06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1939

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég á ekki margar till. til hækkunar á fjárlagafrv., en þessar fjórar till., sem ég leyfi mér að flytja, eru á þskj. 425, og ber ég eina þeirra fram í félagi við hv. 8. landsk., XI. Sú till. er við 13. gr. B. 2 og er svipuð brtt., sem ég bar fram á síðasta þingi. Hún fer fram á að hækka liðinn um flóabátaferðir norðanlands um 1500 kr. Eins og hv. þm. e. t. v. muna, var gerð sú breyt. á þessum ferðum Norðurlandsbátsins, sem fór frá Selvík á Skaga og austur á Raufarhöfn og Þórshöfn, að Skagafjarðarferðirnar voru teknar undan af samvinnun. samgöngumála, vegna þess að komið varð á sérstökum bátsferðum um Skagafjörð í sambandi við flutninga á mjólk o. fl. til Siglufjarðar. En svo var til þess ætlazt, að Norðurlandsbáturinn, sem um langan aldur hafði verið eini flóabáturinn þar nyrðra og haft 13000 kr. styrk, væri látinn halda þeim styrk, þótt Skagafjarðarferðirnar félli niður, með því skilyrði, að hann færi til Seyðisfjarðar. Nú er það vitanlegt öllum þeim, sem til þekkja, að ferðirnar vestur á Sauðárkrók eru ekki eins kostnaðarsamar eins og ferðirnar frá Þórshöfn austur á Seyðisfjörð, þótt þörfin sé sízt minni á því svæði. Þessi leið er miklu torsóttari en vestur á bóginn, og það er í raun og veru ekki nema bjarnargreiði að þessari breyt. — Ég held, að allir, sem til þekkja þarna norður frá, hljóti að sjá, að hér er um sanngirnismál að ræða.

Þá kem ég hér að annari brtt. á þskj. 425 XX, sem er gamall kunningi á þingi. Fyrirrennari minn, fyrrv. þm. Ak., hr. Guðbrandur Ísberg, flutti á nokkrum þingum beiðni f. h. bæjarstjórnarinnar á Akureyri um styrk til sundlaugarinnar þar. Tókst honum að fá tvisvar 5000 kr., eða alls 10000 kr. Nú var það hálfgerðum loforðum bundið, að eitthvert framhald skyldi verða á þessum styrk. Mér heppnaðist ekki á síðasta þingi að koma þessu í kring, og fer ég því fram á það enn. Ég vil benda hv. þm. á að hér er um sanngirnismál að ræða, sérstaklega ef umræddur styrkur er borinn saman við styrki til annara sundlauga hér á landi. Sundlaugin á Akureyri er talin sú langfremsta sundlaug, sem við eigum. Fyrir þremur árum lagði bærinn hitavatnsleiðslu til hennar, og mun kostnaðurinn nú nema 100000 kr. Það ættu því flestir að geta séð, að bærinn á að fá meiri opinberan styrk til þessa fyrirtækis, og mér hefir verið sagt, að það hafi verið hugmynd fjvn. áður fyrr, að styrkveitingum til þessarar laugar skyldi haldið áfram, þar til Akureyri hefði fengið 30 þús. kr. En sem sagt, 10 þús. kr. eru komnar, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að ef þessi 5 þús. fengjust nú, myndi bæjarstjórnin gera sig ánægða með það og ekki fara fram á frekari styrk. Ég vona þess vegna, að hv. þm. líti í náð til till. og samþ. þessi 5 þús., svo að það sé úr sögunni.

Þá eru hér enn á sama þskj. tvær smábrtt. við 15. gr. 44,XXlI. Önnur er um, að veita Hallgrími Valdimarssyni 500 kr. styrk í viðurkenningarskyni fyrir störf hans í þágu leiklistarinnar. Mér er kunnugt um nokkra hv. þm., sem þekkja þennan mann og vita um hans störf. Hann er nokkuð roskinn og hefir milli 3040 ár helgað starfskrafta sína í þágu leiklistarinnar. Hann hefir látið mest til sín taka á Akureyri á þessu sviði, og mér er óhætt að segja, að hann hafi ekkert borið úr býtum fyrir þetta verk, heldur rækt það af einskærum áhuga. Þess vegna datt mér í hug að fara fram á, þótt ekki væri meira en 500 kr. í viðurkenningarskyni til þessa manns. Bak við þessa beiðni eru áskoranir frá mörgum málsmetandi mönnum á Akureyri um framhaldsstyrk, nokkurskonar ellistyrk, handa þessum manni. Ég mæli sérstaklega með því, að honum verði veittar þessar 500 kr., þótt ekki væri nema í eitt skipti fyrir öll. Ég veit, að það eru margir sammála mér um, að Hallgrímur valdimarsson sé vel að því kominn. Hin brtt., sem ég minntist á, er um 1500 kr. námsstyrk handa Gróu Torfhildi Jónsdóttur. Það er stúlka, sem á heima hér í bænum, býr með móður sinni, fátækri ekkju, systur Einars Jónssonar. Þessi stúlka er þurfandi fjár og sérstaklega þurfandi fyrir frekari menntun á sviði hljómlistarinnar. Hún er búin að ljúka fullnaðarprófi við tónlistarskólann hér og hefir fengið glæsileg meðmæli tveggja kennara sinna. Og þeir, sem til þekkja, álíta mikinn skaða, ef hún gæti ekki fengið tækifæri til að afla sér frekar menntunar á þessu sviði.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessar brtt. Það verður ekki sagt, að ég sé frekur til fjárins, og hafa þar margir gengið lengra. Ég vona, að það verði tekið mildum höndum á þessum brtt. mínum og að þær nái fram að ganga.

Annars vil ég taka undir það með hv. 2. landsk., að það er til lítils að vera að mæla með till. sínum fyrir næstum tómum bekkjum. Við erum hér í Sþ., og það er ekki nema 1/4– 1/5 hluti þm., sem hlustar. Tilgangurinn með því að mæla með brtt. er sá, .að reyna að hafa áhrif á þm. Það má kannske segja þessu kæruleysi þm. til afsökunar, að það sé einveldi n., sem öllu ráði, komist varla nokkurt mál í gegn, nema n. mæli með því. En til hvers er þá að gefa okkur tækifæri til að koma með brtt., ef ekki á að taka neitt tillit til þeirra, þegar þær eru bornar fram af einstökum mönnum.