23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil algerlega neita því, að við hv. þm. Borgf. séum að koma nokkurri togstreitu inn í þetta mál. Hefði það verið ætlun okkar, þá hefðum við sennilega borið fram brtt. um, að skólinn yrði reistur í Reykholti. En hitt er annað mál, að við álítum langtum eðlilegra, að ekki verði nú þegar farið að binda það með l., hvar skólinn skuli vera. Það er enn nægur tími til þess. Ef t. d. Laugarvatn reynist heppilegri staðurinn, þá munu kostir þess vera eins auðsæir á þeim tíma, og þá er auðvitað sjálfsagt, að skólinn verði þar. Um það mun ekki verða nein óánægja, en komi togstreita í þetta mál, þá mun hún orsakast af því, að hv. 1. þm. Rang. heldur áfram að flytja þetta mál á sama hátt og hann hefir gert hingað til.