21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

73. mál, hrafntinna

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta frv. er svo að segja shlj. frv. því, sem flutt var hér á Alþ. 1935, en það komst þá ekki alla leið gegnum þingið. Það frv. var um sérleyfi til handa öðrum af sérleyfisbeiðendum þessa frv. Og ástæðan til þess, að það frv. komst ekki gegnum þingið, var, að ég hygg, að skorta þótti upplýsingar um. hvort nægilega mikið magn af þessari bergtegund, sem hér um ræðir, væri fyrir hendi í landinu, til þess að skynsamlegt mætti teljast að hefja á henni útflutning. Ég held, að það sé nú alveg nægilega upplýst, að hér á landi muni vera geysimikið til af hrafntinnu. Það eru á nokkrum stöðum á landinn til heil hraun af þessari bergtegund. Menn gizka að vísu á misjafnlega mikið magn, en svo mikið er vist að það er geysimikið. Ég held, að allar þjóðir telji sjálfsagt að vinna þær námur, sem í löndunum finnast, og þykir því betra sem eitthvað er hægt að vinna úr þeim til útflutnings.

Iðnn. hefir þess vegna ekki séð neina ástæðu til þess að standa á móti því, að þetta sérleyfi væri veitt, þar sem það er aðeins til 5 ára. Mun sá tími tæplega geta verið skemmri, til þess að sérleyfishafar geti auglýst vöruna erlendis og unnið henni markað.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en vænti þess, að hv. þd. láti málið ganga sem tafarminnst áfram. Til n. er ekki ástæða til að vísa því, þar sem það er flutt af n.