28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Bjarni Ásgeirsson:

Það var út af nokkrum orðum, sem féllu hjá hv. 1. flm. þessa frv., sem ég vildi gera aths., þar sem hann talaði um, að frv. um húsmæðrafræðslu, nær eins og þetta, hefði mætt litlum velvilja og áhuga hjá landbn. Hv. 1. flm. sagði þetta ekki fyrir hönd allra flm., a. m. k. ekki fyrir minn munn. Ég verð að segja það, að landbn. sýndi þessu frv. á síðasta þingi yfirleitt mikinn velvilja og skilning, og hún var búin að taka það til meðferðar og gera við frv. þær höfuðbreyt., sem hún ætlaði að gera við það. Það var ekki fyrir það, að n. sem slík hefði ekki áhuga fyrir málinn, að það komst ekki fram á síðasta þingi, heldur af allt öðrum ástæðum, sem hv. þm. (BjB) eru kunnar. Það þarf ekki að sýna neina andúð nefndar, sem fjallar um eitthvert frv., þó að mál komist ekki fram á fyrsta þinginu, sem það er borið fram á. Frv. um bændaskóla t. d., sem afgr. var sem l. á síðasta þingi, hafði legið fyrir Alþingi áður og þá fengið þar þá meðferð, sem unnt var, án þess að hægt væri að koma því í gegn. Sá dráttur á samþykkt þess frv. var ekki fyrir illvilja.

En ef annari n. væri betur trúað fyrir þessu máli en landbn., þá hefi ég ekki á móti því að vísa frv. til annarar n. en landbn.