19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

12. mál, skemmtanaskattur

*Pétur Ottesen:

Mér skilst eftir því, sem fram kemur hjá hv. frsm., að hann ætlist til, að þetta nái út yfir allar skemmtanir allra þeirra félaga, sem hægt er að koma undir það nafn, að heita héraðsmót. Og ef svo þessi félög lýsa yfir því, að tilgangur þeirra sé að nota það, sem þannig aflast, til þessara hluta, sem hann nefndi, þá séu þau leyst frá skatti. Mér finnst vera harla lítið samræmi í því hjá hv. þm., að taka upp þarna einn félagsskap, sem hefir á sér pólitískan stimpil, sem verkalýðsfélögin hafa vitanlega. Ég veit, að innan verkalýðsfélaganna er nokkur tvískipting, — að menn þurfa ekki beinlínis að marka sig undir mark sósíalistaflokksins, þó að þeir séu í verkalýðsfélagi. En það er þó svo um þá hnúta búið, að menn eru skyldaðir með samtökum til að ganga í verkalýðsfélag, að viðlögðu því, að vera ella sviptir atvinnu, hvort heldur til sveita eða við sjó, svo að að þessu leyti leggur slíkur félagsskapur þvinganir á menn. Hitt fer svo náttúrlega eftir atvikum, hversu það tekst, að þvinga upp á menn þeim skoðunum, sem jafnaðarmannafélögin bjóða upp á. Mér virðist því, að frá þessu sjónarmiði sé ekki ástæða til að taka þessi félög sérstaklega. Því að t. d. aðrir póli tískir flokkar í þessu landi gætu einnig farið að halda samkomur, sem þeir kölluðu héraðsmót, í því augnamiði að afla fjár til menningarstarfsemi eða hjálparstarfsemi. því þá að útiloka þá? Ég sé ekki, að nokkurt samræmi sé í þessum hlutum. Þess vegna er það tilgangur okkar flm. að miða þetta alveg sérstaklega við þann félagsskap, sem hefir að markmiði að vinna að íþróttum og menningarstarfsemi í sveitunum. Höfum við því miðað þetta við ungmennafélögin, því að einmitt innan þeirra vébanda er unnið að þessum málum alveg sérstaklega. Ég held einmitt, að eftir að ég hefi fengið þessa skýringu hjá flm. till., þá verði ég að halda mjög fast við frv. eins og það er, og greiða atkv. á móti brtt., — í trausti þess, að sú stefnubreyting sé ekki orðin hér í hv. Nd., að í stað þess að samþ. þetta frv. einróma, verði því spillt eða fellt eins og raun hefir orðið á í Ed. að undanförnu.