21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

73. mál, hrafntinna

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Mér þykir rétt að geta þess þegar við þessa umr., að til eru í landinu fleiri afbrigði af hrafntinnu, misjafnlega falleg, og sum meira að segja svo hrein, að gert hefir verið nokkuð að því að slípa þau í skartgripi. En langmestur hluti þeirrar hrafntinnu, sem hér er til, er ekki nærri því svo hrein, heldur blönduð öðrum efnum, sem eru eins og dálítil korn og líta bergtegundina mjög mikið.

Vegna þess, hve lítið er til af gallalausri hrafntinnu, að því er vitað er, þá mun hafa verið horfið frá því ráði að veita þessa heimild, sem hér er um að ræða, þegar fram á það var farið fyrir nokkrum árum við hv. Alþ. En nú tel ég hinsvegar, að þessi annars flokks hrafntinna hljóti að vera nógu góð til þess að nota hana til húðunar á hús, vegna þess að til hennar er ekki notuð samfelld bergtegundin, heldur mulin og blönduð öðrum efnum, ljósum að lit, svo að mér þykir líklegt, að til þessa mætti nota dílótta hrafntinnu, sem mjög mikið er til af.

En til þess að fyrirbyggja, að flutt yrðu út gallalaus afbrigði af hrafntinnu, þau afbrigði, sem síðar mætti væntanlega hafa gagn af við listiðnað, þá hefir nefndin sett heimild handa atvmrh. í 5. gr. frv., til þess að undanskilja frá útflutningi slíka bergtegund.

Mér þótti rétt að geta þessa, vegna þess að eins og frv. liggur fyrir nú, brýtur það ekki í bága við fyrri ákvarðanir Alþ., þegar tillit er tekið til þeirra upplýsinga, sem fengizt hafa í málinn síðan það lá hér fyrir síðast.