19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

12. mál, skemmtanaskattur

*Pétur Ottesen:

Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að þetta frv., sem við hv. þm. Mýr. flytjum hér, skuli hafa mætt slíkum andmælum, og ekki síður undrast ég, að hv. þm. V.- Ísf. skuli hafa þótt ástæða til að koma með brtt. við frv., í stað þess að fylgja því eins og það er.

Ég ætla, að þetta sé í þriðja skiptið, sem þetta mál er borið fram hér á Alþingi, og í tvö skiptin hefir það gengið í gegnum þessa deild orðalaust og með einróma samþykki. En í Ed. hefir málið strandað, af því að komið hafa till. um að blanda inn í það alveg gersamlega óskyldum atriðum. Það, sem í þessu felst, er ekkert annað en það, að ekki sé verið að skerða þann möguleika, sem ungmennafélögin hafa til þess að afla fjár til íþróttaiðkana í sveitum landsins og til þess að stuðla að annari menningarstarfsemi þar. Til þess að afla fjár í þessu skyni, hafa félögin farið þá leið að halda opinberar samkomur til skemmtunar. Aðrar leiðir til fjáröflunar í þessu skyni eru ekki til, nema hvað einstakir félagsmenn leggja fram árlega félagsgjöld. Það, sem hefir komið hér fram gagnvart þessu frv., get ég ekki samrýmt við þann hug, sem fram hefir komið í Alþ., að einmitt íþróttastarfsemin virðist hafa átt hér nokkuð miklu gengi að fagna vegna þýðingar hennar fyrir þjóðina í heild. Mér virðist því hér vera orðin einkennileg afstaða í þessari d. til þessa máls, þar sem bent hefir verið á dæmi þess, að heimildinni til að skattleggja starfsemi þessa hefir af einstökum sveitarfél. verið þannig beitt, að orðið hefir mjög til að skerða þann ávinning, sem annars var um að ræða fyrir slíkan ungmennafélagsskap. Það er harla undarlegt, ef Alþingi vill ekki sjá við þessum leka, svo að ungmennafélögin fái til fulls notið sín til að vinna að þessu stórmikla nauðsynjamáli fyrir sveitir landsins. Við þekkjum ákaflega vel, hvernig straumarnir liggja í þjóðfélagi okkar. Fólkið streymir úr sveitum í kaupstaðina, og fyrir afleiðingarnar af því er alls ekki séð. Og þess vegna er það, að allt, sem getur miðað að því, að skapa samstarf og samheldni í sveitunum, styður frekar að því að halda fólkinu kyrru, og er því slík viðleitni mjög þjóðnýtt og nauðsynlegt starf.

Það er verið að tala um að færa þessa heimild út og undanþiggja fleira, nefnilega verkalýðsfélögin. Mér virðist þetta algerlega ósambærilegt. Því að það má segja, að að því leyti sem verkalýðsfélögin kunna að vera stofnuð í pólitískum tilgangi, þá sé verið að styðja þau til framdráttar pólitískra hagsmunafélaga, sem eru jafnaðarmannafélögin í þessu landi. Mér finnst það þá alveg sambærilegt að undanþiggja árshátíðir annara pólitískra flokka í þessu landi frá skemmtanaskatti. En að þessi félagsstarfsemi sé sambærileg við starfsemi ungmennafélaganna, sem er algerlega ópólitísk og byggð upp af mönnum úr öllum pólitískum flokkum í landinu, það nær vitanlega ekki neinni átt. Að vera að láta Alþingi hnjóta um slíka fleyga í afgreiðslu þessa máls, er því sjálfu ósamboðið. Mér virðist þessi starfsemi ungmennafélaganna, íþróttirnar og önnur hliðsfæð menningarstarfsemi, svo þjóðnýt og mikils verð, að þar eigi Alþingi að hlynna að eftir beztu getu, enda hefir Alþingi tekið ákvörðun um það að veita nokkurn fjárstyrk til þessarar starfsemi á fjárl. um nokkuð langt árabil. Og því óskiljanlegra er, ef þingið vill ekki standa með ungmennafélögunum, þegar um er að ræða að komast undan skattlagningu heima í héraði, sem dæmi eru til, að hafi skert mjög hagsmuni félaga og getu til þess að vinna að menningarmálum sínum.

Ég sé á brtt. hv. þm. V.-Ísf., að hann vill ekki hafa undanþágnna tortakslausa, en leggur hana í vald ráðuneytisins. Auk þess vill hann ekki einskorða hana við héraðsmót ungmennafélaga, eins og frv. okkar gerir ráð fyrir. Ég sé ekki, hvað fyrir bv. þm. vakir. Eftir því, sem við höfum átt að venjast, held ég, að geti ekki verið um önnur héraðsmót að ræða en þau, sem ungmennafélögin hafa staðið að. En sé það einhver íþróttastarfsemi utan ungmennafélaganna, sem hann vill ekki útiloka, þá get ég verið sammála, því að meining okkar flm. er, að þetta nái til allra héraðsmóta, sem stofnað er til í því skyni að efla íþróttastarfsemi. — Þá er hin breyt., að þeir, sem að héraðsmótum standa, eigi undir ríkisstj. á hverjum tíma, hvort veitt sé undanþága eða ekki. Það er töluvert ótryggari grundvöllur heldur en að slá alveg föstu í l., að héraðsmót sem haldin eru í þessum tilgangi, séu gersamlega undanþegin skatti. En ef það er nú svo, að sú breyt. er á orðin í Nd., að þm. vilji ekki stuðla að framgangi frv. í þeirri mynd, sem það er nú, en vilja heldur hallast að brtt. V.-Ísf., þá er það náttúrlega betra en ekki. því að ég veit, að um héraðasambönd muni vart vera að ræða önnur en þau, sem vinna að því markmiði að efla og styrkja íþróttastarfsemina. Og þá verður líka að vænta þess; að ríkisstj. á hverjum tíma kunni svo að meta þessa menningarstarfsemi, að hún veiti slíka undanþágu, þegar farið er fram á hana. Ég vil þess vegna ekki set ja mig á móti því. að þessi brtt. verði samþ., þó að ég teldi eftir öllum eðlilegum hætti ástæðulaust að ýfast við frv. eins og það er. Og ég verð að kalla það óskiljanlegar raddir, sem komið hafa gegn þessu frv. frá fulltrúum sveitahéraða, sem hljóta þó að kunna að meta mikilvægi þeirrar starfsemi, sem ungmennafélög og aðrir hafa með höndum, sem gæti stuðlað að því að stöðva heldur þann óholla straum fólksins úr sveitum í kaupstaði, þar sem það hefir síður en svo betra að hverfa að, þó að ýmislegt sé náttúrlega fátæklegt í sveitinni.