09.03.1938
Efri deild: 18. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

51. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Mér þykir gott, að hv. 1. þm. Reykv. skuli vilja styðja frv. — Út af þeim ummælum hv. þm., að það sé öfug þróun, sem hér virðist vera orðin, að stj. flytji varla nokkurt frv., en nefndir flytji þau aftur fyrir hana, vil ég benda hv. þm. á það, að aðstaða okkar í þessum efnum er allt önnur en nágrannaþjóðanna a. m. k. Við búum langt frá konungi okkar og er því dýrt að síma frv. út til þess að hægt sé að leggja þau fyrir hann. Gegnir því allt öðru máli hér en þar, sem konungarnir eða ríkisforsetarnir eru búsettir í löndunum.

Hinsvegar er ég sammála hv. þm. um það, að sú venja, sem viðgengst hér, að þm. megi flytja eins mörg frv. og þeim sýnist, þurfi að breytast, og má vel vera, að það gæti farið vel á því að færa þetta í eitthvað svipað form og virðist vaka fyrir hv. 1. þm. Reykv. Ég get hinsvegar búizt við, að það yrði erfitt að breyta jafnrótgróinni venju sem þessari. Mér kæmi það t. d. ekkert á óvart, þó að slík breyt. mætti samskonar andúð og lög um takmörkun á ræðutíma þingmanna mætti á sínum tíma. Annars skal ég fúslega játa, að ég er jafnan reiðubúinn að ganga inn á breytingar á gömlum og úreltum venjum, sem ekki eiga lengur við, bæði hvað snertir þessi mál sem önnur.