14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er ekki margt, sem okkur ber á milli, hv. 2. þm. Árn. og mér. Ég er honum sammála um, að það er ekki einungis gott, heldur nauðsynlegt, að sveitakonur læri að mjólka kýr og fara með mjólk, og ég stakk upp á því í hv. n., að bæta skyldi inn i, að mjöltun og meðferð mjólkur skyldi kennd, en meðnefndarmenn mínir álitu, að allar stúlkur, sem kæmu í skólana, mundu kunna að mjólka, en mér finnst það ekkert koma við hirðingu húsdýra. Það er allt annað hugtak. Það er ekki kallað, að sú hirði kýrnar, sem mjólkar þær, en það er rétt, að konur varðar mikið um, hvernig kýrnar eru hirtar og hvernig hinar ýmsu greinar búskaparins ganga, en það er ekki til þess ætlazt, að farið verði að kenna stúlkum á húsmæðraskólum allt það, sem viðkemur búskapnum utanhúss, þótt konuna varði mikið um, hvernig sá hluti búskaparins gengur, eins og manninn varðar mikið um, hvað fram fer innanhúss, þá er þó ekki sett í reglugerð bændaskólanna, að bændaefnin skuli t. d. læra matreiðslu. En frekar en það væri sett í lög um bændaskóla sé ég ekki ástæðu til, að setja ætti utanhússstörf í lög um húsmæðraskóla. í bændaskólum veit ég ekki betur en að nemendurnir séu látnir læra að bera á borð, þvo upp, skúra gólf og búa um rúm; eins geri ég ráð fyrir að stúlkurnar myndu fylgjast með því, sem gerist utanhúss, og sjá, hvað betur má fara, en ég sé ekki ástæðu til að setja þetta sem námsgrein á þeim stutta tíma, sem þær eiga að hafa til sérmenntunar í sinni starfsgrein.

Ég er hv. þm. samdóma um, að nauðsynlegt er fyrir konur að fylgjast sem bezt með öllu því, er viðkemur meðferð barna frá því fyrsta til hins síðasta, en ég hygg, að þeirri uppfræðslu mætti koma fyrir í kennslustundum í sálfræði og uppeldisfræði, og er þetta því mest ágreiningur um orðalag, en ekki efnisbreyting, sem okkur ber á milli. — Skal ég svo láta máli mínu lokið.