23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Út af þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, sérstaklega í sambandi við brtt. á þskj. 112, fann hv. þm. Mýr. köllun hjá sér til að andæfa því, og lagði hann meira í orð mín en hann hafði leyfi til. Ég er enginn till.-maður hér og fór ekki út fyrir það svið að mæla með brtt., og þarf hv. þm. ekki að hafa orð um, að ég vilji þenja út tölu námsgreinanna á þessum takmarkaða skólatíma, þar sem ég var að mæla með annara till. Það er vel farið, að þessi hv. þm. sjái að sér, en ég sé á frv. sjálfu, að hann er 2. flm. þess, og í 7. gr. frv. er talað um garðrækt og hirðingu húsdýra. Þar er komið næstum það sama og í brtt., en hv. n. breytti því í alifuglarækt, og það er vissulega að hirða húsdýr, þótt það nái ekki til allra húsdýra, enda mætti gera ráð fyrir, að til að læra það færi mjög mikill tími. En í brtt. er aðeins farið fram á, að í kennslunni verði innifaldar leiðbeiningar um garðrækt og húsdýrahirðingu, og vildi ég benda á, að annað er það ekki, sem fyrir mér vakir.