06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1939

*Einar Olgeirsson:

Við þm. kommúnistaflokksins höfum lagt fram nokkrar brtt. við fjárl. nú við 3. umr. Flestar þeirra ganga nokkuð í sömu átt og þær, sem við fluttum við 2. umr., en fara yfirleitt fram á mun lægri upphæðir. Í raun og veru er óþarfi að færa á ný fram rök fyrir þeim málum og tefur aðeins tímann. En það, sem við sérstaklega leggjum áherzlu á af þessum till., eru auðvitað þær, sem sérstaklega miða að því að auka atvinnu til verulegra muna. Það er vitanlegt öllum hv. þm., að útlitið er nú alveg sérstaklega slæmt fyrir landið. Sérstaklega fer atvinnuleysið hraðvaxandi nú sem stendur. Og ef þessu heldur áfram, ekki sízt ef ný kreppa er skollin á, þá verður ástandið orðið þannig á næsta ári, að óhjákvæmilegt verður að gera einhverjar verulegar ráðstafanir til að bæta úr neyð fólksins, sem nú vofir yfir. Nú er einmitt verið að semja fjárl. fyrir 1939, og væri það alveg vítavert hirðuleysi, ef ekki er tekið tillit til þess, hvernig allar horfur eru. Í till. okkar höfum við farið mun skemmra en áður, ef takast mætti að fá eitthvert samkomulag um þær. Þannig er um framlagið til atvinnubóta og byggingarsjóða. Sumum smærri málum höfum við sleppt. Till. til sundlaugarbyggingar er nú 10 þús. kr., Sogsvegurinn 50 þús. kr., Siglufjarðarskarð 30 þús. kr.

Ef hv. þm. vilja í alvöru sýna einhverja viðleitni í þeim mest aðkallandi málum, sem liggja fyrir, þá er réttasta leiðin til þess sú að samþ. sérstaklega þær till., sem við merkjum með rómv. 24. Ég held það væri mjög hættulegur hlutur að skeyta því litlu að bæta því nú við framkvæmdir þess opinbera, einmitt á sama tíma sem framkvæmdir einstaklinga koma til með að minnka, eins og alltaf er, þegar verðfall er fyrir höndum.

Viðvíkjandi till. frá fjvn. og frá einstökum þm. er það að segja, að með sumum þeirra munum við að sjálfsögðu verða. Um till. frá n. um styrk til barnaheimila og barnaverndar, 14 þús. kr., eftir ákvörðun ráðh., vil ég segja, að ég tel þann lið mega vera hærri. Það er lítill vafi, að fátt af þeim fjárupphæðum, sem þingið veitir, kemur að eins miklum notum eins og einmitt það, sem lagt er til barnaheimila og barnaverndar. Það er vitanlegt, að ekki aðeins bær, heldur félög, leggja mikið á móti, svo að fé ríkisins tvöfaldast í notkun. Og meðal fólks almennt er mikill áhugi fyrir þessu máli, sérstaklega að koma upp barnaheimilum, og einnig að stuðla á annan hátt að barnavernd. Og í kaupstöðum er mikill áhugi fyrir því að koma börnum í sveit. En það er vitanlegt, að þessi upphæð er of lítil, og þyrfti að auka slíkt framlag. Það liggja fyrir, eins og fjvn. er kunnugt, umsóknir frá Hafnarfirði, Akureyri og Ísafirði og fleiri stöðum, sem nauðsynlegt er að geta að einhverju leyti sinnt, og ég held þetta sé einn af þeim liðum, sem sérstaklega þyrfti að athuga.

Af till. einstakra hv. þm. vil ég minnast á till. frá hv. þm. A.-Húnv. viðvíkjandi 18. gr., Halldór Laxness. Það er nú orðið svo vanale5 , að sjá slíkt sem þetta, að manni bregður ekki sérstaklega við það. Annars býst ég við, að víðast hvar þætti það koma úr hörðustu átt. að svipta einn af helztu listamönnum þeim styrk, sem hann hefir. Það er rétt að minna í því sambandi á það, að nýlega komst inn á fjárlög í norska stórþinginu einn af þeim, sem hörðust barátta hefir staðið um þar, og miklu harðari heldur en um Halldór Laxness. Þessi maður er Arnulf Överland. Þannig miðar hjá öllum menningarþjóðum í þá átt, að menn sýna, að þeir kunna að meta list og skáldskap, en ekki hitt, að menn reyni að hundsa slík mál á allan hátt. Það er þess vegna mjög leiðinlegt, að þessi till. komi fram þing eftir þing. Þó að hitt sé náttúrlega vitanlegt, að hún verði alltaf felld; svo mikið ann Alþingi Íslendinga sóma sínum.

En svo að ég víki aftur að þessum till. í heild, þá vildi ég leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að reynt yrði að sinna eitthvað till. um atvinnumálin. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef ekki á að lenda í stórvandræðum. Það er auðséð, að nú er farið að hugsa fyrir ýmsum drastiskum ráðstöfunum af hendi ýmissa afturhaldsmanna, ýmsum sporum aftur á bak um áratugi, t. d. með styrkþega og kosningarrétt, og aldir aftur í tímann með átthagafjötri og öðru þess háttar. Svo að það er auðséð, að viss öfl í landinu eru mjög að komast í hreyfingu til að beita miðalda-kúgunaraðferðum til þess að halda fólkinu niðri. Náttúrulega verður það ekki mögulegt með neinu slíku móti. Enda er vitanlegt, að það, sem fyrir liggur að gera, er að bæta úr þörf fólksins, en ekki að reyna að kúga það. Og þegar um það er að ræða, að til eru þú sundir manna atvinnulausir, og vilja ekkert frekar en vinna, þá er mjög hart, að Alþingi, sem nú hefir yfir að ráða 16–17 millj. kr., skuli ekki geta séð af nokkrum hundruð þúsund kr. í viðbót til þess að tryggja, að vinnuafl manna í landinu — og oft duglegustu mannanna — geti komið að fullu haldi. Það, sem við sérstaklega þurfum að sjá, er, að hið skaðlegasta fyrir okkur sem heild er það, að mikið af okkar vinnuafli skuli þurfa að vera órotað. Það er þetta, sem gerir þjóðina fátæka og veldur henni miklum erfiðleikum. Bezta ráðið til að tryggja afkomu verkalýðsins er einmitt að tryggja honum atvinnu, sem hann óskar eftir frekar en styrkjum. Og samkvæmt þjóðfélagslegum sjónarmiðum er það að öllu leyti heilbrigðara. Þess vegna er það úr hörðustu átt, að einmitt sömu mennirnir, sem hamast á móti því, að framfærslustyrkurinn aukist, þeir berjast mest á móti því að vinnan aukist í bæjunum og ríkið geri sitt til þess. En það er enginn efi, að heppilegasta leiðin er að auka vinnuna, og það er stórkostleg hætta framundan, ef því er ekki sinnt.