11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Ísleifur Högnason:

Ég vildi mega beina fyrirspurn til hv. form. sjútvn. viðvíkjandi 4. gr. frv., um það, hvaða nauðsyn beri til, að þessir matsmenn og matsstjórar séu háðir algerðri þagnarskyldu. Ég get hugsað mér, að nauðsynlegt geti verið að lögbjóða þagnarskyldu að því er snertir sérstakar verkunaraðferðir, sem halda verði leyndum. En þá vildi ég spyrja hv. n., hvort hún teldi ekki réttara að takmarka þagnarskylduna við þetta.

Þá er 6. gr., þar sem rætt er um sektarákvæði. Ég vil í sambandi við hana geta þess, að mér er kunnugt um, að fyrir nokkrum árum fluttu nokkrir útflytjendur hér við Faxaflóa út 2000–4000 tunnur af útvatnaðri saltsíld til Danmerkur, og var hún seld þaðan til Þýzkalands sem matjessíld. En verðmunur á saltsíld og matjessíld getur verið 10–12 kr. Þessir braskarar munu að líkindum hafa hagnazt á þessari sölu um 40 þús. kr. En fyrir svona brask gerir frv. ekki ráð fyrir hærri sektum en 2000 kr. Dæmi það, sem ég nefndi, sýnir, að með svona lágu sektarákvæði getur það beinlínis verið álitlegur gróðavegur að brjóta l. og greiða sektina. Ég tel því þetta sektarákvæði allt of lágt og vildi óska þess, að hv. n. gerði á þessu viðeigandi breytingu.