11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Út af aths. hv. 5. landsk. við 4. gr. get ég upplýst, að þessu með þagnarskylduna víkur þannig við, að matsmenn eiga ekki að gefa keppinaulum eða öðrum saltendum upplýsingar um atriði, sem þeir hafa orðið áskynja að því er snertir ástand vöru, er þeir hafa metið. Það er ekki til þess ætlazt, þó að ákveðið sé mat á þessari vöru, að þar með sé opnað leið til opinberrar gagnrýni á viðkomandi framleiðanda.

Að því er sektarákvæðin snertir, tel ég koma fram óþarfa hræðslu hjá hv. 5. landsk. Þessi upphæð er algeng sem sektarákvæði, og hærri sektarákvæðum er sjaldan beitt. Ég geri þetta atriði þó ekki að neinu kappsmáli.

Viðvíkjandi aths. hv. 6. þm. Reykv. vil ég upplýsa, að sjútvn. ætlast til, að skipaður verði einn matsstjóri með sæmilegum launum, og hefir hann áreiðanlega meira en nóg að starfa allt árið. Auk þess ætlast n. til, að ráðnir verði 3 undirmatsmenn, sem ekki er gert ráð fyrir, að starfi nema yfir síldartímann. Ég held, að nærri láti, að sú álagning á síldina, sem gert er ráð fyrir, hrökkvi fyrir þeim kostnaði, sem ríkissjóður myndi hafa af þessu.