06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Ég skal ekki fara langt út í að ræða fjárl. í heild eða till. fjvn., enda virðist það ekki hafa næsta mikla þýðingu, þar sem svo sárafáir þm. eru við þessar umræður. Það er ágreiningur, eins og gengur og gerist, um einstaka liði innan n., og mun ég og aðrir nm. sýna við atkvgr., hvernig því er varið. Ég vil þó minnast á nokkuð stórar brtt., sem n. flytur við 22. gr. og ég er ósamþykkur. Það er fyrst að ég tel mjög hæpið að gefa eftir greiðslur dýrtíðarlána, sem eru upp undir 40 þús. kr., eins og heimilt er á brtt. 129, og í n. var ég því andvígur. Sama er að segja um næstsíðustu till., um það að verja 30 þús. kr. af tekjum áfengisverzlunarinnar, — sem er það sama og að leggja fram úr ríkissjóði — til sjómannaheimilis á Siglufirði. Það er ekki svo að skilja, að ekki geti verið gott og nauðsynlegt mál að byggja slíkt heimili; en eins og sakir standa fannst mér það mundi geta beðið. Viðvíkjandi síðustu till. vil ég segja það, að ég var því samþ. og er, að gefin sé heimild til að selja strandferðaskipið Esju. vegna þess að fyrirsjáaulegt er, að ekki verði hjá stórum rekstrarhalla komizt. Til þess að koma í veg fyrir eins stórkostlegan halla og verið hefir, væri ef til til vill leið að stækka skipið og leggja mikið fé í að breyta því. Hinsvegar vil ég ekki gefa jafnframt heimild til að kaupa nýtt skip að svo stöddu. Ég býst við, að nægja mundi að ganga frá því máli á næsta þingi.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í þessar tili., og ekki heldur aðrar, sem fyrir liggja frá einstökum þm. En rétt með örfáum orðum vil ég minnast á brtt., sem ég flyt persónulega og hefi flutt nokkrum sinnum áður, till. sem hv. i. þm. Reykv. minntist á, að skáldastyrkur til Halldórs Laxness yrði felldur niður, en til vara. að hann verði færður í 2 þús. kr. Eins og ég hefi oft lýst hér áður á Alþingi, þá tel ég það út af fyrir sig ekkert annað en fjárhagsatriði, þótt inn á fjárlög komi hinir og þessir menn með listamannastyrk, en séu ekki styrksins verðir að því leyti, að þeir hafi ekki unnið þau afrek, sem til þess ætti að vera krafizt. En hitt er miklu verra, að verið sé að borga upphæðir af ríkisfé til manna, sem eru eins og þessi tiltekni rithöfundur, að þeir vinna verk, sem eru þjóðinni bæði til skammar og líka til skaða. Því að ég lít svo á, að þær bækur, sem þessi höfundur hefir eftir sig látið, séu margar þannig vaxnar, að þær gefi lýsingar af íslenzku þjóðinni, sem séu í fullkomnu ósamræmi við það, sem gerist, og í mörgum tilfellum lýsi þjóðinni eins og sé hún fullkomnir skrælingjar. Þetta hefir komið einna ógeðslegast við, að því er snertir íslenzkt sveitafólk, sem í bókum þessa höfundar er lýst yfirleitt sem heimsku, menntunarsnauðu, skítugu og lúsugu. Að senda slíkan óþverra út fyrir landssteinana og þýða á erlend mál tel ég svo hættulegan hlut, að ég teldi betur varið fé ríkisins til að koma í veg fyrir slíkt heldur en að verðlauna slíkan skáldskap með hæstu skáldlaunum. Frá þessu sjónarmiði er það, að ég er ekkert hikandi í því að leggja það til, að laun til þessa höfundar séu felld niður. Þar að auki er þess náttúrlega að geta, sem allir hv. alþm. vita, að þessar þýðingar viðkomandi höfundar hafa verið seldar og seljast mjög mikið út um lönd. Í Danmörku ekki sízt þykir það nú kannske gómsætur matur að fá slíkar lýsingar af Íslandi. Það má því ætla, að þessum manni áskotnist allmikið fé á þennan hátt, og eru því engar líkur til, að af fjárhagslegum ástæðum þurfi að veita honum alþingisstyrk, hvað sem öðru liður. Annars er þetta nokkurnveginn kunnugt mál frá umr. á undanförnum þingum, og fer ég því ekki fleiri orðum um það nú. Ég mun ekki frekar en áður láta það hafa nein áhrif á mig, þótt ýmsir menn hér á Alþingi séu svo lítilsigldir, að þeir telja sæmilegt af þinginu að verðlauna þvílíkt bull eins og margt af þessum ritum er.