14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir farið allýtarlega gegnum þetta frv., eins og getur um í nál., og gert við það nokkuð margar brtt., og n. öll unnið saman að þeim. Hinsvegar skal ég geta þess, að þegar málið var endanlega afgr. frá n., voru fjarverandi tveir nm., hv. 7. landsk. og hv. þm. Borgf., og get ég ekki sagt til fulls, hve óskorað fylgi þeirra er við þetta frv.

Eins og hv. þm. munu sjá, er meginhluti brtt. ekki annað en það að færa efni frv. til betra máls. Ætla ég ekki að fara nákvæmlega út í þær hverjar fyrir sig, en þó geta þess, að 5. brtt. er nokkur efnisbreyt., þar sem lagt er til að færa lágmark aldurs þeirra kvenna, er sækja þessa skóla, úr 16 árum í 18 ár. Við álítum, að ekki sé vert, að að jafnaði sæki þessa skóla yngri konur en 18 ára, þar sem þær flestar munu vera þar einn vetur og eiga í mörgum kringumstæðum að láta sér nægja þá fræðslu, sem þær fá í þessum skólum. Hinsvegar er ákvæði í sömu grein um það, að skólanefnd sé heimilt að gera undanþágu frá þessu, eða forstöðukonu í sambandi við skólaráð, þegar sérstaklega stendur á. Álítum við nóg, að slík heimild sé til, þó að hitt sé aðalreglan.

Þá er önnur smávægileg efnishreyt., að í stað þess, að í frv. er lagt til, að skólaráð skipi 3 menn, þá leggjum við til, að það verði skipað 5 mönnum. Þetta er meðfram vegna þess, að sumir skólar, sem nú eru til, munu falla undir þessi lög, en hafa nú 5 manna skólaráð samkv. sínum lögum og reglugerðum. Sjáum við ekki ástæðu fyrir löggjafann að grípa inn í til að breyta þessu. Enda teljum við að ýmsu leyti heppilegra að skólaráð sé skipað 5 mönnum heldur en 3.

Þá leggjum við til, að 9. gr. falli niður og greinatalan breytist samkv. því. En það er vegna þess, að við tókum efni 9. gr. inn í 8. gr. Efni. 9. gr. var um helztu störf skólaráðs og hljóðar svo: Skólaráðið ræður forstöðukonu skólans og kennara, í samráði við hana, og hefir að öðru leyti alla yfirstjórn skólans. Með þessu finnst okkur í fáum orðum sagt nægilegt um störf skólaráðs og þurfi ekki um það sérstaka grein. Hinsvegar breytum við því þannig, að við látum skólaráð ráða kennara í samráði við forstöðukonu, sem ekki er í frv. Við teljum nauðsynlegt, að forstöðukona hafi eitthvað um þetta að segja, hvernig kennarar eru ráðnir að skólanum, þar sem hennar hlutverk er að starfa með þeim og stjórna þeim.

Þá er 9. breyt. um það, að ef skóli hefir færri en 10 nemendur, eigi hann enga kröfu á styrk. Við teljum ekki rétt að halda uppi skóla ár eftir ár, sem ekki er meiri aðsókn að en svo, að hann getur ekki náð saman 10 nemendum, og teljum réttara. að starfið falli niður það ár og stúlkurnar fari annarsstaðar í skóla.

þá breytum við ákvæði 12. gr., sem er um það, að nemendur greiði ekkert skólagjald. Við leggjum til, að þetta verði þannig, að heimilt sé að taka skólagjald, þó ekki hærra en 50 kr. á nemanda yfir skólatímann. Skólagjald er nú 60–100 kr. um skólaárið, og því tvöfalt, þegar stúlkur eru tvö ár. Það þykir okkur of mikið. Hinsvegar teljum við ekki ástæðu til að fella alveg niður heimild til að taka skólagjald, þó að skólagjald sé ekki greitt á bændaskólunum. Fyrst og fremst er þess að gæta, að þessir húsmæðraskólar er gert ráð fyrir að verði — og hafa verið víðast hvar — eins vetrar nám. En aftur á móti er á bændaskólum tveggja vetra nám. Að öðru leyti má geta þess, að á bændaskólum eru nemendur skyldir til að starfa nokkuð langan tíma að verklegu fyrir skólabúin fyrir mjög litið eða ekkert gjald annað en nauðsynjar sínar á meðan, og teljum við, að það geti komið til jafns við þetta skólagjald á húsmæðraskólunum. Aftur á móti er einhver nemandi er þarna tvö skólaár, ber honum ekki að greiða gjald nema 50 kr., sem svarar því, að stúlkur séu gjaldfríar síðara árið. Og það, sem ennfremur styrkir það að heimila skólagjaldið áfram, er það, að þrátt fyrir hækkaðan styrk, sem yrði til skólans, ef frv. yrði að l., þá munu þeir, sérstaklega þeir yngri, vera fullhertir með að bjarga sér fjárhagslega, ef þeir hafa ekki heimild til að taka nein skólagjöld. Öll þessi rök hníga að því að heimila þetta litla skólagjald, og stóð nefndin saman um það.

Um síðasta kafla skal ég endurtaka það, sem getur um í nál., að nefndin hefir ekki til fulls tekið afstöðu til hans, en ber þó fram brtt. við upphaf 14. gr. Í frv. stendur, að stofna skuli húsmæðrakennaraskóla o.s.frv. Við leggjum til að orða þetta þannig: „Heimilt er að stofna húsmæðrakennaraskóla“ o. s. frv.

Ég held Ég hafi þá skýrt frá öllum efnisbreyt. frv. og legg það fyrir hv. deild með þessum formála.