14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég tek undir það, sem hér hefir verið sagt, að sjálfsagt er að mæla með því, að gera ráðstafanir til þess, að húsmæðraefni geti notið fyllri menntunar í grein sinni en verið hefir. En ég get ekki neitað, að mér finnst talsvert á það skorta, að hv. flm. geri sér grein fyrir því, hver er verkahringur húsmæðra hér á landi. Þeir virðast ekki gera sér ljóst, að þörf sé húsmæðrafræðslu fyrir aðrar konur en þær, sem veita ætla forstöðu heimili í sveit. En starfshringur húsmæðra er mjög svipaður, hvort sem er í sveit eða kaupstað. Aftur er verkahringur húsbænda miklu frábrugðnari í sveit frá því, sem er í kaupstað.

Hér hefir verið á tveim þingum á undan þessu þingi flutt frv. um húsmæðraskóla í Reykjavík og kennaraskóla fyrir húsmæðrakennara. Að flutt er sérstakt frv. um húsmæðraskóla í Reykjavík, stafar af því, að húsmæðraskólum hefir verið komið upp víðsvegar um landið utan Reykjavíkur, en í Rvík er enginn húsmæðraskóli. Auk þess hafa þau frv. haft inni að halda ákvæði um skóla til að útskrifa kennara fyrir húsmæðraskólana.

Nú stendur svo á, að frv. um húsmæðraskóla og húsm.kennaraskóla í Rvík, er samið og flutt fyrir kvenfélagasamband Íslands. Verður nú að telja eðlilegt, að kvenfélagasambandið hafi gleggri skilning á menntunarþörf húsmæðra en jafnvel svo mætur maður sem landbrh., er fær þetta frv. flutt hér. Ég skal lýsa yfir því, að ég er að sjálfsögðu með hverju því frv., sem hnígur í þá átt að gefa húsmæðrum kost á sem beztu sérnámi. Hinsvegar fyndist mér viðkunnanlegra, að hér væru ekki til lengdar á ferð tvö frv. um sama efni, sitt í hvorri n., heldur tækist þingið á hendur að gera heildar lagasetningu um húsmæðrafræðslu. Ef hv. þm. hugleiða, hversu mikilsvert það er fyrir þjóðfélagið, að húsmæður séu sem bezt menntaðar í sinni grein, þá þykist ég vita, að þeir muni hverfa frá allri hreppapólitík í þessu máli. Þó að karlmenn fari með og sjái um mikil verðmæti, þó að öflun fjárins sé að mestu í þeirra höndum, þá er þó meðferð mikilla verðmæta í höndum húsfreyjunnar. Allt það, sem þjóðin hefir til matar sér og klæðnaðar, er í hennar höndum, og eins öll stjórn á heimilum og uppeldi hinnar yngri kynslóðar.

Ég fer hér ekki frekar út í uppeldismálin og hin „ökónómisku“ mál. En ég legg áherzlu á það, að hv. þm. séu ekki að þola hver fyrir sig með kákaðgerðir í þessu máli, heldur sameinist um að setja ein l., sem gildi jafnt um húsmæðrafræðslu í sveit og kaupstað.