25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Jónas Jónsson):

N. hefir að mestu orðið sammála um þetta mál. Einn nm. hefir þó flutt eina litla brtt., sem ég mun minnast á síðar. Málið hefir verið nokkuð rækilega undirbúið af hæstv. stj. En fyrir menntmn. hér í d. lá líka frv. um húsmæðrafræðslu í Reykjavík og húsmæðrakennaraskóla fyrir allt landið, og var til þess ætlazt, að báðir þessir skólar yrðu undir sama þaki.

Nú var nokkuð ólíkt ástatt um þessi tvö frv. Frv. stj., sem kom frá Nd., var mjög rækilega undirbúið og ýtarlegt, og var í því séð fyrir öllum sjáanlegum þörfum sveitanna. En frv. um húsmæðrafræðslu í Reykjavík getur verið sæmilega fullkomið fyrir Reykjavík, enda þótt þar væri ekki séð fyrir þörfum kaupstaðanna. Nú hefir hv. Nd. ekki viljað undirstrika, að þetta frv. ætti að vera fyrir allt landið, því að þegar það kom þaðan, var það orðið sem frv. til l. um húsmæðrafræðslu í sveitum. Niðurstaðan hjá meiri hl. n. varð því sú, að afgr. frv. óbreytt, en flytja svo þáltill. hér í d. um að skora á ríkisstj. að semja allsherjar frv. fyrir kaupstaðina.

Að því er snertir undirbúning málsins, vil ég skýra frá því, að í fyrravetur fékk ung kennslukona, sem hafði lokið námi við helzta húsmæðrakennaraskóla í Noregi, nokkurn styrk hér heima til að ferðast milli flestra meiri háttar húsmæðraskóla á Norðurlöndum. Gaf hún síðan skýrslu um ferðalag sitt. Eftir það fékk stj. Benedikt Blöndal kennara á Eiðum til að semja frv. til l. um húsmæðrafræðslu. Var það lagt fyrir Alþingi í fyrra, en náði ekki samþykki.

Aðalgrundvöllur, er Benedikt Blöndal byggði á, var reynslan, er fengizt hefir hér heima. Var tekið það ráð að ákveða skólunum fasta styrkupphæð fyrir hverja námsmey, en tryggja þeim þó ákveðinn lágmarksstyrk, þó að aðsóknin yrði óvenjulega lítil ár og ár. Hefir verið gætt sæmilegs hófs í þessu. Af skýrslum þeim, er hér fylgja með, sést, að sumir aðrir skólar eru ríkinu dýrari. En þessir skólar eru ólíkir bændaskólunum, sem að mestu eru kostaðir af héruðunum.

Þar sem hinsvegar eru allar líkur til, að húsmæðrafræðslan nái til meiri fjölda en búnaðarfræðslan, þar sem húsmæðraskólarnir eru þegar fleiri og hver um sig ódýrari en bændaskólarnir, þá geri ég ráð fyrir, að það sé álit manna, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að þeir verði reknir á viðunandi hátt með minni styrk en hér er farið fram á, enda er það byggt á langri reynslu. Undanfarið hefir ríkt allmikið misrétti í skiptingu styrksins milli húsmæðraskólanna. Má í því samhandi benda á það, að Blönduósskólinn fékk miklu meiri styrk en aðrir sambærilegir skólar, og var látið sitja við það meðan Blönduósskólinn var svo að segja einn um hituna, en nú er stillt svo til, að allir eru settir við sama borð og mega vel við una.

Af þeim skólum, sem hér eru nefndir, eru nokkrir þegar komnir á alveg fastan fót, svo sem skólarnir á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu, á Laugalandi í Eyjafjarðarsýslu, á Blönduósi og ekki sízt skólinn á Hallormsstað í Suður-Múlasýslu. Þessir skólar eru allir eign sýslu- eða hreppsfélaga. Aftur á móti er einn skóli, sem rekinn hefir verið sem einkafyrirtæki; það er skólinn á Staðarfelli í Dalasýslu. Tveir skólar eru óbyggðir; en gert ráð fyrir, að þeir verði byggðir við héraðsskólana á Laugarvatni í Árnessýslu og í Reykholti í Borgarfjarðarsýslu.

Ég ætla að minnast lítilsháttar á skólana á Staðarfelli og Laugarvatni. Annar þeirra hefir þegar starfað um nokkur ár. Í Árnessýslu er þegar hafin nokkur fjársöfnun til skólastofnunar á Laugarvatni, og er þar með búið að sýna vilja héraðsbúa í því efni. Borgfirðingar virðast aftur á móti ætla að verða á undan öllum öðrum með að koma upp mikilli vinnukennslu við héraðsskólann í Reykholti, bæði fyrir karla og konur, og munu því varla takast á hendur önnur stórverkefni fyrst um sinn.

Á Staðarfelli hefir skólinn húsrúm fyrir 26 stúlkur og hefir því næstum því eins mikla möguleika og stærsti skólinn, sá á Blönduósi. Hann hefir hinsvegar um nokkur undanfarin ár lifað eingöngu á Herdísarstyrknum, eða eignum sínum, og hefir því átt við þröngan kost að búa. Þegar til kom var húsið á Staðarfelli, sem var á jörðinni þegar ríkið keypti hana, ekki nógu stórt, og varð að byggja við það fyrir peninga sjóðsins. Við það minnkaði hann svo mikið, að hann hefir varla getað staðið undir rekstri skólans. Þetta hefir hæstv. stjórn viðurkennt og að ekki væri gerlegt að láta þar við sitja og hefir því sett í fjárlög þessa árs 3 þús. kr. styrk til skólans, svo að hann standi svipað að vígi og hinir skólarnir. Ætti því skólinn að geta tekið til starfa af fullum krafti á næsta hausti vegna þessara ráðstafana Alþingis, jafnvel þótt þetta frv. nái ekki fram að ganga, því skólinn hefir mikinn stuðning af þessu framlagi, sem sett hefir verið í fjárl.

Þá kem ég að því atriði, sem hv. nm. gerði að ágreiningsatriði, eða vildi gera viðbótartill. við. Það var um það, hvort kennslukvennaskóli fyrir allt landið ætti að vera til frambúðar á Laugarvatni eða aðeins fyrst um sinn og síðar meir starfræktur annarsstaðar. Um þetta ætla ég að fara fáum orðum. Þessi nýi liður er um það, að byrjað verði að kenna þeim íslenzku kennslukonum, sem stunda ættu þessi störf, og verði til þess varið tveggja vetra námskeiði. Þetta fyrirkomulag er það sama í báðum frv., bæði því, sem flutt var um húsmæðraskóla í Reykjavík, og í þessu frv. Ég hygg það sé venjulegt í næstu löndum, að þessir skólar fyrir kennslukonur séu tveggja ára skólar og er það byggt á því, að stúlkurnar hafi verið eitt ár í góðum undirbúningsskóla og hafi auk þess nokkuð mikla verklega æfingu og almenna menntun.

Ég ætla að fara um það nokkrum orðum, hve mikil nauðsyn er fyrir okkur að koma upp slíkum skóla, hvar sem hann verður.

Það er enginn vafi á því, að við Íslendingar gerum okkur mikinn skaða með því, hve ógrundvallaða þekkingu við höfum á okkar eigin matarhæfi- Eins og við höfðum fastan húsbyggingastíl fyrr á tímum, sem mótaðist af því, sem kringumstæðurnar leyfðu, en nú er að mestu leyti lagður niður vegna breyttra staðhátta, eins var líka fast fæði og fastar linur, sem farið var eftir um meðferð fæðuefna, svo ekki er hægt að neita því, að við höfum okkar sérstaka mataræði, þótt fæðan væri auðvitað af skornum skammti á hallæristímum. Með nýjum tímum komu svo nýjar, innfluttar vörutegundir, og þá breyttist okkar matarhæfi í þá átt, sem það er nú, og er það mjög óskipulegur og óskynsamlegur hrærigrautur, dýrt og óheppilegt. Sumt af okkar gömlu og góðu, fæðu hefir lagzt niður, harðfiskur t. d. er minna notaður en áður og skyr var til skamms tíma mjög fallið í verði, svo að þegar fólk upp til sveita, sem hafði nóga mjólk og gerði skyr, vildi veita langt að komnum gestum sem beztan beina, þá þorði það ekki að bjóða þeim skyr, heldur bjó til súpur úr útlendum efnum, sem voru dýrar og áttu miklu síður við á þeim stöðum.

Það, sem mest er aðfinnsluvert um íslenzkt mataræði, er, að það er hvorki fugl eða fiskur; það er samsteypa af margra landa matartilbúningi og ekki verið reynt að velja það úr, sem bezt hæfir okkar staðháttum og okkur sjálfum. Ég vil minnast á eitt atriði, þótt ég vilji ekki með því kasta á neinn hátt stefni á þann kaupstað, sem á hér fulltúa þann, sem er sessunautur minn, sem sé Siglufjörð. Enginn frýjar Siglfirðingum þess, að þeir séu duglegir að veiða síld. En þegar menn þeirrar þjóðar, sem mest hefir gert úr okkar ágætu síld, sem eru Svíar, koma til Siglufjarðar og Akureyrar og búast þar við að fá hina ágætu íslenzku síld, sem þá hungrar eftir í sínu eigin landi og hafa þar í mestu metum, þá er hvorki á Siglufirði eða Akureyri, almennt talað, mögulegt að fá síld tilsvarandi framreidda og hún er framreidd t. d. í Svíþjóð. Mikill hluti okkar þjóðar stendur í þeirri meiningu, að þessi fæðutegund, sem við framleiðum svo mikið af, sé algerð úrgangsvara, sem sé sæmilegt að geta skepnum, en ekki mönnum. Ég tek þetta dæmi aðeins af því, að það sýnir nokkuð glöggt, hvar við stöndum í þessu efni, og það er af því, að okkur vantar einhverja miðstöð, sem byrjar á því að endurreisa nútíma íslenzka fæðumeðferð á grundvelli okkar menningar og sögu og þeim fæðutegundum, sem við höfum. En það verður aldrei gert meðan hver kona, sem kenna á við húsmæðraskóla, verður að sækja þessa menntun sína til annara landa. Ég býst við, að allir séu mér samdóma um, að við verðum að fá þessa miðstöð, og ef við ekki fáum hana strax nógu góða, þá verðum við að bæta bana þar til hún er orðin svo góð, að þaðan komi þekking til að gera íslenzkt mataræði gott og heilbrigt, miðað við okkar kringumstæður.

Ég mun e. t. v. síðar minnast á þann smávægilega ágreining, sem orðið hefir okkar á milli í n., en læt hér staðar numið að þessu sinni. Ég álít, að frv. eigi að samþ. óbreytt og álit, að það sé byggt á fullum rökum, en jafnframt játa ég það, að hin hliðin, matreiðslukennslan og húsmæðrafræðslan í kaupstöðunum, er enn ófullkomin, en ég álít bezt fyrir henni séð með því, að hafinn verði skipulagður undirbúningur undir afgreiðslu hennar, sem svo fari fram á næsta þingi.