28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Eiríkur Einarsson:

Það er öðru nær en að ég vilji sýna með máli minn hér ógeðþekkni mína gegn þessu frv. á neinn hátt, heldur þvert á móti láta þá skoðun mína í ljós, að þar sem frv. þetta miðar að því að efla hagnýta húsmæðrafræðslu í landinu, þá er það vitanlega orð í tíma talað, því að það kemur nú víðar og víðar fram, eftir því sem árin líða, og í hinu mikla skólalífi þjóðarinnar sést það æ betur og betur, að það, sem æskulýðurinn í raun og veru þarfnast mest til undirbúnings fyrir lífið, er ekki sízt hin verklega kunnátta, þó að ég mæli ekki á móti — síður en svo — bóklegri menntun. Stendur þá viðar til bóta kennslufyrirkomulag okkar, þar sem almenna menntunin er látin yfirleitt vera í fyrirrúmi, þ. e. a. s. bóklega fræðslan. Reynslan hefir sýnt, að meiri hagnýt fræðsla fyrir æskulýðinn eigi rétt á sér.

Ég álít því, að þetta frv. um hagnýta húsmæðrafræðslu eigi hinn fyllsta rétt á sér, og vænti ég þess, að flestir eða allir hv. þm. geti orðið sammála um að samþ. það.

En það, sem kom mér til að segja hér nokkur orð, er, að ég tel nokkra galla á frv. eins og það liggur fyrir, sem ég vildi vekja máls á, áður en frv. fer í n. Það var aðallega tvennt, sem ég vildi í því sambandi hafa orð á. Annað er það, að hér er gert ráð fyrir, að lögfest verði, á hvaða stöðum húsmæðraskólar verði reistir á landinn. Ég hefði talið hentugra, að þeir staðir hefðu ekki verið tilteknir í l. og ekki ákvarðaðir á annan hátt en þann, að til hefði þar verið tekið, að þetta eða þetta margir húsmæðraskólar skyldu reistir í þetta eða þetta stóru byggðarlagi og síðan hefðu verið fundnir út hentugir staðir fyrir þá, eða eitthvað svipað þessu verið lögfest. en ekki lögfestir vissir tilteknir staðir fyrir skólana eins og gert er í frv. En þó að deila megi um það, hvar hentugast hefði verið að hafa húsmæðraskólana, þá er það afsökun fyrir hönd þeirra, sem flytja þetta frv., fyrir því að tiltaka staðina, að húsmæðrafræðsla er þegar til og frá byrjuð, að þess vegna er ekki annað að gera en að fullkomna þann visir, sem fyrir er, á hinum ýmsu stöðum.

Eins og hv. frsm. tók fram, er mikill áhugi fyrir fræðslumálum kvenna m. a. austur í sveitum og að húsmæðraskóli verði reistur á Laugarvatni. Ef sá skóli ætti að vera fyrir Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur, þá væri honum komið fyrir nokkuð úti á jaðri þess svæðis með því að hafa hann á Laugarvatni. En þar kemur líka mjög til athugunar, hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi nú þegar til skólahalds, þar sem eru miklar skólabyggingar o. fl. Virðist að því leyti eðlilegt, að húsmæðraskóla væri ætlað að vera þar. Ég mæli alls ekki á móti þessum stað fyrir húsmæðraskólasetur, en það, sem ég hefi sagt, segi ég til athugunar fyrir hv. n., sem fær málið til meðferðar. Þar sem byrjað er á húsmæðrafræðslu á öðrum stöðum, þá verður nokkuð mikið handahóf á því, hvað hver landshluti verður mikillar slíkrar fræðslu aðnjótandi. Hitt atriðið, og það, sem aðallega vakir fyrir mér að benda á í sambandi við þetta frv., er að mér virðist ekki nógu vel tekið fram í frv., hvernig hagað skuli til um fjárreiður húsmæðraskólanna. Teldi ég vel farið, ef nokkur leið væri til þess að fá þessu betur fyrir komið, ef hv. n. athugaði, hvort ekki væri hægt að fá meiri festu í ákvæði frv. að því er þetta snertir heldur en nú er í því, Þeir eiga, þessir skólar. eftir frv. að vera sjálfseignarstofnanir. Gott og vei. Og ríkið á að leggja þeim svo og svo mikinn styrk til rekstrar. Það er og gott og blessað, því að miðað við, að hér sé um menningarstarfsemi að ræða, þá verður líka að sýna viðurkenningu þess í verki, og er ekki um það annað að segja en gott. En það er framlagið annarsstaðar að en frá ríkissjóði, sem ég vildi, að ákveðið væri nánar um í frv. Austanfjalls stendur svo á, að í Árnessýslu hefir verið lofað framlagi til húsmæðraskóla, sem reistur yrði þar. En eins og hv. flm. lýsti yfir, hafa Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla enn ekki lofað slíku framlagi. En ef þarna er miðað við sameiginlega nauðsyn æskukvenna í þessum sýslum t. d., þá álit ég, að málið, að því er þessar sýslur snertir, og þá hliðstætt annarsstaðar, megi sem minnst vera komið undir stundargeðþekkni eða duttlungum hinna ýmsu sýslunefnda í landinu um fjárframlög. Ég tel, að heldur eigi að taka málið föstum tökum sem menningarmál, sem allir landsmenn eigi að vera skattþegnar gagnvart. Ef hægt væri að koma því inn í frv. að lögfesta meira um þessi atriði málsins en þar er gert, þá álít ég, að það væri sanngjarnt að öllu leyti. Það hefir verið sagt hér, að þessi húsmæðrafræðslumál ættu að fá framgang svipað og á sér stað um bændafræðsluna. Er því að þetta svið fræðslumálanna, húsmæðrafræðslan, er tekin hliðstætt bændafræðslunni og viðurkennt, að þau tvö svið eigi að teljast hafa nokkurnveginn jafnan rétt á sér, þá hygg ég, að réttast væri að sníða húsmæðrafræðslunni sem allra svipaðastan stakk og bændafræðslunni. Þetta vil ég leggja megináherzlu á með þessum orðum mínum nú.