22.02.1938
Neðri deild: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

12. mál, skemmtanaskattur

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv., sem flutt er af mér og hv. þm. Borgf., þarf ekki mikilla skýringa við, vegna þess að það hefir tvisvar legið fyrir Alþ. áður. Og það hefir mætt hér mjög góðum móttökum, bæði í þeirri n., sem fjallað hefir um það, og sömuleiðis í þessari hv. d. sjálfri. Í bæði skiptin, sem það hefir legið hér fyrir, hefir því verið vísað til Ed. En þar hefir það ýmist verið fellt eða á annan hátt strandað. Nú vil ég freista þess í þriðja sinn, hvort hv. Ed. vill ekki sjá að sér við það, að hún athugi málið betur, og samþ. það.

Efni frv. er það, að undanskilja ungmennafélög skemmtanaskatti fyrir samkomur þær, sem þau halda til sveita. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ungmennafélögin eru lang-þýðingarmestu samtök, sem þekkjast og um langt skeið hafa þekkzt, til þess að halda uppi margskonar menningarstarfsemi í sveitum, og til skamms tíma þau einu. Þetta gera þau og hafa gert á ýmsan hátt, fyrst og fremst með því að glæða menningarlíf æskunnar í sveitunum og auka þá heilbrigðu glaðværð, sem æskunni er nauðsynleg, og sömuleiðis með því að ala fólk upp til þess að taka þátt í þeirri félagslegu starfsemi, sem bíður allra manna, þegar þeir þroskast. Ennfremur hafa þau barizt fyrir þörfum framkvæmdum hvert í sinni sveit og héraði. M. a. hafa ungmennafélögin að nokkru leyti staðið fyrir og styrkt héraðsskóla, sem undanfarin ár hafa verið stofnaðir, og fleiri menningarstofnanir hafa þau styrkt, sem kostað hefir mikið fé.

Einn liður í starfsemi ungmennafélaganna eru íþróttamót í sveitum. Þessi íþróttamót efla glaðværð og fjör í sveitum landsins, auka íþróttaáhuga og þar með íþróttastarfsemi. Og loks hafa þau verið að nokkru leyti notuð til þess að safna fé fyrir ungmennafélögin, sem þau þurfa, til þess að halda uppi þeirri starfsemi, sem þau hafa framkvæmt.

Nú er þannig ástatt, að Ungmennasamband Borgarfjarðar hefir um langt skeið haldið uppi föstum íþróttamótum í héraðinu og hefir valið til þess ákveðinn stað og kostað nokkuð miklu til í því sambandi. Á síðustu árum hefir hreppsnefndin á þessum stað fengið leyfi til að nota sér heimild l. um skemmtanaskatt til þess að leggja skatt á þessi mót í héraðinu, þannig að það er hvorki meira né minna en að ungmennafélögin verða að borga 20% af brúttó tekjum af mótunum til viðkomandi sveitarfélags. Nú þykir það ranglátt, að einn hreppur innan þessa héraðs — en að Ungmennasambandinu standa allir hreppar í tveimur sýslum — fái aðstöðu til að skattleggja þessa starfsemi Ungmennasambandsins. Ennfremur torvaldar þetta fyrir Ungmennasambandinu að halda uppi þessari og allri annari starfsemi þess, sem er m. a. að greiða nokkurn hluta stofnkostnaðar Reykholtsskólans, sem það hefir tekið að sér. Og Ungmennasambandið (U. M. S. B.) ætlar að stuðla að stofnun húsmæðraskóla í Reykholti, sem stefnt er að að stofna á næstu árum. Mér virðist ranglátt og óeðlilegt að skattleggja þessa starfsemi þessara ungu manna. Ég vænti þess því, að þessi hv. d. taki þessu máli með sama skilningi og að undanförnu. Og í þeirri von, að hv. Ed. sjái að sér, þá flyt ég málið hér í þriðja sinn. Og fullreynt er ekki fyrr en í þriðja sinn.

Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.