20.04.1938
Neðri deild: 50. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Sigurður Kristjánsson:

Ég gerði grein fyrir þessari brtt. í gær, og þó að frsm. væri þá ekki við, sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Hans ræða gaf ekki tilefni til þess, og mín ræða í gær gekk eingöngu út á að gera grein fyrir, hvers vegna ég teldi heppilegra að ákveða laun matsstjóra og undirmatsmanna í lögum. Þessi atvinnurekstur er, eins og menn vita, mjög stór, og af þeirri ástæðu er rétt að gæta alls hófs um þann kostnað, sem á þetta leggst, og þó að þetta sé ekki nema 25 aura gjald á tunnu, þá er það 1%, sem bætist við útflutningsgjaldið.

Um öryggi matsins skal ég segja það aðeins, og held ég, að ég hafi komið að því í gær, að ég vil með engu móti rýra það; ef það fyrirkomulag, sem ég sting upp á, mundi gera slíkt, þá hefði ég alls ekki komið með þessa till., en ég er sannfærður um, að með þessu fyrirkomulagi er hægt að hafa matið alveg öruggt.

Í sambandi við það, sem hv. frsm. sagði, að samkv. frv. þyrfti ríkissjóður ekki að greiða matið. vil ég taka það fram, að það er ekki heldur ætlazt til þess í minni brtt., því að ég ætlast aðeins til þess, að matsstjóranum sé greitt, og það er í samræmi við fyrirkomulagið á matinn á öðrum útfluttum vörum frá landinu. Það er ríkissjóður, sem greiðir yfirfiskimatsmanni og matsstjóra síðan hann kom, ullarmatsmönnum, og ég held lýsismatsmönnum líka. svo að þetta er í samræmi við það. En hinsvegar er ætlazt til þess eftir minni brtt., að síldareigendur greiði matið að öðru leyti, hver af þeirri síld, sem hann flytur út, og þá þarf ekkert gjald að leggja á. Það leiðir af sjálfu sér.

Eg get látið nægja að vísa til þess, sem ég sagði um þetta mál í gær, og auðvitað hafa hv. þdm. átt þess kost að átta sig á málinu og yreiða að sjálfsögðu atkv. um það eftir ákveðinni skoðun. Annars sýnist mér heldur dauft útlit með það, að nokkur þátttaka verði í atkvgr., vegna þess hvað litið er af þm. í d.