13.04.1938
Efri deild: 48. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

73. mál, hrafntinna

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Snæbjörnsson):

Þetta frv. er borið fram af iðnn. Nd. og fer fram á það. að tveim mönnum sé veitt heimild til þess að flytja út hrafntinnu um 5 ára skeið. Þessir menn hafa báðir unnið nokkuð að því að leita markaðar fyrir þessa vöru, bæði í Danmörku og Englandi, og er búizt við því, að þetta geti orðið útflutningsvara fyrir þá.

Samskonar frv. þessu hefir áður legið fyrir alþ., mig minnir árið 1935. En þá náði það ekki fram að ganga, aðallega vegna þess, að menn voru ekki vissir um, hvort nægilega mikið mundi vera af hrafntinnu hér á landi fyrir heimsmarkaðinn, og menn álitu því, að það mundi vera varhugavert að flytja hana út. Sama kom fram við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. hjá hv. 1. þm. N.-M. En þar sem fullrannsakað hefir verið, bæði af Pálma Hannessyni rektor og öðrum, að næg hrafntinna muni til hér á landi vera til útflutnings, þ. e. a. s. blönduð hrafntinna, hefir, einmitt með skírskotun til þess, verið í Nd. breytt þannig frv., að það er ákveðið í 5. gr. þess, að atvmrh. geti sett reglugerð um framkvæmd einkaleyfisins og að hann megi þar ákveða. að óheimilt sé að flytja út beztu tegund af hrafntinnu. Það er þannig algerlega eftir frv. í höndum atvmrh., hvort bezta tegund hrafntinnu verður seld út eða ekki. Ætti þar með að vera kippt burt ástæðunni fyrir þeirri mótbáru gegn frv., sem komið hefir fram þegar það var .áður fyrr hér á Alþ.

Meiri hl. iðnn. leggur til, að frv. þetta verði samþ. En einn nm., hv. þm. S.- Þ., er með brtt. við frv., þess efnis að hækka útflutningsgjaldið af þessari bergtegund úr 5 kr. upp í 80 kr. smálest. Meiri hl. n. áleit, að þar sem leyfistíminn er hafður svona stuttur, eins og til er tekið í frv., þá mundi það ekki verða meir en svo tími fyrir þessa menn að útvega á því tímabili markað fyrir vöruna. Og þegar svo þessi 5 ár væru liðin og búið væri að fá vitneskju um það, hvort fyrir þessa vöru væri um verulegan markað að ræða, þá væri á valdi Alþ. aftur að ákveða hærra útflutningsgjald af vörunni, svo framarlega að áframhald yrði á þessum útflutningi. En í annan stað væri þetta töluvert til hagsbóta fyrir ríkissjóð, ef hægt væri að afla með þessum útflutningi einhvers af erlendum gjaldeyri. Og því fannst okkur, meiri hl. iðnn., sjálfsagt, að þetta yrði að l. nú, þar sem vafasamt yrði, hvort mennirnir, sem um getur í frv., vildu taka að sér þetta einkaleyfi, ef útflutningsgjaldið ætti að vera svo hátt á þessari vöru eins og farið er fram á í brtt. hv. minni hl. iðnn.

Loks vil ég geta þess, að iðnn. hefir í dag borizt erindi frá húsameistara ríkisins, þar sem hann skrifar um þetta mál. En þar sem það hefir komið svo seint fram og n. hefir alls ekki athugað það, þá mun það ekki verða til umr. við þessa umr., en það mun verða athugað af iðnn. milli 2. og 3. umr. málsins.