11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Sigurður Kristjánsson:

Ég hefi áskilið mér rétt til að koma fram með brtt. við frv. Ég geri ráð fyrir, að við það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir, myndi hlaðast allmikill kostnaður á síldina, en í slíkt verður að fara gætilega, vegna þess að þessi vara okkar er mjög takmörkuð, og má því búast við, að þessi kostnaður komi niður á fremur litlu útflutningsmagni.

Í 3. gr. er sagt, að ráðh. skuli ákveða laun matsstjóra og matsmanna. Þetta tel ég ógætilegt, og mun ég því bera fram brtt. við 3. umr. Allir hv. þm. vita, að hér á landi starfa margir matsmenn í ýmsum greinum, og eru laun þeirra yfirleitt heldur léleg. Nú er það kunnugt, að yfirmatsmenn á fiski hafa mikið starf með höndum, en eru þó illa launaðir. Gætu af því hlotizt vandræði, ef matsstjórum og matsmönnum síldar væri ákveðin hærri laun en fiskimatsmönnum, sérstaklega yfirmatsmönnum, fyrir minna verk. Myndi það eflaust leiða af sér kröfur um launahækkun af þeirra hálfu. Tel ég því nauðsynlegt að ákveða þegar í þessum l. launakjör síldarmatsmanna, a. m. k. matsstjórans.