14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Eiríkur Einarsson:

Ég skal ekki lengja umr., en láta þó skoðun mína í ljós um fáein atriði frv. Þegar ég leit á brtt. hv. landbn., hafði ég búizt við, að þær væru öðruvísi en raun er á. Mér finnst hv. n. gera of mikið úr ýmsum smávægilegum atriðum, sem vafi er á, hvort betri eru í brtt. en í frv. Hinsvegar gerir hv. n. of lítið að því að lesa frv. ofan í kjölinn og láta þann lestur verða til þess, að breytingar yrðu gerðar á grundvallaratriðum þessa lagafrv., sem fyrir hendi eru.

Við 1. umr. minntist ég á, að frv. væri í ýmsu ábótavant. Ég á sérstaklega við þann hlutann. þar sem talað er um stj. og starfssvið væntanlegs húsmæðraskóla. Um það eru of reikandi ákvæði í frv. Það er vitanlegt, að öllum skólaráðum er fengið mikið húsbændavald, en þau eru hinsvegar svo skipuð, að hvenær sem er geta risið upp deilur um það, hverjir séu hinir réttu aðiljar til að mynda ráðin. Í frv. segir, að landbrh. tilnefni formann skólaráðs, en að hinir tveir meðlimir ráðsins skuli tilnefndir af þeim aðiljum, sem að dómi landbrh. teljist stofnendur skólans. Þegar þess er gætt, að hér er um að ræða skóla í strjálbýlum byggðarlögum, er takmarkalína þessi mjög af handahófi sett. Ég hefði viljað, að þetta væri nánar ákveðið Mætti ákveða sérstakt umdæmi fyrir hvern skóla, ef til vill 2–3 sýslur, og skyldu svo þær vera réttir aðiljar til að ákveða skólaráð.

Það hefir verið játað hér af mörgum, að þörfin á húsmæðra- og bændafræðslu sé nokkuð samsvarandi. Og ef það er rétt, sem ég fellst að fullu á, þá er Alþingi búið að játast undir, að sambærilegar reglur eigi að gilda um hvorttveggja.

Þetta er ekki af því sagt, að ég treystist til að bera fram brtt. um svo veruleg efni, sem ég hefi fært í tal. Hafa mörg orð verið höfð um þetta atriði, og hefir hv. landbn. fjallað um frv., og er svo mikið áhrifavald í störfum hv. n., að ekki mundi stoða fyrir mig að bera þetta mál fram að nýju. En þessir anumarkar eru fyrir hendi, og þarf síðar að lagfæra þá, sé það ekki gert nú.

Viðvíkjandi 7. gr. og brtt., sem komið hefir fram við hana, vil ég taka það fram, að ég álit ekki rétt að ákveða alveg, hverjar námsgreinarnar skuli vera, sérstaklega þær bóklegu. Það getur staðið svo á, að stúlkur, sem vilja fara á húsmæðraskóla, hafi aflað sér í öðrum skólum eða heimahúsum þeirrar bóklegrar fræðslu, sem skólinn veitir. Ætti að gera ráð fyrir þessum möguleika í frv.

Þá vil ég spyrja, við hvað hv. landbn. á með orðinu „hannyrðir“. Á að leggja sama skilning í það og orðið „handavinna“ í 7. gr. frv.? Almenningur meinar yfirleitt ekki það sama með þessum orðum því að handavinna er víðtækara orð. Hv. n. hefir því þrengt þetta. — Þá sakna ég ákvæða um það, að stúlkunum skuli kennd undirstöðuatriði í fatasaum. Það tel ég eitt af því nauðsynlegasta. En ef það á að felast í orðinu hannyrðir, er ég ánægður, en það er þá ný merking.

Þrátt fyrir það, að ég finn ýmsa galla á frv., hlýt ég að greiða atkv. með því, þar sem grundvöllur þess er tvímælalaust góður.