19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

12. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

N. hefir haft ýmsar till. um þetta efni, en þó hefi ég ekki orðið var við, að fram kæmi nema ein brtt., frá mér. Sú brtt. er ekki stórvægileg, en hún gefur öllum félagasamböndum sama rétt til skattfrelsis eins og ungmennafélagasamböndunum, ef allur ágóðinn af skemmtunum, sem haldnar eru fyrir heil héruð, rennur annaðhvort til menningar- eða styrktarstarfsemi. — Ég geri ekki ráð fyrir, að hreppsjóðum yrði mikill tekjumissir af þessari breyt., en aftur á móti verða með þessu móti allir jafnir fyrir l. Þessi breyt. á skemmtanaskattsl. kostar ríkissjóð ekki einn eyri, því að hún er gerð á l. frá 1922, sem eru breyt. á l. frá 1918 um skemmtanaskatt, sem rennur í bæjar- eða sveitarsjóði. Á þeim stöðum, sem hafa færri íbúa en 1500, gilda þau l. ennþá.

N. lítur svo á, að það sé ranglátt, að einn hreppur skattleggi aðrar skemmtanir en þær, sem haldnar eru fyrir innanhreppsmenn, en þegar skemmtanir séu haldnar fyrir heil héruð, þá eigi þau félög, sem standa fyrir skemmtununum, að fá að njóta teknanna af þeim, eða allir þeir hreppar, sem standa að mótinu, ættu að skipta skattinum á milli sin. En þar sem skemmtanaskatturinn er þess eðlis, sem hann er, er ekki nema eðlilegt, að undanþiggja þau félög skattgreiðslu, sem stofna til skemmtana til að afla sér tekna í menningar- og styrktartilgangi. Ég er hissa á því, hve hv. Ed. hefir staðið lengi á móti þessari sanngjörnu kröfu, og ekki sízt vegna þeirrar grg., sem fylgir frá Ungmennasambandi Borgarfjarðar. Vænti ég þess, að þetta frv-. verði að l., annaðhvort eins og það er eða með minni breyt. Ungmennasamband Borgarfjarðar á það skilið, að það sé ekki truflað í sinni starfsemi, því að það er að ýmsu leyti brautryðjandi í starfsemi ungmennafélaganna hér á landi.