23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Mér virðist, hó að þetta frv. hafi fengið sæmilegan undirbúning, að það sé ekki að ófyrirsynju, að æskilegt hefir verið talið, að það yrði tekið til yfirvegunar á ný. Nú vil ég að vísu ekki gera það að till. minni, að hv. landbn. fái málið aftur til athugunar í þessari hv. d. En mér virðist málið vera svo mikilvægt, að hv. þm. ættu að geta verið sammála um, að það ætti að koma ljóst fram, hver tilgangurinn sé og hve víðtækur hann skuli vera, ekki sízt þar sem ekki verður með nokkru móti sagt, að málið sé pólitískt. Nú var svo ákveðið í 1. gr. frv., að landbrh. skyldi hafa yfirstj. allrar húsmæðrafræðslu í landinu. Þetta var ekki bundið við sveitirnar einar. Hefir nú þessu verið breytt í frv. í rétta átt. Það er að vísu oft keppikefli, að ákveðinn ráðh. skuli gleypa svo og svo mikið af málum, en það var þó um of, að landbrh. skyldi hafa yfirstj. allrar húsmæðrafræðslu í landinn. Þetta hefir þó ekki verið lagfært nægilega. Þegar litið er á, hvað það er, sem hér á að kenna, kemur í ljós, hversu lítill eðlismunur er á þeirri fræðslu húsmæðra, sem víð á í sveitum og kaupstöðum. Samkv. þskj. 112 eiga námsgreinarnar að vera þessar: Íslenzka, reikningur, bókfærsla, matarefnafræði, heilsufræði, uppeldisfræði, sönguríþróttir, hússtjórn, matreiðsla, þvottur, ræsting og handavinna. Nú spyr ég hv. þdm., hvort þessar námsgreinar séu ekki jafnnauðsynlegar fyrir húsmæður í kaupstöðum og í sveitum. Ég fullyrði það. — síðan er bætt við, að ennfremur skuli leiðbeina nokkuð í garðrækt og húsdýrarækt. Menn héldu almennt, að hér væri aðallega átt við alifuglarækt, og þar sem skrifl. brtt. ákvað, að þetta skyldi gerast eftir því, sem við yrði komið, þá er auðséð, að ákvæðið gildir ekki síður um kaupstaðina en sveitirnar. En fyrst svo er, þá verður það lítt skiljanlegt, hvers vegna á að einskorða þessa löggjöf við sveitirnar. Enn er það svo hér á landi, og verður vonandi framvegis, að lítill munur er á því, sem húsmæður þurfa að vita og vinna í sveitum og kaupstöðum. Hefði það því verið í samræmi við okkar þjóðfélagsháttu að hafa frv. sem víðtækast.

Þá er fyrirsögn I. kafla, sem takmarkar þetta algerlega við sveitirnar. En ef það er raunverulega tilgangur hv. flm. og landbn., þá fer að verða nokkur ástæða til að taka undir þær raddir, sem fram hafa komið frá öðrum, um að stofna sérstaka skóla í kaupstöðum, og fallast þá jafnframt á till. hv. þm. Ísaf., að útiloka húsmæðraefni frá kaupstöðum og kauptúnum frá að geta komizt að á sveitaskólunum, nema þær ætli sér að ganga þann veg, sem í frv. er ráð fyrir gert, þó að vart sé hægt að krefjast þess af þeim ungu stúlkum, sem á þessa skóla fara 16 ára gamlar eða þar um bil, að þær séu eða geti verið ráðnar í því, hvar þær ætli að setjast að sem húsmæður. Gæti vel farið svo, að meiri hluti þeirra stúlkna, sem þarna yrðu rígskorðaðar sem sveitastúlkur, yrðu síðar meir húsmæður í kaupstöðum. En hvaða meining er þá í þessu frv.?

Eðli málsins krefst þess vitanlega, að þessi lagasetning, sem hér er um að ræða, sé miðuð við almenna húsmæðraskóla. En þá væri líka fráleitt að ákveða, að þeir skyldu heyra undir landbrh. En það er nú orðin tízka, eins og kunnugt er, að ef nefndur er bóndi eða gras eða jörð, þá vilji landbrh. gína yfir því öllu, sem þar við kemur. En slík almenn fræðsla yrði vitanlega að hlíta sömu reglum sem önnur skólafræðsla í þessu landi, en ekki þeim reglum, sem gilda um bændaskóla og slíkt, er einungis viðkemur landbúnaðinum.

Þegar talað er um kaupstaðaskóla, þá koma auðvitað ekki aðelns sjálfir kaupstaðirnir til greina, heldur einnig kauptúnin, því að í kaupstöðum og kauptúnum ríkir sama hússtjórnarfyrirkomulag að mestu leyti. Ef aðskilja ætti sveitir og kaupstaði, eins og tilgangurinn virðist vera með frv., yrði óhjákvæmilegt að taka fullt tillit til kauptúnanna, og kæmi þá til greina að ákveða, hver íbúatala kauptúns mætti vera mest, svo að það gæti enn talizt til sveita.

Ég hefði talið það æskilegt, að aðiljar hefðu viljað taka málið aftur til rækilegri undirbúnings. Þó læt ég mig þetta ekki miklu skipta. Ef til vill er hv. Ed. þess um komin að taka betur á málinu eða fresta því, þar sem engin nauðsyn ber til að flýta því um hóf fram.