19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Sigurður Kristjánsson:

Ég bjóst við, að frsm. þessa máls myndi kveðja sér hljóðs, en hann mun vera veikur, svo eftir honum þarf ekki að biða á þessum fundi. — Þetta mun vera síðasti áfangi frv. þessa, svo fremi sem það verður samþ. óbreytt, en ég hefi, eins og hv. dm. er kunnugt, leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við það.

Eins og menn vita, þá hefir ekkert mat verið á síld hér undanfarin ár, en það stafaði af því, að kaupendur síldarinnar tóku litið eða ekkert tillit til þess, og því þótti ekki svara kostnaði að halda því uppi. En þó að svona hafi verið, þá er það eigi að siður mikið atriði fyrir okkur, að það liggi jafnan fyrir, hvernig varan er, en það verður ekki gert nema með því, að hún sé metin. Þess vegna verður því ekki í móti mælt, að þörf sé á, að útflutningsvara þessi sé metin, en hinsvegar er ekki hægt að neita því, að það er ekki skemmtilegt að auka kostnaðinn við framleiðsluna frá því, sem nú er. Hér verður því að fara varlega. hlaða ekki á framleiðslu þessa umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ráðh. ákveði laun matsstjóra og matsmanna, og til þess að standast þennan kostnað er ákveðið að leggja 25 aura gjald á hverja tunnu af matsskyldri síld. Það mun ætlazt til þess, að þessir menn, matsstjóri og matsmenn, komist á föst laun, en hinsvegar er það alls ekki á valdi þeirra, sem framleiða hina gjaldskyldu vöru og eiga því að standa undir kostnaðinum, hversu menn þessir eigi að vera margir eða hver laun þeirra skuli vera. En mér finnst ekki forsvaranlegt, að þingið gangi þannig frá þessu, og því hefi ég flutt brtt. á þskj. 258, þar sem ég legg til, að kaup matsstjóra verði fastákveðið 4200 kr., en að matsmenn skuli aðeins hafa tímakaup. Ég hefi sniðið þessar till. mínar eftir þeim reglum, sem fylgt er um fiskimat, því að ég tel, að hér sé um mjög hliðstætt mál að ræða. Það, sem ég fer því fram á, er það, að ríkissjóður greiði kaup síldarmatsstjóra, en að matsmenn fái laun sín frá síldarframleiðendum.

Ég heyri sagt, að það eigi ekki að ljúka þessari umr. nú, og skal ég því ekki fara öllu fleiri orðum um brtt., en vænti þess, að hv. þdm. taki vel til athugunar og yfirvegunar, hvort ekki sé rétt að fara þessa leið, sem hér er bent á, og létta þar með þessu 23 aura gjaldi af matjessíldarframleiðslunni. Hitt getur að sjálfsögðu verið álitamál, hvort laun matsstjóra séu rétt ákveðin 4200 kr., en ég tel það þó vera í samræmi við laun fiskimatsmanna. Einnig má um það deila, hvort ekki eigi að ákveða undirmatsmönnum föst laun. Ég fyrir mitt leyti tel það ekki rétt, því að mér finnst varhugavert að binda þessa framleiðslu mjög með fastlaunuðum mönnum, framleiðslu, sem ekki nemur yfir 60–70 þús. kr. árlega.