23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Pétur Ottesen:

Mitt erindi með því að standa upp er ekki annað en það, að vara hv. þm. við því að láta þann anda, sem hv. 1. þm. Rang. hefir verið að reyna að koma inn í þetta mál með því að draga inn í það óskylt efni, hafa nokkur áhrif á afstöðu sína um að koma þessu máli áfram. Hann hefir reynt að stofna til sundrungar um þetta mál, en þar verður happadrjúgast sem annarsstaðar, að samvinna og samtök séu um að hrinda því áfram. En þessa sundrunarstarfsemi verðum við að láta hv. þm. einan um.

Ég þarf ekki að tala um þau rök, sem hv. þm. var að seilast til um það, að nú þegar ætti að slá föstum þeim stað, sem húsmæðrafræðsluskóli þessi ætti að standa á. Það er svo auðséð, að heppilegra er að láta það standa opið í þessum l., hvar hann verður reistur, svo haga megi því eftir því, hvar horfurnar virðast beztar á þeim tíma, sem byggja á hann. Enda hefir hv. þm. engar undirtektir fengið með þetta, ekki einu sinni hjá hv. 2. þm. Arn., sem þó hefði verið eðlilegt, að vildi halda þessu að þeim skólastað, sem hann hefir helgað krafta sína og tekið ástfóstri við. Ég veit, að fullkomlega má treysta þeim mönnum, sem verða á Alþ. og í ríkisstj. á þeim tíma, sem þetta kemur til framkvæmdar, til að velja þann stað, sem heppilegastur verður.