. En svo varð það úr, að síldarútvegsnefnd skipaði þrjá menn ásamt matsstjóra n., Magnúsi Vagnssyni, til þess að undirbúa þetta frv. Af hálfu síldarútvegsmanna voru tilnefndir þeir Steindór Hjaltalín og Jón Kristjánsson, en af hálfu síldarverkenda Gunnlaugur Jónsson. Tveir af þessum mönnum, þeir Steindór Hjaltalín og Gunnl. Jónsson, kváðust ekki geta tekið þátt í að undirbúa þetta frv.; gerðu ráð fyrir að frjáls útflutningur á síldinni myndi hafa meiri áhrif en þó mati sem þessu væri komið á. Aftur á móti var Jón Kristjánsson ákveðinn í því að undirbúa þetta frv. og sömuleiðis Magnús Vagnsson, og hafa þeir samið till. og skilað til n., sem hefir farið yfir frv. og samið það, ásamt þeirri grg., sem hér fylgir með.

Það, sem aðallega gerir það að verkum, að n- leggur áherzlu á að fá frv. samþ., er það, að þær þjóðir, sem framleiða matjessíld, hafa þegar komið á hjá sér mjög fullkomun mati á útflutningssíld, og má þar sérstaklega nefna skozka matið. Þeirri aðferð hefir verið komið á hjá okkur síðan síldarútvegsnefnd tók til starfa, að þeir, sem kaupa síldina, koma annaðhvort sjálfir eða senda mann til að skoða síldina, og má því segja, að þetta hafi komizt í betra horf en áður, því að þá var síldin oftast send út í umboðssölu og síðan viðurkennd þar.

Eins og ég sagði, hefir þetta færzt í það betra horf, að kaupendurnir hafa komið hingað upp sjálfir og viðurkenna síldina hér, en vitanlega er það nokkuð komið undir duttlungum þessara manna, sem við síldinni taka, hvernig þeir meta hana.

Þá hefir verið haft það fyrirkomulag, að jafnt hefir verið greitt út á alla síld, sem seld hefir verið, án tillits til þess, hvort um fyrsta flokks eða jafnvel eitthvað af annars flokks vöru hafi verið að ræða. Þeir menn, sem hafa lagt töluvert mikið í sölurnar til þess að fá góða vöru, hafa ekki fengið meira greitt fyrir sína fyrirhöfn en aðrir, sem minna hafa lagt í sölurnar. Það er því nauðsynlegt að fá þetta mat sem fyrst, bæði gagnvart þeim, sem kaupa síldina af okkur, og einnig vegna vöruvöndunnar innanlands.

Það má geta þess í þessu sambandi, að Norðmenn hafa komið upp hjá sér allströngum áákvæðum um útflutningsmat á síld, og mér er kunnugt um, að fyrsta flokks vara þeirra hefir líkað sæmilega.

Hér hjá okkur er það talið sjálfsagt að meta og flokka aðrar útflutningsvörur, og ætti þá ekki síður að vera ástæða til að meta þessa vöru, sem er orðin einn stærsti liðurinn í útflutningsverzlun okkar.

Það hefir verið lagt til, að matið færi fram á síldinni fullverkaðri, en ekki á fersksild. Þetta er sjálfsagt, því margt getur komið fyrir, sem geri síldina óhæfa, þó að hún hafi verið óskemmd, þgar hún kom að bryggju.

Ég held, að ekki sé ástæða til að fjölyrða frekar um málið, en vildi fara þess á leit, að frv. yrði vísað til hv. sjútvn. að lokinni 1. umr